30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

41. mál, fjárlög 1922

Sveinn Ólafsson:

Jeg á enga brtt. við þann kafla fjárlaganna, sem fyrir liggur, og yfirleitt ekki við fjárlagafrumvarpið að þessu sinni, og þarf því ekki að vera langorður. En þótt jeg að þessu sinni eigi enga brtt., og hafi því ekki fyrir neinu að vinna fyrir kjördæmi mitt, sem er að vísu sett alveg hjá við skömtun úr þessum kjötpotti, þá þykist jeg samt, sem gjaldþegn, mega athuga þær byrðar, sem verið er að binda landsmönnum á herðar með þessum fjárlögum, sem flestum munu reynast þyngri en nokkru sinni áður. Get jeg því ekki leitt hjá mjer að minnast á tillögur háttv. fjvn. og þeirra háttv. þm., er hafa gert fjelagsbú með henni.

En áður en jeg vík að þeim, ætla jeg að snúa mjer snöggt að öðru efni. Eins og hátt. v. þdm. muna, fjellu hjer í deildinni orð við 2. umr. þessa máls, sem jeg ætla að leyfa mjer að svara. Það voru aðdróttanir, óvirðingarorð og brigslyrði í minn garð frá háttv. þm. Dala (B. J.) sem mjer var þá ófyrirsynju varnað að svara. Jeg get ekki verið að bíða með að svara, þótt háttv. þm. Dala. (B. J.) sje ekki við; hann er má ske á næstu grösum að totta vindilstúfinn sinn.

Jeg sje samt ekki ástæðu til að rifja það alt upp aftur, en aðallega var tvent, sem jeg get ekki látið ómótmælt. Það voru þau ummæli háttv. þm. (B. J.) um mig, að jeg mundi bráðlega koma og leita viðurkenningar þingsins fyrir umboðsstörf mín. Jeg lít svo á, að í þessum ummælum, eins og þau voru töluð og í því sambandi, sem þau voru sögð, liggi aðdróttun um, að jeg hafi vanrækt þessi störf, og leyndi sjer ekki í þessu óvildarhugsun hans, því að óvingjarnlegri aðdróttun hefi jeg eigi fengið. Jeg get skotið þessu til allra ráðherranna, er verið hafa, síðan jeg tók við starfinu og annars eru á lífi, hvort jeg hafi vanrækt starfið. Óttast jeg ekki úrskurð þeirra um þetta, og mundi háttv. þm. Dala. (B. J.) hafa lengra farið, ef hann hefði treyst sjer.

Annað er það, að háttv. þm. (B. J.) taldi mig í ræðu minni hafa óvirt sendimann vorn á Spáni og sagt, að hann hefð: enga skýrslu gefið. Jeg mintist ekki á það á þann veg. En jeg gerði fyrirspurn til stjórnarinnar um það, hvað fyrir lægi um starf hans, því að jeg hafði heyrt, að ekkert hefði heyrst frá honum um langan tíma. Í þessu lá engin óvirðing við manninn, heldur var þetta aðeins sjálfsögð fyrirspurn um opinbert mál, sem engum dettur í hug, að þm. Dala. (B. J.) eigi að leyfa; fyrirspurn, sem svarað verður líklega. En jeg tók það fram, að það væri óviðkunnanlegt að veita fje í fjárlögunum til þessa starfa, án þess að vita hvernig starfinn nýttist. Þetta varð jeg að leiðrjetta, og beini nú fyrirspurn minni að nýju til hæstv. stjórnar, og vænti svars, því að mjer þykir miklu máli skifta, að skýrsla þessi komi fram.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að svara því, sem þessi háttv. þm. (B. J.) sagði, en vil aðeins gera aths. við eitt, sem hann sagði, sem sje það, að aðalerindi mitt á þing væri að greiða atkvæði með fjárveitingum til míns hjeraðs. Þessi fyndni hefði verið brúkleg, ef einhverjar slíkar fjárveitingar hefðu verið til, en nú eru þær engar. En það er að minsta kosti eitt annað verkefni mitt hjer, — og þykir mjer slæmt að háttv. þm. (B. J.) er ekki nærri, — nefnilega að greiða atkvæði á móti þeim háskalegu tillögum hans, er nær daglega koma fram í fjármálum og öðrum greinum.

En af því, að háttv. þm. Dala. (B. J.) er ekki við, þá læt jeg þessum formála lokið, og sný mjer þá að frv.

Jeg þarf ekki að minnast á niðurstöður þær, sem fjárlagafrv. fekk við 2. umr., eða hvað við horfir, ef samþ. verða allar till. á þskj. 426; það er öllum sýnilegt.

Jeg get ekki varist þeirri hugsun, að fjvn. hafi tekið langt of lauslega á þessu máli. Jeg get sem sagt ekki varist þeirri hugsun, að hún hafi vanrækt að vinna verk sitt eins og vera bar. Hennar verk er ekki eingöngu að auka við nýjum gjaldliðum, eins og hún virðist álíta, heldur alt eins að draga úr, þar sem stjórnin eða aðrir hafa áætlað ógætilega. En nú er svo komið, að frá því stjórnarfrv. kom fram, hefir tekjuhalli bráðum tvöfaldast, og ekki ósennilegt, ef alt verður samþ., sem hjer liggur fyrir, að hann komist upp á 4. milj., eða gjöldin alls í 10 milj. Landsm. er þá, með öðrum orðum, bundinn baggi, sem svarar 90–100 kr. á hvert nef í landinu. Jeg fyrir mitt leyti held, að þetta sje langt um fram efni og getu þjóðarinnar. Þótt segja megi um ýmsar fjárveitslur, sem hv. nefnd og aðrir fara fram á, að þær sjeu út af fyrir sig eins rjettmætar og margt í frv., þá verð jeg að greiða atkv. á móti flestum till. á þskj. 426, að jeg ekki tali um brtt. á þskj. 429.

Það verður að taka á einhvern hátt í taumana, og þegar ekki er hægt að draga úr þeim hóflausu veitingum, sem inn í frv. eru komnar, þá verður að fella niður það, sem síðast kemur.

Jeg ætla ekki að fara að telja upp alla einstaka liði, en vil benda til dæmis á 2. lið í 2. brtt. á nefndu þskj. Það er lítil upphæð, 300 kr., sem á að veita ákveðnum hreppi. Háttv. frsm. (M. P.) sagði, að þar stæði svo á, að erfitt væri að ná til læknis, og að ein læknisvitjun hefði kostað 600 kr., og því ástæða til að breyta út af sparnaðarreglunni og veita styrkinn. En það er öllum kunnugt, að það hagar svo til víðar á landi voru, að ein læknisvitjun getur kostað þetta, og sumstaðar ekki hægt fyrir 600 kr. að ná í lækni, jafnvel ekki fyrir tvisvar 600 kr. Landslag og torfærur á sjó og landi valda þessu í sambandi við vetrarhríðir, og á slíkum stöðum kemur það ósjaldan fyrir, að deyjandi menn fá enga læknishjálp.

Ástæðan er hjer engu brýnni en víða annarsstaðar til að veita fje á þennan hátt, nema svo sje, að hjerað hv. frsm. (M. P.) eigi að ganga fyrir öðrum.

Um 7. liðinn hefi jeg áður talað. En þar sem ómögulegt er að áætla kostnaðinn við ferðir Sterlings, þá finst mjer þýðingarlítið að vera að hækka þessa upphæð í fjárlögum. Hallinn kemur hvort sem er á aukafjárlög.

Þá kem jeg að 9. lið, símunum vestra. Það er að vísu endurveiting, en það stóð nokkuð einkennilega á þegar þessi fjárveiting komst inn á þinginu 1919, sami hv. þm. þá í fjárveitinganefnd, og því ekki ástæða til að taka þetta upp nú sem forgangsfje til opinberra starfa.

Jeg skal svo ekki rekja þessar tillögur lengra, en verð að minnast á síðustu till. Það er 37. till. á atkvæðaskránni frá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hún heimilar fjármálaráðherra að fella niður þær fjárveitingar, sem honum sýnast mega falla. Mjer þykir hún að vísu nokkuð óþjál, en get ekki annað en lýst samúð minni með henni. Það er nokkurskonar neyðarúrræði, til að bjarga við því fjárhagsástandi, sem þessi óforsvaranlegu fjárlög skapa. Vitanlega mundi þetta koma niður á hinum verklegu framkvæmdum, en ekki fjárveitingum, sem bundnar eru við nöfn, og kæmi því niður þar, er síst skyldi. Það yrði í reyndinni einskonar hrossalækning, sem getur þó verið nauðsynleg, þegar svona stendur á. Og fer nú eftir atvikum, hvort jeg greiði atkvæði með henni eða móti.

Jeg tek það svo enn fram að lokum, að fjvn. hefir alveg brugðist vonum mínum, og jeg tel að hún hafi ekki fyllilega leyst verk sitt af hendi eins og vera átti.