23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Enn sem áður hefir farið öðruvísi en við var að búast. Mestar umræður hafa orðið um 16 gr., og virðast þó allir vera þar sammála.

Vil jeg nú leyfa mjer að drepa á ýms atriði, sem fram hafa komið í ræðum háttv. þdm., og vil jeg þá fyrst snúa mjer að hæstv. atvrh. (P. J.). Hann fann að því, að fjvn. hefði verið of ör á fje við 14. og 15. gr., en þá hjelt jeg satt að segja, að hann mundi geta fylgt nefndinni um 16. gr., þar sem nefndin hefir það eitt fyrir augum að styðja atvinnuvegina, eftir því, sem efnahagur leyfir.

Vil jeg þá fyrst minnast á það, sem hann sagði um sandgræðsluna. Jeg veit frá fornu fari, af samstarfi okkar í fjvn. um mörg ár, að hann er mjer samdóma um nauðsyn þess að verja landbroti. En hann taldi þessar 5000 kr., sem nefndin leggur til, að bætt verði við, mundu hrökkva skamt. Satt er það, en þó mundu þær nægja til þess að hefta að nokkru leyti nýja sandgárann í Holtunum, sem ógnar heilli sveit með eyðingu. Og þar sem hinu er nú öllu ráðstafað, svo að það verður eigi til þessa notað, hygg jeg, að háttv. þdm. skiljist, að þessi viðbót sje eigi ófyrirsynju veitt. Og ef hæstv. atvrh. (P. J.) finnur að því einu, hve upphæðin er lítil, þá má hann vita það, að nefndin er fús til að fallast á hækkun, ef hann fer þess á leit.

Hann kvaðst hafa felt niður styrkinn til búnaðarfjelaganna vegna þess, að lítið gagn mundi að verða, ef styrknum yrði úthlutað svo, sem áður hefir verið. Jeg þóttist nú einmitt hafa tekið fram, að það er ekki tilætlun nefndarinnar. Nefndin ætlast til, að styrknum sje úthlutað eftir dagsverkatölu til fjelaganna, en ekki til einstakra fjelagsmanna.

Það er tilætlunin, að þessum styrk væri ekki úthlutað eftir dagsverkatölu, heldur væri fjenu varið til búnaðarframkvæmda, t. d. verkfærakaupa o. fl., sem þar að lýtur. Lagði nefndin mesta áherslu á, að styrkurinn væri veittur áfram, til þess að þar væri hvatarefni fyrir fjelagið til þess að halda áfram starfsemi sinni, og eins fyrir ný fjelög að verða til. Tel jeg þar með svarað fyrirspurn þeirri, sem hæstv. atvrh. (P. J.) lagði fyrir mig um þetta efni.

Um liðinn, sem snertir Gísla Guðmundsson, sagði hæstv. atvrh. (P. J.), að hann teldi rjettast, að steypt yrði saman styrk þeim, sem væntanlega yrði veittur honum til rannsókna á kjöti, og launum þeim, er hann fær fyrir gerlarannsóknir sínar, og fært alt undir þann lið. Hjer er því til að svara, að nefndin leit svo á, að það væri hjer að ræða um dálítið óskyld efni, og því væri rjettast að hafa þetta sjerstakan lið. Jeg býst líka við, að það verði erfitt að hrekja þá skoðun nefndarinnar, því að eins og flestir vita, heyrir þreyta í vöðvum alls ekki undir gerla eða orsakast af þeim.

Þá sagði hæstv. ráðherra (P. J.) um bryggjurnar á Blönduósi, að ótrúlegt væri, að þetta hjerað legði út í þann kostnað, að ráðast í tvær bryggjusmíðar í einu. Hvað sem ágiskunin hæstv. atvrh. (P. J.) líður. þá ætlar nú hjeraðið að ráðast í þetta, og þar sem það leggur svo mikið af mörkum sjálft til þessa fyrirtækis, þá ætti það ekki að verða til að draga úr þm. að veita fjeð, heldur hið gagnstæða. Þetta er bæði nauðsynjamál þessu hjeraði, og ætti auk þess að geta orðið gott fordæmi öðrum hjeruðum landsins í þessum efnum, og er þess síst vanþörf, þar sem höfnum og lendingarstöðum hjer er víða svo mjög áfátt.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að styrkur sá, sem áætlaður væri til að dýpka innsiglinguna að Stokkseyri, myndi ekki koma að gagni, sökum þess, hve lítill hann væri. Gagnvart þessu skal jeg taka það fram, að það liggja hjer fyrir skilríki þeirra verkfræðinganna Krabbe og Kirks, og benda þau til alls annars en að svo sje, sem hæstv. ráðherra (P. J.) segir. Hefir Krabbe sagt, að áreiðanlega megi fara eftir kostnaðaráætlun þeirri, sem gerð hefir verið; segir hann, að dýpkun hins vestra sunds muni kosta 14000 kr., en hins eystra 8600 kr. Verður það þá, eins og áætlað hefir verið, 22–24 þúsundir alls, og þær 8000 kr., sem nefndin hefir lagt til að veittar yrðu, 1/3 kostnaðarins.

Jeg á bágt með að samsinna því hjá hæstv. atvrh. (P. J.), að nokkur ástæða sje til að óttast, að fje þessu verði þar með á glæ kastað, því að jeg hygg, að vart hafi annað fyrirtæki hjer á landi verið betur undirbúið en þetta.

Þá mintist hæstv. ráðherra (P. J.) á skurðgröftinn í Miklavatnsmýri. Jeg skal þar bæta því við, að í skýrslu frá Geir Zoega verkfræðingi um þetta er eindregið lagt til, að þessi styrkur verði greiddur, og nemur sú upphæð 4800 kr. Á síðasta fjárlagaþingi voru veittar 3000 kr. til þessa, og eru það því 1800 kr., sem með þessu yrði bætt við. Nefndin leggur fastlega til, að þetta fje verði greitt, og telur það í fylsta máta sanngjarnt, enda mun ekkjunni full þörf á að fá sinn skaða bættan.

Að því er snertir ráðunautinn Jóhann Kristjánsson, þá hefi jeg ekki getað skilið í því, hversvegna hæstv. atvrh. (P. J.) hefir felt hann niður, þangað til nú, er hann í ræðu sinni skýrði frá ástæðunni. En það verð jeg að játa, að sú ástæða þótti mjer heldur bágborin og alt að því ómannúðleg. Mjer finst það heldur hart, þó að nú sje ilt í ári og örðugt að afla húsaviðar, að ætla sjer að kasta þeim manni út á klakann, sem svo hefir unnið dyggilega um margra ára bil í þarfir landsins sem þessi. Virðist mjer rjett að láta manninn hafa sæmileg laun í bili, svo að hann megi vel lifa af, og sjá svo, hverju fram vindur. Er vonandi, að bráðum ljetti svo af þessari óáran, að hægt verði að taka hjer til starfa. Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir annars talað áður um þetta mál og fært fram gild rök fyrir, að þetta sje nauðsynlegt. Jeg var fyllilega samþykkur röksemdum hans, og jeg þori að segja það fyrir hönd bænda, bæði þeirra, sem hjer eiga hlut að máli, og annara, að þeim er ekki þægara verk gert en að láta þá fá góðan mann og rjettlátan fyrir ráðunaut, sem getur forðað þeim frá að lenda í greipum spekúlanta, sem annars kynnu auðveldlega að fjefletta þá. Þessi maður á einmitt þann eiginleika, sem mestu varðar hjer sem víðar, — hann er áreiðanlegir og heilráður maður.

Jeg vænti þess nú fastlega, að hæstv. atvrh. (P. J.) komi annaðhvort fram með brtt. að þessu lútandi eða biðji nefndina að koma aftur inn þessum lið.

Háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) drap á Búðareyri í ræðu sinni og ljet í ljós undrun sína yfir gerðum nefndarinnar í því máli. Jeg get þá sagt honum það, að ástæðan til þess, að nefndin lagði ekki til, að veitt væri nema 1/3 af upphæðinni, var sú, að hún bjóst við, að verðfall yrði svo mikið, að allur kostnaður mundi lækka svo, að þessi upphæð dygði; en ef svo verður ekki, þá býst jeg varla við, að nokkur tregða verði á því, að fjvn. á næsta þingi veiti það sem eftir er.

Í ræðu háttv. þm. Borgf. (P. O.), sem annars var að mestu sammála mjer, er aðeins eitt atriði, sem jeg vil minnast á, þótt það komi þessu máli ekki beint við. Það er þessi skoðun verkfræðinganna, að ódýrara verði að veita raforku til Reykjavíkur úr Andakílsá en úr Soginu. Jeg býst ekki við, að þær rannsóknir, sem hafa verið gerðar þar að lútandi, hafi við svo mikið að styðjast, að á því sje byggjandi. Eftir því, sem jeg fæ skilið, yrði að taka meiri straum og hafa digrari leiðslu, ef valin yrði sú leiðin, sem þeir ráðgera, og auk þess þyrfti á sæleiðslu að halda yfir fjörðinn, en hún er jafnan miklu dýrari. Á jeg yfirleitt örðugt með að trúa, að ekki verði ódýrara að leiða raforkuna frá Soginu, eins og áður hefir verið ætlað, og býst jeg við, að þeim ágætu verkfræðingum hafi skotist í þessu efni.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) brást reiður við, þegar jeg sagði, að nefndin væri mótfallin till. um að hlaða mörgum hreppstjórum á bakið á Sigurði Ólafssyni. Þessu fylgdu annars engin heiftarorð af minni hálfu til þessara manna. Jeg veit, að Einar á Nesi er gamall og fátækur maður, sem líklega hefir þörf á að fá einhvern stuðning. en hinn manninn tel jeg alls ekki þurfa styrk; að minsta kosti eru hjer á landi margir hreppstjórar, sem fremur þyrftu hans með.

Það er annars fjarri mjer að vilja ýfast við hreppstjóra, enda væri slíkt heldur óhyggilega gert af mjer, þar eð ekki sitja færri en 9 hreppstjórar hjer í deildinni; og það segi jeg, að ef þessi maður fengi styrk, þá vildi jeg láta bæta þeim við. Skal jeg til gamans nefna hv. form. fjvn. (Þorl. J.). Hann er nú búinn að vera hreppstjóri í 30 ár og væri víst allverðugur fyrir slíkan styrk.

Það er hreinasti misskilningur hjá hv. þm., að jeg hafi með þessu haft í hyggju að sýna þor mitt og karlmensku, að leggjast á hreppstjórana. En þess vegna mun háttv. þm. hafa flogið þetta í hug, að hann hefir öðrum fremur getið sjer orðstír í þessum efnum. Hefir hann eins og kunnugt er, sýnt karlmensku sína með því að leggjast á prestsekkjur og aðra, sem farið hefir verið fram á að styrkja.

Þá brást háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og reiður við, þegar jeg mintist á prestana áðan. Það var fjarri því að vera ætlun mín að fara að lasta prestastjettina, því að jeg veit vel og viðurkenni það, að prestar hafa verið manna þarfastir hjer á landi. Ef háttv. þm. (S. St.) kynni nokkuð að því að ráða svip manna, þá hefði hann líka vel mátt sjá, að sú athugasemd mín var fremur af glensi gerð en að hugur fylgdi máli. Jeg hefi líka oft sýnt, að jeg er prestavinur, þótt jeg þyki lítill trúmaður, og man jeg meðal annars, að það er ekki alllangt síðan, að jeg studdi háttv. þm. (S. St.) að því að fjölga prestunum, þótt hann hafi eigi launað mjer eins prestslega og vænta mátti af slíkum guðsmanni.

Þá vil jeg enn minna á till. um fjárveitingu til Þórdísar Ólafsdóttur, til þess að halda áfram skólahaldi sínu. Þessi kona hefir unnið mikið gagn með starfi sínu og hefir fengið mjög góð meðmæli sýslumannsins í Dölum og ýmsra annara merkra manna í Dalasýslu, sem eindregið mæla með því, að henni verði veittur styrkur úr ríkissjóði, til að halda áfram kenslustarfi sínu.

Jeg held svo, að það sje ekki fleira, sem jeg þarf að minnast á. Það ætti að vera óþarft að endurtaka það, að hjer er ekki um að ræða neitt kappsmál af minni hálfu, heldur hefi jeg nú aðeins skýrt frá því, hverjar eru till. nefndarinnar og um hvað hún hefir ekki sjeð sjer fært að gera till.

Jeg vænti þess svo, að þeir, sem eftir mig tala, stilli orðum sínum svo í hóf, að jeg verði eigi til neyddur að tala í 3. sinn.