30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

41. mál, fjárlög 1922

Hákon Kristófersson:

Jeg finn ástæðu til þess að þakka hæstv. atvrh. (P. J.) ummæli hans um fjárveitingar til símalagninga, sem fjvn. mælti með. Vildi hann að vísu ekki fullyrða, að hægt yrði að framkvæma þær nú þegar, en jeg geri ráð fyrir, að stjórnin muni hafa þær í huga og láta þær framkvæmdir sitja fyrir öðrum á því sviði.

Hæstv. fjrh. (M. G.) tók ekki að sama skapi vel í þær. Virðist honum líklega meiri þörf á fjárveitingu til að bæta úr vegleysunni frá Hólum, og er það ekki óskiljanlegt, ef þess er gætt, að hæstv. fjrh. (M. G.) hefir þar hagsmuna að gæta sem þingmaður viðkomandi kjördæmis.

En jeg er þess fullviss, að slíkar símalagningar, sem hjer ræðir um, mundu fyrir löngu komnar í framkvæmd, ef háttv. þm. hefðu gert sjer grein fyrir nauðsyn þeirra.

Allflestir af háttv. þm. munu nú þegar hafa fengið síma um kjördæmi sín, og meira að segja heim til sín. Þeir láta sig því litlu skifta óskir eða þörf þeirra hjeraða, sem eru svo ólánssöm að vera ennþá án alls símasambands, og er það glöggast einkenni á rjettlætistilfinningum hv. þm.

Telur símastjóri hina mestu nauðsyn á síma í Barðastrandarsýslu, því að fyr sje eigi símasambandið við Vestfirði nægilega trygt. Ef símasamband kæmist á um syðri hluta Barðastrandarsýslu, mundi hverfa að miklu eða öllu leyti hið margvíslega óhagræði, er stafar af hinum sífeldu símabilunum á þeirri leið, er síminn liggur nú um til Patreksfjarðar,

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að jeg leyfi mjer að fullyrða, að viðkomandi hreppar mundu vilja leggja það á sig að flytja símaefni, ríkinu að kostnaðarlausu, eftir að það væri komið í hreppana. Mundi sá kostnaður verða talsvert minni en ef ríkið ætti að kosta flutninginn. Þetta er þó auðvitað sagt með það fyrir augum, að undinn verði bráður bugur að þessari fyrirhuguðu símalagningu. Því er nú mjög borið við, að öll vinna við símalagningu sje afardýr, og það meðal annars geri það ókleift að leggja síma. Ef nú hrepparnir vildu það til vinna að taka að sjer nefndan flutning, ríkinu að kostnaðarlausu, þá má þó segja, að sá steinn sje farinn úr götunni.

Menn hafa fundið það, hvílíkt óhagræði það er að vera símalaus, og fæ jeg satt að segja varla skilið, hve Alþingi hefir verið framkvæmdalítið í þessu efni. En sennilegast þykir mjer, eins og jeg þegar hefi sagt, að það stafi af því, að flestir þm. eru búnir að fá síma heim í sveit sína, og jafnvel á heimili sín, og láta sig því litlu skifta, hvort þeir fá hann, sem enn eru eftir. Verður því lítið úr símalagningum, ef stjórnin fylgir þeim eigi fram. Og því held jeg óhætt að slá föstu, að þrátt fyrir hina miklu nauðsyn, er öllum ætti að vera ljós, á símalagningu um alla Barðastrandarsýslu, að þá verði hann aldrei lagður, ef bíða á eftir því, að fje verði aflögu í ríkissjóði til framkvæmda á þessu. Býst jeg við, að taka þurfi lán til þess að leggja þennan síma, því að ekki mun veita af tekjunum í annað. Enda veit jeg ekki betur en símastjóri hafi fyrir löngu lagt til, að sú leið yrði farin. En þegar þess er gætt, hve ýmsir hreppar í Barðastrandarsýslu eiga erfitt um samgöngur, þar sem vegir eru illir og torsóttir á landi og samgöngur á sjó nær engar, þá vona jeg, að þrátt fyrir erfiðan fjárhag, sje háttv. þdm. það ljóst, að langvarandi framkvæmdaleysi í þessu efni má ekki eiga sjer stað.

Háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) sagði, að fyrirhugaður styrkur til bátaferða fjelli að einhverju leyti til Breiðafjarðarbáts. Þessi ummæli eru dálítið villandi, því að eftir þeim mætti líta svo á, að hjer væri aðeins um einn bát að ræða.

Vil jeg geta þess, að eins og fyrir liggur, eru 2 bátar til flutninga á Breiðafirði, og skiftist styrkurinn milli þeirra.

Vil jeg beina því til stjórnarinnar, að hún geri sjer ljóst, að styrkurinn má ekki miðast við „Svan“ einvörðungu, því að af honum hafa 5 nyrstu hrepparnir engin not, og hafa auk þess erfiðar samgöngur á landi.

Undanfarið hefir hinn báturinn notið 2 þús. kr. styrks, en nú hefir eigandi bátsins afsagt að halda ferðunum áfram, og erum við því farartækislausir. Mun ekki rætast úr þessu næsta ár, ef aukinn styrkur verður eigi veittur. Í því sambandi vil jeg leyfa mjer að skjóta því til hæstv. stjórnar, að jeg teldi hæfilegt, að af væntanlegum styrk til bátaferða á Breiðafirði fengi „Svanur“ 3/4, en báturinn að norðanverðu, hver sem hann yrði, fengi að minsta kosti 1/4. Því að þessi styrkur er allsendis ónógur. Hefir maðurinn rekið bátinn áður sökum þess, að það var nauðsynlegt vegna hagsmuna verslunar hans, en nú hefir afstaða hans breyst að nokkru leyti, og því vill hann hætta ferðunum, enda ómögulegt að halda þeim uppi, svo að sæmilegum notum komi, með 2 þús. kr. styrk.

Sami háttv. þm. (Þorst. J.) mintist einnig á sölu landssjóðsskipanna og taldi, að þau mundu ekki seljanleg nema lágu verði. Vil jeg benda á það, að nýstofnað er fjelag á Vestfjörðum, sem vill kaupa skip til innanlands- og millilandaferða. Sýndist mjer, sem eigi væri ólíklegt, að það vildi kaupa eitthvert þeirra, t. d. Villemoes. Hefi jeg hjer auðvitað ekkert umboð í þessu efni, en bendi aðeins á þetta. Því að fremur teldi jeg viðeigandi að selja innlendum mönnum skipin, þótt fyrir minna verð væri, en útlendingum.

Viðvíkjandi till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem raunar á eigi við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu, en talað hefir þó verið um, skal jeg geta þess, að enda þótt jeg viðurkenni, að nokkur ástæða sje til þess að gera einhverjar takmarkanir í þessa átt, þá sýnist mjer þó, að með þessu sje of mikið vald falið einum manni, að minsta kosti yrði sá maður að hafa traust mikið og vera óhlutdrægur. Mun jeg því, enda þótt jeg viðurkenni að útlitið sje ekki glæsilegt, ekki geta greitt þessari brtt. atkvæði mitt.