30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

41. mál, fjárlög 1922

Björn Hallsson:

Jeg stend ekki upp til þess að tala með neinni brtt., enda er jeg svo heppinn að eiga hjer enga brtt. Út af öðru atriði vil jeg tala nokkur orð. Búið er að benda á, að fjárhagshorfurnar sjeu ekki glæsilegar. Rækilegast hefir háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gert þetta, sem háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) var nú að heilsa upp á fyrir. Tel jeg hann hafa lýst ástandinu rjett, en ekki sjeð það í neinum spjespegli. Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) virtist hafa nokkra aðra skoðun á fjárhagsástandinu, og hjelt að menn litu fulldökkum augum á það. Ekkert er við því að segja, þótt háttv. þm. (Jak. M.) hafi þá skoðun. En jeg hygg fulla ástæðu til að fara gætilega, því að ljótt er útlitið. Gamall málsháttur segir, að menn eigi að búast við því illa, því að það góða skaði aldrei, og hygg jeg að þetta sje fullkomlega rjett. Slíkar horfur sem nú eru, hafa aldrei verið, frá því löggjafarvaldið komst í okkar hendur, og sökum þess hefi jeg viljað fara gætilega í öll fjárútlát, en það hefir ekki tekist, vegna þess, að meiri hluti þessarar háttv. deildar virðist ekki vera búinn að átta sig á afturkippnum, sem í alt er kominn, frá því, sem var á veltiárunum.

Mjer hefir verið borið það á brýn, að jeg væri íhaldssamur. Slíkt tel jeg ekki ámæli. En hitt teldi jeg ámæli, ef hægt væri að segja um mig með sanni, að jeg væri eyðslusamur, eins og nú er ástatt fjárhagslega. Illa er mjer við að þurfa að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum, eins og lagningu símalína og vega, byggingu vita o. s. frv., en því miður virðist mjer einmitt langmest dregið úr fjárveitingum til slíkra hluta. En þá er ástandið óneitanlega ilt, þegar landssjóður gengur mest í laun og bitlinga, eins og nú virðist útlit fyrir. — Jeg vil ekki mála neinn fjanda á vegginn, en mjer virðist ástandið þannig nú, að nauðsynlegt sje að greiða atkvæði á móti öllum fjárveitingum, sem með nokkru móti mega bíða. Því að álögurnar eru gífurlegar, ef 90–100 kr. koma á hvert nef á landinu, eins og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði vera. Tekjuhallinn er nú orðinn 21/4 milj., og þar við bætist, að gera má ráð fyrir, að tekjurnar nái hvergi nærri áætlun. Jeg hefi heyrt, að tollarnir væru ekki nema nál. 1/3 af hinu áætlaða þann ársfjórðung, sem liðinn er af þessu ári, og sje það rjett, þá gefur það slæma bendingu. Og væru brtt. þær samþyktar, sem hjer liggja fyrir, eykst fjárhagshallinn enn. Ekki líta fjáraukalögin heldur vel út, þar sem upphæð þeirra fyrir 1920 og 1921 er víst orðin yfir 11/4 milj. Er það eins há upphæð eins og fjárlögin hljóðuðu upp á fáum árum fyrir stríðið. Að vísu liggja fyrir tekjuaukafrumvörp. En sá galli er á, að þau íþyngja gjaldendunum, en hjá því verður ekki komist, eigi ríkissjóður ekki að fara um koll. En álögin verða þó að hafa einhver takmörk, og það verður, eins og jeg hefi sagt, að spara, til þess að þjóðin sligist ekki undir gjöldunum. Atvinnuvegirnir eru dofnir og í móki, og því er athugavert, hvað óhætt er að leggja á landsmenn, hvaða gjaldþol þjóðin hefir.

Á þskj. 426 er ein brtt., sem mikið er búið að tala um. Það er fjárveitingin til Sterlings. Það er stór upphæð, og þó er mjer illa við að greiða atkv. á móti henni. Finst mjer upphæðin svo há, að lítil líkindi sjeu til, að Sterling muni þurfa alt það fje, því að ástæða er til að ætla, að útgerðarkostnaður muni lækka, þar sem kol hafa stórlækkað frá því á síðastliðnu ári. Teldi jeg hæfilegt að veita Sterling 300 þús. kr. og mundi greiða atkvæði með því. Mætti laga það í háttv. Ed. Hins vegar er jeg sammála háttv. samþm. mínum (Þorst. J.) um það, að ekki sje til neins að hafa falska liði í fjárlögunum, því að upphæðin kemur þá í aukafjárlögunum. En jeg vil samt heldur hafa þessa upphæð of lága en of háa. Jeg vil ekki vera að ýta undir stjórnina, með því að ætla óþarflega háa upphæð til strandferðanna. Hitt er bending til stjórnarinnar að fara gætilega. ef upphæðin er ekki mjög há.

Jeg get tæplega álasað fjvn. yfirleitt fyrir tillögur hennar. Finst mjer hún ekki hafa verið mjög ógætin. Vitanlega má deila um rjettmæti einstakra fjárveitinga, sem hún hefir tekið upp, en vandi hefir verið fyrir hana að velja úr, þar sem vitanlegt er, að hún hefir ekki tekið til greina nema einn tíunda part af fjárbeiðnum þeim, sem fyrir henni lágu. Þótt jeg þannig ekki álasi nefndinni fyrir ógætni, þá tel jeg mikið spursmál, hvort ekki hefði verið rjett, eins og sakir standa nú, að skera svo mikið niður af fjárveitingum, að nokkurnveginn hefði verið fyrirsjáanlegt, að ríkissjóður mundi geta borgað það, sem í fjárlögunum stendur. En eins og alt er nú í pottinn búið, kæmi mjer ekkert á óvart, þótt tekjuhallinn yrði 3 til 4 miljónir, þegar öllu er á botninn hvolft. — Og ekki tel jeg rjett í þessu árferði að mæla með mjög miklu af bitlingum, en þar finst mjer nefndin ekki nógu gætin. Jeg verð því, býst jeg við, eins og áður, að greiða atkv. á móti ýmsum till. hennar, sem mjer virðast mega bíða.