23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það er nú orðið heldur áliðið dags, og skal jeg því reyna að vera svo stuttorður, sem mjer er frekast unt.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hjelt, sem von var að, ræðu mikla um sandgræðslutill., og heyrði jeg af orðum hans, að hann heldur, að hugur minn standi öðruvísi til þess máls en er. Jeg væri alls ekki á móti því, að þetta fje yrði veitt, ef jeg hefði nógu mikla von um, að það hrykki til að stöðva jarðspellin. En mín skoðun er sú, að það komi ekki teljandi að liði, svo lítið sem það er. Það má vera, að þetta sje trúarskortur hjá mjer, en jeg lít svo á, að allar fjárveitingar verði að spara á þessum vandræðatímum, sem hætt er við, að ekki komi að nokkurn veginn tilætluðum notum. En nú munu Rangvellingar hafa trú á þessu, og vona jeg að þeir sýni það þá með því að leggja fram ríflegar fje, á móts við landssjóð, en þeir hafa áður gert, sem áður hafa notið styrks til sandgræðslu, og trúi jeg þeim vel til þess.

Jeg skal annars lýsa yfir því, að viðnám landbrotanna í Rangárvallasýslu er eitt af þeim fyrirtækjum hjer á landi, sem jeg hefi mesta trú á, þegar nóg fje er fyrir hendi til þess að geta tekið það með nógum krafti. Jeg hefi því allan vilja á, að því sje hrundið sem fyrst til framkvæmda, en það er fjárskorturinn, sem er hjer, eins og víðar, þrándur í götu.

Háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) talaði með þjósti til mín, út af ummælum mínum um dýpkun innsiglingar til Stokkseyrar. Að vísu er hann umboðsmaður þeirra þar eystra, en þó gæti hann reynt að tala með meiri kurteisi. Jeg endurtek það, að jeg hefi ekki trú á þessu fyrirtæki, nema mikið meira fje kæmi til, en það er ekki unt að veita. En hitt er að kasta peningum í sjóinn, að veita svo lága upphæð, að hún komi ekki að notum.

Þá hefir stjórninni verið borið það á brýn, að hún hafi viljað draga 10 þús. kr. af Fiskifjelagi Íslands. Jeg hefi því miður ekki þau plögg við hendina, sem að þessu lúta, en jeg get fullyrt, að það voru liðir á áætlun fjelagsins, sem stjórnin varð að telja óþarfa. Það var fje til rannsóknar leiðum og lendingum og kaup til verkfræðilegrar aðstoðar. Jeg held, að fjelagið hafi einusinni sent mann kringum landið til þess að athuga leiðir og lendingar, en skýrslu um árangur þessarar farar hefi jeg ekki sjeð. Efast jeg ekki um, að fjelagið hafi þar gott yfirlit, eftir því sem leikmaður getur gert. Þarf til þess meira fje en unt er að veita nú, og aðra menn en fjelagið hefir á að skipa, ef halda á áfram á sama hátt. En svo hefir Kirk heitinn rannsakað á miklu fullkomnari hátt hafnarstæði og lendingar víðs vegar um land, og er það stórt verkefni, sem verið er að lúka við, að vinna úr hið nauðsynlegasta fyrir næstu árin.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) talaði um Jóh. Kristjánsson húsagerðarmann, og beindi ákúrum að stjórninni fyrir það, að hún hefði ekki tekið hann í fjárlögin. Jeg hefi áður skýrt frá ástæðum til þessa, og þarf ekki að endurtaka þær. Nú er mjög lítið um byggingar, og því lítið starf fyrir manninn sem stendur.

Háttv. þm. Mýra (P. Þ.) talaði um laun skógvarða, sem hafa slæðst inn í liðinn til skóggræðslu, einungis í fyrirsögninni. Og er það af vangá í hreinskrift stjórnarfrv. Þarf að lagfæra þetta, og er jeg honum þakklátur fyrir að benda á það, enda er þarna um vangá að ræða í frv., sem leiðrjetta má.

Þá vík jeg aftur að Búnaðarfjelagsstyrknum. Um hann hafa ýmsir talað. Jeg skal taka það fram, að jeg skal ekki leggjast á móti því, að hann verði hækkaður í 30 þús., ef fjenu verður aðeins varið til fjelagsstarfsemi. En viðvíkjandi athugasemdinni um þetta efni, tel jeg rjettara að hafa hana skýrari.

Jeg skal þá víkja að háttv. frsm. (B. J.) örfáum orðum. Honum þótti jeg nokkuð þungur á móti, viðvíkjandi 16. gr., þar sem ætla mætti, að skoðanir mínar og nefndarinnar fjellu saman. En jeg var ekki að leggjast á móti nefndinni, heldur var jeg að skýra, hvað vakað hefði fyrir stjórninni, þegar sú grein var samin. Jeg hefi viljað setja mjer það mark að stilla fjárveitingum svo í hóf, að hægt sje að sigla þjóðarskútunni heilu og höldnu í höfn. Þetta hefir verið mark stjórnarinnar, og hafa fjárveitingar til atvinnu- og samgöngumála farið eftir því. Jeg tel ekkert unnið við það að samþykkja fjárveitingu til margra framkvæmda, þegar fyrirsjáanlegt er, að ekki verður hægt að greiða peningana. Jeg tel þá ver farið en heima setið. Skútunni verður að sigla heilli í höfn, til þess að hún verði viðbúin því fyr að leggja út aftur með fullum seglum, þegar veður lægir og betur byrjar. Við höfum beðið tjón, og við því er ekkert að segja eftir á, en það á að vera okkur áminning um að fara varlegar næst, því að það gæti verst hent okkur, ef skipið strandaði nú.