30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

41. mál, fjárlög 1922

Magnús Kristjánsson:

Jeg hafði hugsað mjer að taka eigi til máls við þennan kafla fjárlaganna, en sökum nokkurra orða, sem fallið hafa, sje jeg mig til neyddan að mótmæla þeim.

7. liður brtt. þar sem gert er ráð fyrir 400,000 kr. fjárveitingu til strandferða, virðist mjer hafa vakið ótta hjá sumum háttv. þm., og ef til vill ekki að ástæðulausu. En jeg býst við því, að háttv. samgmn. hafi verið það ljóst, að þessi upphæð væri sett hærri en nauðsyn krefur, án þess að jeg skilji þó, hvað henni hefir getað til þess gengið. En það mætti ilt kallast, ef þessi upphæð yrði til þess að draga kjark úr mönnum til þess að styðja nauðsynlegar samgöngubætur. Er vert að athuga, að síðastliðin 4 ár hafa verið svo erfið, að litlar líkur mega teljast, að þetta eða næsta ár verði jafnerfitt, en þrátt fyrir þetta hefir þó eigi orðið nema 14 milj. kr. halli á rekstri Sterlings að meðaltali þessi ár, og því full ástæða til að halda, að hann fari minkandi. Munar t. d. mjög miklu á kolaverði; eru þau nú meira en helmingi ódýrari en þá er þau voru dýrust.

Vil jeg benda á þetta til skýringar, en því mótmæli jeg eindregið, að skipinu sje lagt upp, eins og einstaka háttv. þm. hafa talið jafnvel ráðlegast. Ber það vott um altof mikið kjarkleysi, og væri tvímælalaust spor aftur á bak. Því að sje nauðsynlegustu samgöngubótunum á sjó kipt burtu, þá erum við um leið komnir aftur í aumasta fortíðarástand.

Er því einkennilegt, að koma skuli til tals að láta þetta eina skip hætta ferðum, þar sem talið hefir verið hingað til, að það nægði alls ekki. Sýnist mjer upphæð þessi heldur ekki vera svo mjög ægileg, þegar þess er gætt, að kostnaður við strandferðir var 80–100 þús. kr. meðan peningar voru í venjulegu gildi. Eru 250 þús. kr. síst meiri upphæð nú en þessi var, þegar gætt er, hve mikið peningar hafa fallið í verði.

Hins vegar er, eins og jeg hefi þegar bent á, kostnaðaráætlun nefndarinnar altof há, en raunar ætti það ekki að saka, því að auðvitað verður sá raunverulegi kostnaður aðeins útborgaður.

Er það alkunna, að hin ríkasta þörf er á ferðum þessum fyrir fólk víðsvegar af landinu, sem þarf að leita sjer atvinnu annarsstaðar. Hefir jafnvel reynst svo, að farþegarúm skipsins hefir ekki nægt undanfarið.

Vænti jeg því fastlega, að hvort sem þessi upphæð samgmn. verður samþykt eða ekki, þá hafi það engin áhrif á rekstur skipsins. Gæti leitt af því hið mesta tjón, ef strandferðum yrði aðallega haldið uppi á smábátum og mótorskipum. Eru siglingar hjer við land svo hættulegar að vetrar lagi, að hin mesta þörf er á að hafa til þeirra gott skip og vandað. Er því algerlega óviðeigandi að skera við neglur sjer fjárveitingar til jafnvandaðs skips og góðs í sjó að leggja, sem við nú erum svo heppnir að eiga, og sem veldur því, að ferðir þessar verða eins áhættulitlar og kostur er á.

Sterling er vel útbúið í alla staði og með bestu skipum í sjó að leggja, og er það nokkur trygging fyrir því, að ferðalög með því verða áhættulítil. Þess vegna ættum við að vera ánægðir yfir því að hafa eignast þetta ágæta skip, og reyna að halda því út til strandferða.

En jeg skal svo ekki fjölyrða meira um það: vildi aðeins benda á, að þessi ótti út af till. er alveg ástæðulaus.

Þá vildi jeg með örfáum orðum minnast á 3. brtt. á þskj. 426. Þar er gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir styrk til sjúklinga, sem hafa hörundsberkla, skuli veittar 3000 kr. til starfrækslu Finsensljósa. Það væri ágætt, ef hjer í þessum bæ væru til nauðsynlegustu lækningatæki, ef þau í sjálfu sjer eru fullnægjandi eftir kröfum nútímans. Jeg get ekki af eigin þekkingu dæmt um, hvort svo muni vera, en geri ráð fyrir, að háttv. frsm. (M. P.) sje það kunnugt og hefði ekki leyft sjer að mæla með tillögunni nema hann telji það óyggjandi.

Svo er það annað, sem jeg vildi taka fram. Undanfarið hefir verið veitt fje og nú einnig gert ráð fyrir að veita talsverða upphæð í svipuðu skyni, nefnilega til Röntgen- og radíumlækninga. — Það er fjarri mjer að leggja á móti slíkum fjárveitingum, því að mínu áliti eru engar fjárveitingar jafnnauðsynlegar og þær, er veittar eru í þeim tilgangi að stuðla að því að veita mönnum heilsuna. Jeg er að því leyti samþykkur háttv. fjvn. En hitt er það, að jeg hefi ekki orðið var við, að fyrir þinginu hafi legið skýrslur um það. hve mikils góðs almenningur hafi notið af þessum stofnunum, sem hafa verið styrktar af landsfje. Jeg hygg, að þegar þingið veitir fje í því skyni, að sjúklingum sje gert auðveldara að leita sjer lækninga, að þá sje ætlast til af löggjafarvaldinu, að gjaldið, er sjúklingarnir greiða, sje haft þeim mun lægra. Það væri því ekki ástæðulaust, að með slíkum fjárveitingum væru sett þau skilyrði, að lagðar væru fram skýrslur, svo að hægt væri að sjá það, að krafist væri hæfilegrar þóknunar fyrir aðstoð þessara stofnana. Þetta getur verið af þekkinarleysi mínu á þessu, að mjer finst þetta sjálfsagt, en jeg hefi ekki orðið var við, og það hefir ekki verið sannað, hvorki af nefndinni eða öðrum, að almenningur hafi notið þess, þótt þingið hafi veitt styrk til slíks.