23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

41. mál, fjárlög 1922

Magnús Jónsson:

Jeg stend upp nauðugur. því að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þóknaðist í dag að henda til mín þeim hnútum, sem jeg get ekki setið undir.

Jeg fann ástæðu til að ræða einu lið í brtt. nefndarinnar, og tók um leið tækifæri til þess að minnast á Faust. Jeg andæfði till. háttv. þm., og gerði jeg það með rökum og illindalaust. Mjer kom það því á óvart, að háttv. þm. (Sv. Ó.) stóð upp og sneri út úr orðum mínum um Faust, biblíuna og passíusálmana. Jeg lagði ekki þessar bækur á sama mælikvarða, heldur benti á gildi þeirra, hverrar fyrir sig, og taldi þær allar stórmerkilegar og mörgum mönnum nauðsynlegar. Verður háttv. þm. (Sv. Ó.) að afsaka, þótt mjer verði á að nefna ritninguna með, þegar jeg nefni góðar bækur. En það hefði verið afsakanlegt, ef háttv. þm. (Sv. Ó.) hefði látið sjer nægja að snúa þannig út úr; honum er ekki óvön sú iðja. Hitt þótti mjer leiðara, að hann fann ástæðu til þess að gera mjer upp lubbalegar hvatir. Hann gat þess til, að jeg hefði farið í hrossákaup og verið að mæla með mínum eigin styrk. Viljann vantaði hv. þm. (Sv. Ó.)ekki til þess að reyna að svívirða mig, en vitsmunirnir voru ekki að sama skapi. Jeg hefi ekki haldið hingað til, að Faust væri svo vinsæll, að hægt væri að afla sjer atkv. með því að mæla með honum.

Jeg býst við, að ummæli háttv. þm. (Sv. Ó.) hafi átt að skiljast svo, að jeg hafi gengið meðal manna og „agiterað“ fyrir sjálfum mjer. Sje þetta rjett skilið hjá mjer, felst í þessu óskemtileg aðdróttun. Jeg vil nú skora á þá háttv. þm., sem jeg hefi „agiterað“ í, að gefa sig fram og gefa skýrslu. Ef svo fer, sem jeg veit, að enginn verður til þess, því að jeg hefi við engan talað í þessu skyni, þá get jeg ekki gert að því, þó að háttv. þm. (Sv. Ó.) standi sem ómerkari maður eftir þetta algerlega tilefnislausa, en eitraða gorkúlukast til mín.