30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg vil byrja mál mitt á því að þakka hv. deild fyrir undirtektirnar undir brtt. þær, sem fjvn. bar fram við aðra umr. málsins.

Enn ber fjvn. fram nokkrar brtt., sem fara fram á 238 þús. kr. gjaldaauka, en af því eru 145 þús. kr. endurveiting, svo hinn beini gjaldaauki er aðeins 93 þús. kr. En eins og frv. var komið, eftir 2. umr., þá var gjaldaaukinn orðinn 298 þús. kr.

Sumum háttv. þm. þótti þetta mikil hækkun, en mjer þótti hækkunin, satt að segja, undarlega lítil í samanburði við gjaldahlið fjárlaganna.

Útgjöld ríkissjóðs á fjárlögunum nema um 9 miljónum kr., en vöxtur hefir orðið tæp 300 þúsund, eða ekki 3% af útgjöldunum. Og er það víst einsdæmi í þingsögunni, að ekki hafi verið hlutfallslega meiru við útgjöldin aukið. Það sjá allir heilvita menn, að ekki er rjett að miða útgjaldaaukann við króuutölu, heldur við hlutfallið milli gjaldanna og gjaldaukans.

Við 2. umr. var fjvn. nokkuð álasað fyrir eyðslusemi, en stjórninni jafnframt hælt fyrir sparsemi. Kann þetta rjett að vera. En þó get jeg ekki sjeð nein viðbrigði í sparsemi stjórnarinnar frá því, sem verið hefir á fyrri árum. Gjöldin eru nú 3 miljónum kr. hærri. Segi jeg þetta ekki til ámælis hæstv. stjórn, heldur aðeins til þess sýna fram á, að ekkert er farið öðruvísi að nú er áður. En eitt er þó hrósvert við frv. stjórnarinnar, og það er, að hún hefir áreiðanlega áætlað sumar fjárhæðirnar ríflegri en áður hefir tíðkast. En þó verð jeg að halda því fram, að fjvn. og háttv. deild hafi verið, að sínu leyti, engu síður sparsamar en stjórnin.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta alment, heldur snúa mjer að þessum fáu brtt., sem fjvu. á við þennan kafla fjárlaganna (1.–13. gr.).

Kem jeg þá fyrst að II. brtt. á þskj. 426, um að læknisvitjunarstyrkur til Árnesshrepps verði hækkaður. Nefndin vildi hækka þennan styrk vegna þess, að enginn hreppur á landinu mun jafnilla settur að vitja læknis sem þessi. Það hefir komið þar fyrir, að ein læknisvitjun hafi kostað sjúkling 600 krónur, og útgjöld hreppsins til læknisvitjana munu nema á 3. þúsund kr. á ári. Því þótti nefndinni ekki nema sanngjarnt, að þessi hreppur yrði þó að minsta kosti gerður jafn Ólafsfjarðarhreppi, að því er slíkan styrk snertir.

III. brtt. á sama þskj. fer ekki fram á nýja fjárveitingu, heldur aðeins orðabreyting á þeim lið.

Ríkið hefir undanfarið veitt sjúklingum með hörundsberkla styrk, til þess að fara utan til lækninga, vegna þess að ekki hafa verið til áhöld hjer til slíkra lækninga. Nú hefir verið samþ. hjer að kaupa Finsenslampa, og þurfa þá ekki hörundsberklaveikir sjúklingar lengur að fara utan. Nefndin leggur það til, að þessum styrk verði nú varið til þess að starfrækja hjer Finsensljós.

IV. brtt. er 8 þús. kr. til þess að kosta umbúðasmið til útlanda. Það er svo hjer, að ef menn missa lim, eða þurfa umbúða með af öðrum ástæðum, þá hafa menn ekki getað fengið sæmilegar umbúðir nema þeir færu til útlanda. Það er nú sýnilegt, að sá kostnaður, sem af þessu leiðir, er afarmikill, og auk þess mikill óbeinn kostnaður, því að þær umbúðir, sem smíðaðar hafa verið hjer, eru flestar sá óskapnaður, að menn þeir, sem slíkar umbúðir hafa fengið hjer, hafa ekki getað unnið líkt því eins mikið og þeir hefðu annars getað, ef þeir hefðu haft góða gervilimi. Smíði slíkra gervilima hefir fleygt mjög fram erlendis nú eftir ófriðinn, og því meiri hagnaðarvon fyrir notendur gervilimanna, ef hæfur maður fengist til þess að læra þessa list.

Læknafjelag Reykjavíkur hefir haft þetta mál til meðferðar og leitað sjer upplýsinga um það erlendis. Út af fyrirspurnum, sem fjelagið hefir sent til útlanda, hefir það komið í ljós, að ef ætti að læra umbúðasmíð til fullnustu, þá mundi þurfa til þess 5 ára nám.

Þetta er langur námstími, og því litlar eða engar líkur til, að nokkur maður fáist til þess að nema það og setjast að hjer á landi, því að hann mundi ekki geta haft fulla atvinnu af þeim starfa hjer. Enn gerði læknafjelagið fyrirspurn út, og fjekk það svar, að ef fjelagið gæti fundið góðan hagleiksmann, þá gæti hann komið að allmiklu gagni, þótt ekki væri hann nema 1 ár ytra.

Nú hefir læknafjelagið verið svo heppið að finna slíkan ágætis hagleiksmann, sem að sögn er bæði trjesmiður, járnsmiður, gullsmiður, úrsmiður og jeg veit ekki hvað fleira, sem sagt maður, sem alt leikur í höndunum á.

Þessi maður hefir nú gefið kost á sjer, ef hann fengi 8 þús. kr. í styrk. Af þessum styrk er ekki hægt að klípa neitt hjer, vegna þess, að þetta er samningur milli læknafjelagsins og þessa manns. Þessi styrkur er að vísu nokkuð hár, en það er ekki viðlit að fá manninn fyrir minna. Hann er giftur og á fyrir heimili að sjá, hefir nóga atvinnu og góðar tekjur, og því ekki von, að hann vilji gefa kost á sjer fyrir lítið. Það má að vísu segja, að ekki liggi mikið á að gera þetta nú. En þess er að gæta, að nú er hægt að fá til starfsins hæfan mann, en ekki víst, að slíkt takist seinna.

Þá er jeg búinn að tala um brtt. nefndarinnar við 12. gr. og kem að 13. gr., og er þá fyrst fyrir endurveitinig til Öxnadalsvegar, 10 þús. kr. Af vegi þessum er nú ógerður aðeins stuttur spölur til þess að hann geti komið tveim hreppum að gagni. Taldi og vegamálastjóri rjett, að þessi fjárveiting yrði nú tekin upp, í von um, að hægt yrði að vinna að veginum á næsta sumri. Nefndinni virtist því sjálfsagt að taka upp þessa endurveitingu.

Þá koma tvær till., sem báðar fjalla um endurveitingu til tveggja síma, sem átti að byggja á þessu ári, en sem þá var ekki hægt að framkvæma. Nefndinni fanst rjett að flytja þessar upphæðir í fjárlögin. En þó hefir hún lækkað báðar upphæðirnar nokkuð, vegna þess að efni hefir nú fallið í verði, og líkur til, að það falli enn meir. Því er líklegt, ef verkið verður framkvæmt sumarið 1922, að kostnaðurinn muni verða minni en áætlað var í fyrstu. Og líklega verður hann enn minni en þeirri upphæð nemur, sem nefndin nú tekur til. Það var ætlast til þess í till. fjvn. á þinginu 1919 og ákvörðun deildarinnar, að þessar símalínur væru lagðar fyrir tekjuafgang landssímans, en aðrar línur skyldi leggja fyrir lánsfje. Auk þess var sett það skilyrði fyrir að hinar fyrnefndu væru lagðar, að trygging væri fyrir, að ný lína, sem leggja átti fyrir lánsfje, kæmi jafnframt frá Reykjavík til Borðeyrar. Þessari línu er gert ráð fyrir að verði lokið í sumar, og þá er skilyrðið uppfylt.

Áður en jeg sest niður, vil jeg segja örfá orð um brtt. háttv. einstakra þm. við þennan kafla, á þskj. 426.

Um 1. brtt. á þskj. 426, frá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) get jeg lýst því yfir fyrir hönd meiri hl. fjvn., að hann er hlyntur varatill.

Þá er 6. brtt. á þskj. 426, frá háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.). Fjvn. hefir ekki sjeð sjer fært að taka afstöðu til hennar, vegna þess að hún hefir ekki fengið í hendur nein skjöl þessu viðvíkjandi, en væntir þess, að hv. flm. (J. S.) geri nánari grein fyrir till. við umr. Annars má geta þess, að nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að taka upp neinar nýjar fjárveitingar til vegagerða.

Um 7. brtt. frá samvinnunefnd samgmn. um 400 þús. kr. styrk til Sterlingsferða, á jeg ekkert að segja fyrir hönd fjvn. En frá sjálfum mjer vil jeg skjóta þeirri fyrirspurn til háttv. samgmn., hvort það muni vera hyggilegt að láta Sterling halda áfram eftir áætlun? Hvort ferðirnar sjeu svo gagnsmiklar, að þær svari hinum gífurlega kostnaði, sem þeim fylgir? Jeg er ekki viss um, nema það sje hagkvæmara fyrir þjóðina að láta skipið standa uppi einhvern tíma heldur en að halda stöðugt áfram ferðum á þennan hátt.

Þá verð jeg að biðja hæstv. forseta velvirðingar á því, þótt jeg fari nokkrum orðum um síðustu brtt. á þessu sama þskj. (426), enda þótt hún ekki heyri beinlínis mínum kafla til, þá heyrir hún til fjárlögunum í heild sinni, og þykist jeg því fremur mega tala um hana nú, vegna þess að ef hún verður samþ., þá kemur hún ef til vill harðast niður á mínum kafla fjárlaganna.

Till. gengur út á það að heimila fjrh. að fresta eða fella niður greiðslu á þeim fjárveitingum, sem ekki eru í öðrum lögum en fjárlögunum. Þetta þykir fjvn. nýstárlegt ákvæði, og álítur með þessu lagt alt of mikið vald í hendur einum ráðherra, enda mun þetta í fyrsta skifti, sem komið hefir tíl tals að leggja alræðisvald í fjármálum í hendur einum manni. Og sannkallað alræðisvald er það, sem till. felur fjrh., því að samkvæmt henni hefir hann vald til að fella niður meginþorrann af liðum fjárlaganna. Úr 12. gr. gætu t. d. fallið allir læknavitjanastyrkir og allir spítalarnir, nema Holdsveikraspítalinn, undir þetta vald. Úr 13. gr. eru laun póstmanna og símamanna og nokkurra einstakra manna ákveðin með launalögum og öðrum lögum, en allar framkvæmdir 13. gr. standa hvergi nema í fjárlögunum, og falla því undir þetta vald. Það væri heldur hægt að sjá einhverja meiningu í þessu, ef gamla tilhögunin væri enn við líði, að halda þing aðeins annað hvert sumar. En eins og nú er, þegar þing er haldið snemma á hverju ári, þá er hægurinn hjá fyrir þingið að gera sjálft þær ráðstafanir, sem þurfa þykir.

Fjvn. samþ. í e. hlj. að vera á móti till., samt hefir hún ekki látið sjer detta í hug að beita þeim rjetti, sem hún hefir samkvæmt þingsköpum, til þess að heimta meira atkvæðamagn til þess að till. nái fram að ganga heldur en meiri hl. greiddra atkv., því að hún telur sjálfsagt, að þess þurfi ekki við.

Það er haft eftir Magnúsi Stephensen landshöfðingja, að sjerhver landsstjórn í þingræðislandi eigi að virða fjárlögin mest allra laga, og megi síst fitla við þau eins og þingið fái henni þau í hendur. Ef það er rjett, sem enginn efast víst um, þá er það sjerstaklega varhugavert að gefa stjórninni einveldi, einmitt um fjárlögin. Jeg álít það í rauninni alls ekki geta komið til mála. Bið jeg svo háttv. flm. (J. Þ.) velvirðingar á því, að jeg hefi skotið þessu fram, án þess að till. sje beinlínis komin enn til umr.