28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Pjetur Ottesen:

Þótt jeg hafi skrifað undir nál. með fyrirvara, ætla jeg ekki að vekja deilur um það hjer nú. Jeg lít nefnilega svo á, að það hefði vel getað beðið að lögfesta embættið, að minsta kosti þangað til ábyggileg reynsla væri fengin fyrir nytsemi þess. En með því að lögfesta þetta er sem sje að miklu leyti kipt burtu þeim tökum, sem þingið getur á því haft, að stilt verði í hóf um fjárframlög til þessa sendiherraembættis, hvað svo sem nytseminni líður. Því þótt ákveða eigi eftir sem áður í fjárlögum laun sendiherrans, mun enginn ganga þess dulinn, að torveldara verði að hafa hemil á um fjárframlagið, eftir að embættið er lögfest, en ella myndi. Þegar deilan stóð um sendiherrann í þinginu 1919, ljet jeg svo um mælt, að mjer þætti framkoma stjórnarinnar benda mjög í þá átt, að hún væri fyrir fram búin að semja um það við Dani, bak við þing og þjóð, að sendiherraembætti skyldi þegar stofnað í Kaupmannahöfn. Þeim ummælum var þá harðlega mótmælt af stjórninni, en nú kom það aftur á móti skýlaust fram í ræðu hæstv. forsrh. (J.M.) á dögunum um mál þetta, að það hefir þó svo verið, og er það gott, að það sanna í því efni er þó loks fram komið.