30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hafði hugsað mjer að lengja ekki umræðurnar um of, og tala því ekki mikið um fjárlögin og stefnu nefndarinnar alment, en neyðist þó til að fara með nokkrum orðum út í það, vegna ummæla, sem hjer hafa fallið. Jeg vil minna á, að jeg sagði við 2. umr., að þær upphæðir, sem mætti spara, væru svo litlar, að fjárhag landsins munaði það engu, svo bágur mun hann trauðla vera, og jeg vona, að hann verði það heldur ekki.

Jeg gat þess þá og, að 14. og 15. gr. hækkuðu fjárlögin um 205,000 kr. og 16. gr. um 96,000 kr., samtals 300 þúsund kr. Er það næstum allt til framkvæmda, en lítið sem ekkert til einstakra manna, eða svo lítið, að það hefir engin áhrif. Mjer finst, að menn hafi talað allóvarlega hjer í deildinni um fjárhag landsins, þegar það er gefið í skyn, að það mundi valda fjárhagslegu hruni fyrir landið, ef lögin yrðu samþykt 300–400 þús. kr. hærri en stjórnin lagði til. Stjórnin áætlaði svo varlega, að enginn hefir treyst sjer til að skera neitt niður, nema einar 1200 kr. Jeg hugsa, að ekki mundi heldur vera gengið eftir þeim, ef fjárhagur landsins væri undir því kominn. Það er ekki ósparsemi að kenna, þó að nefndin hafi hækkað fjárlögin nokkuð frá því, sem stjórnin gekk frá þeim, því að hún samdi þau nokkru áður en þau komu í nefnd, og hafa henni komið margar umsóknir í hendur sem vitanlega hafa ekki komið fyrir stjórnina, en hún hefði þó væntanlega samþykt. Þessi deila um stefnu nefndarinnar er því deila um skegg keisarans, því að nefndin hefir ekki komið með aðrar tillögur en þær, sem hver stjórn hefði hlotið að taka upp. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) kom með skýrslu um hlutfallið á milli verðsins á seldum vörum og tekna ríkissjóðs. Var hún fróðleg, og það sýndi sig, að tekjur ríkisins voru of litlar á stríðsárunum. Því að svo stóð á, að verð á peningum fjell, og sá, sem greiddi áður 1 krónu, átti eftir gildi peninganna að greiða 0,50 kr., og síðast 0,20 kr., er þeir stóðu lægst. Þetta var í fullu samræmi við það, sem jeg vissi og hafði bent á, að of lágt gjald var lagt á menn er peningar stóðu sem lægst. Jeg vildi fara eftir verðlagsskrá, og að það mætti fara eins með tekjur ríkissjóðs eins og t. d. greiðslur til embættismanna. Ef það hefði verið gert, er gjaldþol manna var best, þá væri ríkissjóður betur staddur en hann er nú, og mundi þar að auki eiga fje afgangs. Jeg þori ekki að segja hverjir stóðu þar aðallega á móti, en það mætti sjá það í Þingtíðindum, ef að væri gætt, en jeg hygg, að það hafi verið hinir svonefndu sparnaðarmenn. Það kann að vera, að þá hafi verið auðvelt að sannfæra menn um, að tillaga mín væri ekki sem hollust, en nú mun það vera erfiðara, þegar það er orðið hverjum manni augljóst, að gjaldþol ríkissjóðs líður við, að þessum ráðum mínum var ekki hlýtt. Skýrsla háttv. þm. (J. Þ.) sannar, að það væri langt frá því, að landið væri nú í vandræðum, heldur mundi það eiga í sjóði. Það er vert að benda á, að það er mikils vert að geta sjeð fram á veginn, og ríkið reyni að ná í sem mestar tekjur, þegar gjaldþol manna er gott, en hlaupa ekki til og skera niður allar framkvæmdir, er til góðs mega vera. Slíkt getur litið út sem sparsemi, en er eyðslusemi af verstu tegund, eyðslusemi á því, sem er dýrmætara en nokkrir peningar, kröftum þjóðarinnar.

Þetta læt jeg mjer nægja að segja um hin almennu atriði að sinni. En mjer þótti vænt um að heyra skýrslu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), er sannaði hve landið skaðaðist mikið á að fallast ekki á tillögur mínar. Jeg skal svo minnast lítið eitt á till. fjárveitinganefndar á þskj. 426. Það er þá fyrst XI. liðurinn, að 3% komi í stað 6%. Jeg ætla, að sjálfur hæstv. fjrh. (M. G.) hafi látið þess getið, að hann mundi sætta sig betur við, að það væri lækkað heldur en að það væri afnumið. (M. G.: Það má ekki vera of mikið). Jeg vona að hæstv. fjrh. (M. G.) láti sig engu skifta hvort þetta er lækkað um 1% meira eða minna, og það verði ekki gert að ágreiningsatriði. XIII. liðurinn er leiðrjetting. Það vantaði 600 kr. til Blönduóssskóla til þess, að styrkurinn til hans væri í samræmi við annan skóla, er líkt stóð á fyrir. Þetta þurfti auðvitað lagfæringar við. Þá er XVI. liðurinn, um að í stað 3000 komi 5000 kr. til kaupa á listaverkum. Það vildi svo slysalega til, að fyrir misskilning fjell það við 2. umr., sem þó allir vildu samþykt hafa. Menn hafa látið í ljós, að æskilegt væri, að keypt væru ýms listaverk, en það veit hver maður, að lítið fæst fyrir 3000 kr., og mundi þá þurfa að kaupa þau upp á lán, og greiða með afborgunum. Jeg tel því víst, að deildin verði fús á að veita þessa viðbót.

XVII. liðurinn er 1500 kr. styrkveiting til útgáfu bókar um norræn viðurnefni. Það er alkunnur sænskur vísindamaður, sem hefir safnað til bókarinnar. Hann hefir styrk frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og er leitt, ef við drögum okkur í hlje; að vísu munar lítið um þetta, en er þó betra en ekki. Bók þessi er efalaust afarfróðleg, eins og alt, sem að nöfnum lýtur, því að þau geymast og minna á liðna tíma. Hjer eru svo mentaðir menn, að jeg tel nóg að minna á þetta, og veit, að þingmenn sjá gagnsemi þessa styrks til útgáfunnar.

XIX. liðurinn er 2000 kr. námsstyrkur til Brynjólfs Stefánssonar verkfræðinema. Hann er sá eini, sem ekki var lokaveiting til í fjáraukalögunum, og hefir þetta því verið sett inn í fjárlögin. Hann er ágætur námsmaður og efnilegur, og er sjálfsagt að styrkja hann. Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að halda langa ræðu um þennan lið, því að jeg tel víst, að þm. beri saman um, að sjálfsagt sje að styrkja þennan efnilega mentamann, þar eð hann getur ekki numið hjer á landi. Háttv. Ed. ljet alla námsstyrki halda sjer, þrátt fyrir allan sinn sparnað, og mun hún að sjálfsögðu ekki fella þennan námsstyrk, ef hann gengur í gegnum Nd.

Þá er XXIII. liður, sem er 9300 kr. til manns, sem tekur að sjer leiðbeiningar um húsagerð til sveita. Þar í er talið: laun, ferðakostnaður og skrifstofukostnaður. Jeg ætla, að þetta sje það mesta gagn, sem hægt er að veita bændum, að veita þeim leiðbeiningar, er þeir vilja byggja sjer hús. Ella ættu þeir það á hættu að reisa dýr hús með vondu fyrirkomulagi, sem lítil not yrðu að, og hefði í för með sjer, að brátt yrði að byggja á ný. En með því að hafa ráðunaut, er þeir gætu ráðfært sig við um kaup á efninu, þá myndi þetta margborga sig, þótt ríkið legði fram þessa fjárupphæð. Nefndin hefir miðað laun hans við laun aðstoðarmanns húsagerðarmeistara landsins, og telur það ekki of hátt, en hann má ekki taka borgun af bændum, og byggist það á því, að svo mörg hús mundu vera í smíðum í einu, að hann gæti ekki unnið á neinum sjerstökum stað, heldur yrði að ferðast á milli og líta eftir. Hann mun fá nóg að starfa, og má því til stuðnings nefna, að 14 menn í Eyjafjarðarsýslu ætla að byggja á næsta ári og vilja fá leiðbeiningar þar að lútandi. Þessum manni var áður ákveðið kaup hjá bændum, og svo nokkur laun frá ríkinu, en þau voru lítil, og átti hann við ill kjör að búa, þar til allra síðast að laun hans voru orðin sómasamleg.

Þennan mann þekkja margir, og er ekki þörf að fara ítarlegar út í það hjer. Jeg kyntist honum, er hann var að námi í Osló, höfuðstað Norðmanna, og mjer var vel kunnugt um áhuga hans, og jeg er sannfærður um, að hann hefir unnið manna best fyrir því fje, sem honum hefir verið veitt. Jeg hverf því frá þessu, í því trausti, að bændur taki í þá hjálparhönd, sem að þeim er rjett, og líti á hag stjettar sinnar.

Jeg hefi áður haft tækifæri til þess að skýra háttv. deild frá gagnsemi „Þórs“. Hann hefir ekki aðeins bjargað nokkrum bátum og þar með mannslífum, heldur hefir hann og bjargað einu útlendu skipi. Þá getur hann og tekið sjúka menn í hafi og flutt í land, og sparað öðrum skipum með því langa siglingu fram og aftur. Hann hefir lækni um borð, og getur því veitt sjúklingum sínum alla þá hjúkrun, sem nauðsynleg er. Þess skal jeg geta um Vestmannaeyinga, að jeg hygg, að annað loflegra fyrirtæki hafi ekki verið stofnað hjer á landi en Þór er. Hann vinnur ekki fyrir eyjaskeggja eina, svo sem á hefir verið bent, og auk þess sækja menn sjó úr Eyjum víða af landinu, og er að því ekki lítil björg. Þá má benda á það, að eyjaskeggjar eru fertugasti hluti landsmanna og eiga eins styrk skilið og aðrir, og þeir greiða meira í landssjóð en aðrir landsmenn yfirleitt. Ef hver fertugasti hluti greiddi jafnmikið, væri ekki þurð á fje, og mætti þá veita upphæð þessa, án þess að á sæi. Jeg tel því sjálfsagt, að þingið styrki þetta loflega fyrirtæki, og mætti gera það með fleira móti en fje. Það væri bæði hagur landsins og eyjanna, ef Þór væri notaður til varnar við Norðurland um síldveiðitímann, því að þá er landinu mest þörf slíks skips, en lítið fyrir það að gera við Vestmannaeyjar. Oss veitir ekki af að verja landhelgi vora, og eiga Vestmannaeyingar lof skilið fyrir framtakssemi sína í því máli. Það er auðvelt fyrir skipið að verja landhelgina í kringum eyjarnar, því að það er altaf á staðnum. En annars sæi jeg ekkert ámóti því að leggja nokkurn skatt á fiskveiðarnar, í því skyni að auka landhelgisgæsluna, og mætti þá verja því fje til líkra skipa og Þórs, því að það er von mín, að ekki líði á löngu, áður en fleiri fara að dæmi eyjaskeggja. Þennan skatt væri ekki hægt að telja ranglátan, því að þar greiddu þeir, sem njóta ættu hlunnindanna.

En þó að úr þessu verði ekki í bili, tel jeg fulla ástæðu til að veita Vestmannaeyingum styrk nú þegar, og má hann ekki vera lægri en fram á er farið.

Þá kem jeg að 28. till., um lífeyri til hjónanna á Staðarfelli. Eins og mönnum er kunnugt, hefir Magnús bóndi Friðriksson og kona hans gefið höfuðbólið Staðarfell til almenningsþarfa. En þau hafa áskilið, að landið gyldi þeim lífeyri meðan annaðhvort þeirra hjóna lifði. Jeg þarf ekki að ræða um þetta mál; jeg veit, að háttv. þm. hljóta að vera þar allir á einu máli. Það er að vísu hægt að hafna gjöfinni, ef menn vilja, en sami er verknaður Magnúsar bónda eftir sem áður. Það er rausnarlegt og höfðinglegt að gefa landinu svo stóra gjöf, jörð, sem ekki mun metin undir 75 þús. kr.; og ef íbúðarhúsið stæði hjer í Reykjavík, mundi það eitt talið þess virði. Jeg skil ekki, að menn vilji forsmá slíka gjöf, og væri betur, að sá siður tækist upp, að menn gæfu gjafir til þjóðþrifafyrirtækja, til minningar um látna ástvini.

Þá er 29. till. um uppbót á eftirlaunum ekkju síra Árna á Kálfatjörn. Hún hefir nú minni eftirlaun en aðrar prestsekkjur, og mun stjórnin svara því, hvernig á stendur. En ekki er það stjórnarinnar sök.

Þá leggur nefndin til, að styrkur til Páls sundkennara Erlingssonar sje hækkaður úr 500 kr. í 1000 kr. Þessi maður hefir barist fyrir því alla æfi að útbreiða þarfa og fagra íþrótt, sundið, og hefir honum orðið ágengt svo feiknum sætir. Hann gerist nú gamall og er ekki fær um að stunda erfiðisvinnu, og er einnig of gamall til þess að leggja sig eftir nýrri atvinnugrein, þó að hann gæti ef til vill fundið eitthvað lífvænlegt. 500 kr. eru rjett fyrir húsnæði hjer í Reykjavík, og er það illa til svo mæts manns gert, og því hefir nefndin hækkað styrkinn. Jeg býst við, að það verði auðsótt við háttv. deildarmenn.

Þá vill nefndin veita ekkju Þorsteins Guðmundssonar 400 kr. með sömu skilmálum og öðrum. Það er talið, að fáir menn hafi unnið Íslandi meira gagn en Þorsteinn Guðmundsson; hann hefir unnið ósleitilega að vöruvöndun, og hefir orðið til þess, að álit Íslands hefir aukist og vörur þess hækkað í verði. Nefndin býst við, að mönnum verði ljúft að veita þessa fjárhæð.

Þá er 32. till. um, að af óvissum gjöldum greiðist 20 þús. kr. til Ásgeirs Pjeturssonar, til endurgreiðslu á síldartolli 1919. Þessu máli er svo varið, að Ásgeir Pjetursson keypti nokkrar síldartunnur erlendis, löngu áður en tollur var lagður á síldartunnur, en hann gat ekki flutt tunnurnar allar til landsins, og galt því tollinn. Hann fór fram á 37 þús. kr. uppbót, en það varð ofan á í nefndinni að hafa það 20 þús. kr., og mælir sanngirni með því.

33. till. fer fram á lánsheimild til handa Dalasýslu, til þess að kaupa Hjarðarholt fyrir skólasetur. Upphæðin er um 30 þús. og lánist gegn vanalegum skilmálum. Jeg þarf ekki að mæla mikið með þessari till. Það er gleðiefni, þegar sýslum gefst kostur á að kaupa höfðingjasetur til skólaseturs, og er sjálfsagt að styrkja það.

Þá er 35. brtt. frá nefndinni, og fer hún í þá átt að efla innlendan ullariðnað. Ísl. ull er ágæt og stendur ekki að baki annari ull. Það má vinna úr henni alt, sem til klæðnaðar þarf, annað en lín, og væri það mikill fengur, ef íslensk ull væri aðallega, eða nær eingöngu, unnin í landinu sjálfu. Við eyðum árlega stórfje í erlenda vefnaðarvöru, og kemur það sjer illa, sjerstaklega nú í gjaldeyrisskortinum. Ef þessi vara væri unnin hjer, sparaðist við það erlendur gjaldmiðill, sem er dýrmætur nú sem stendur, og verkakaup, því að það hjeldist í landinu sjálfu. Verksmiðja sú, sem um er að ræða, vinnur nú um 10 þús. stikur af vefnaði, en ef sú breyting yrði á henni gerð, sem nauðsynleg er, gæti hún framleitt um 100 þús. stikur. Nú munu fluttar inn um 250 þús. stikur, og sjá menn því hvílík áhrif verksmiðja þessi gæti haft, ef breytingin yrði gerð. Verksmiðjunni er vel í sveit komið; hún hefir hægan aðgang að fossafli og er hæfilega langt frá höfuðstaðnum. Eigendur hennar, sem eru ötulir og framtakssamir menn, geta fengið lán erlendis, ef landið vill ganga í ábyrgð. Það væri því misráðið, ef verksmiðja þessi væri ekki styrkt, þegar svo stendur á. Það ætlast enginn til, að gengið sje í ábyrgðina nema hagur verksmiðjunnar sje þekkur og tryggur. Eins verður landið að hafa einhverja íhlutun um rekstur verksmiðjunnar. — Stjórnin má ekki tefla fje landsins á tvær hættur, en hún má heldur ekki vera of rög eða smásálarleg. Nefndin telur nauðsynlegt, að stjórnin skipaði einn eftirlitsmann, og hafa eigendurnir tjáð sig fúsa til að greiða kaup þess manns. Með þessum tryggingum og öðrum, sem stjórnin telur nauðsynlegar, og ekki er hægt að vita nákvæmlega um fyrirfram, telur nefndin hættulaust, að landið gangi í ábyrgð fyrir þessu láni. Það er sjálfsagt, að landið geri alt, sem í þess valdi stendur, til þess að efla atvinnuvegi landsmanna. Þessi verksmiðja hefir verið rekin með dugnaði og fyrirhyggju, og geta háttv. þm. nokkuð dæmt um hana af eigin sjón. Jeg býst við, að þeir fallist á það, sem jeg hefi hjer sagt, og fylgi nefndinni í þessu máli.

Þá er 36. brtt. frá nefndinni, við 22. gr. Nefndin fer fram á, samkvæmt beiðni hæstv. atvrh. (P. J.), að frú Anna Stephensen fái 1000 kr. án uppbótar. Hæstv. ráðh. (P. J.) mun eflaust gera nánari grein fyrir þessu, og jeg vænti, að háttv. þm. verði ljúft að samþykkja það, er þeir hafa heyrt skýringu hans.

Þá kem jeg að brtt. einstakra þingmanna, og skal jeg reyna að lýsa afstöðu nefndarinnar til þeirra, eftir því, sem mjer er fært.

Nokkrir háttv. þm. vilja fella niður styrk til undirbúnings byggingar í Reykjaholti. Nefndin hefir ekki sjeð ástæðu til þess að skifta um skoðun í því máli, og jeg býst ekki við, að þær ástæður verði fram færðar, sem knýi fram skoðanaskifti. Jeg vona því, að þessi tillaga verði feld.

Þá kem jeg að 12. brtt., frá hv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) um, að saman sje slegið þessum tveim verslunarskólum og þessum eina skóla veittar 12 þús. kr. Nefndin telur það hreina ófæru nú sem stendur, en er hins vegar á því máli, að þessir tveir skólar ættu ekki að vera til í framtíðinni. En hinu hefir nefndin ekki trú á, að þessum stofnunum semji svo vel, að ráðlegt sje að slá þeim saman. Hugsunin á bak við brtt. hv. þm. (J. Þ.) er alveg rjett, en nefndin telur betra, að þingið semji lög um einn slíkan skóla. Og það ættu þá ekki að verða nein vandkvæði á því, að koma á fót slíkum skóla, því að sama er verslunarfræðin, sem allir versla eftir.

Þá er 14. brtt. frá háttv. þm. Ísaf. (J. J.). Hann ætlar sjer þá dul að setja hjer upp aftur alla skólarununa, og láta Alþingi skifta á milli skólanna. Nefndin áleit skiftinguna eiga að vera í höndum fræðslumálastjórnar, enda fjelst deildin á þá skoðun við 2. umr. Það er því undarlegt, að nú skuli koma fram till. um það, að láta menn, er alls ekki hafa neina þekkingu á málinu, skifta þessu fje niður. Þessar fjárveitingar eiga að koma rjettilega niður, svo að engri stofnun verði gerður órjettur. En til þess treysti jeg mjer ekki, og er jeg þó málinu eins kunnugur og aðrir háttv. deildarmenn. Og jeg vil í sambandi við þetta minnast á það, hver eigi að vera stjórn skóla landsins. Sumir vilja hafa skólaráð, en þeim get jeg ekki fylgt að máli. Yfirstjórn skólanna á að vera í höndum kenslumálaráðherra, og það verður aldrei sæmilegri skipun komið á kenslumál vor, fyr en kenslumálaráðherra hefir fengið sjerstaka kenslumálaskrifstofu, en fyrir henni ætti að vera, ef jeg svo mætti að orði komast, kenslumálafræðingur, maður með sjerþekkingu á öllu því, er að fræðslumálum lýtur. Það er ekki hugsanlegt, að sami maðurinn sje jafngóður sem skrifstofustjóri fyrir dómsmálaráðherra og fyrir kenslumálaráðherra. Lögfræði og kensla eru svo ólíkar og óskildar, og að lögfræðingum annars ólöstuðum, þá held jeg, að einmitt þeir sjeu sístir til að gegna þessu starfi. Nefndin getur því alls ekki fallist á till., enda geta líka komið upp 5–10 skólar á næsta ári, og enginn skóli er svo góður, að ekki geti komið annar betri, og þá er óheppilegt, ef búið væri að skifta upp öllum fjárveitingum til slíkra skóla.

Jeg kem þá að 15. brtt., frá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Öll nefndin hefir getað fallist á hana. Ýmsir í nefndinni þektu þann skóla, og hinir vildu ekki fyrir ókunnugleika sakir verða meinsmenn skólans í því, að hann fengi þennan 400 kr. styrk.

Næst verður fyrir mjer 18. brtt., frá hv. 1. þm. Árn. (E. E.). Háttv. þingmaður hefir enn ekki talað fyrir þessari brtt. sinni, og þar eð jeg veit ekki, hver þörf er á því að gefa út þjóðsögurnar sjerstaklega nú, þá bíð jeg, uns jeg hefi heyrt rök þau, er hann kann fram að bera fyrir máli sínu.

Brtt. við 3. lið 16. gr., frá þremur háttv. þm. (J. S., B. H., P. O.), er nefndin samþykk, nema að því leyti, að hún vill fella niður orðin: „eða lagður í fjelagssjóð“, eins og sjá má á brtt. hennar á þskj. 436. Það er ekki svo, að nefndin væri því mótfallin að geymt væri frá ári til árs, en þessi orðatiltæki eru svo almenn, að vel mætti misbrúka þau. Þess vegna er hjer ekki um skoðanamun að ræða, heldur aðeins sjerstaka varkárni af hálfu nefndarinnar.

Um 21. brtt., frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), er það að segja, að meiri hluti nefndarinnar var mótfallinn þeirri aukningu til skóggræðslu, en jeg fyrir mitt leyti er henni samþykkur og áskildi mjer rjett til að haga svo atkv. mínu.

22. brtt. má samþykkja án atkvgr.

Þá er 24. brtt. frá hv. þm. Barð. (H. K.), um eftirgjöf á láni til Suðurfjarðarhrepps. Meiri hl. nefndarinnar var á móti henni, en sumir aftur með, og meðal þeirra var jeg, og áskildi jeg mjer að mega greiða svo atkvæði mitt.

25. brtt. frá háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) hefir nefndin getað fallist á, enda var ekkert kapp í nefndinni við 2. umr. að hafa frekar 10 þús. en 12 þús., en rök háttv. þm. (B. H.) þótti nefndinni fullnægjandi.

Till. frá háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) er nefndin andvíg. Hún hefir ekki viljað veita styrk til húsagerðar, sem ekki er byrjað á.

Að því er snertir 34. brtt., frá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), um lán til veitingamannsins í Borgarnesi, þá eru þar óbundin atkvæði nefndarinnar. Jeg var á móti því síðast, og tel naumast heppilegt, þar sem 2 veitingamenn eru í sama þorpi, að styrkja annan þeirra sjerstaklega.

Jeg kem þá næst að 37. brtt., frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), en þar er að ræða um allsherjarheimild fyrir fjrh. til að semja ný fjárlög. Nefndin var öll á því máli, að svo góð stjórnarbylting væri enn ekki orðin hjer, að rjett væri að afhenda alla ráðstöfun fjármála einum manni og gera hann að alræðismanni. Vildu menn semja sig að háttum hinna fornu Rómverja og semja lög sín eftir þeim, þá mætti auðvitað setja í stjórnarskrána ákvæði, er gerði einn mann að „dictator“ með fullkomnu alræðisvaldi, en meðan slíkt ákvæði er ekki til í stjórnarskránni, sje jeg ekki, að ástæða sje til þess að taka upp slíkt fyrirkomulag. Annars trúi jeg varla, að háttv. þm. (J. Þ.) sje full alvara með þessa brtt. sína, því að hjer er hvorki meira eða minna en verið að ónýta alt starf þingsins og selja það einum manni í hendur. Þetta furðuverk hefði heldur átt að gerast þegar í byrjun þings, og stytta svo þingið.

Fleira er svo ekki, sem jeg þarf að segja fyrir hönd nefndarinnar, en jeg á 2 brtt., sem jeg vildi minnast lítilsháttar á. Jeg ber þær fram einn, af því að nefndin hefir þar ekki treyst sjer til að ljá mjer aðstoð sína.

Önnur þeirra er viðvíkjandi orðabókinni. Svo er mál með vexti, eins og jeg áður hefi skýrt frá, að byrjað var á samningu þessarar bókar á öðrum grundvelli; hún átti sem sje ekki að vera vísindaleg, sem kallað er. En þegar sá maður dó, sem að henni vann, fjekk jeg, ásamt nokkrum öðrum, því til vegar komið, að lagt var út í að semja vísindalega orðabók. Er það það eina stórvirki á því sviði, sem þingið hefir ráðist í, og það eina stórvirki, sem Íslendingar hafa gert til ágætis tungu sinni. Alt annað, sem á þessu sviði hefir fram komið, hefir verið útlenskt, nema Supplement Jóns Þorkelssonar og einstök vísindarit eftir hann, sem þá eru alveg um sjerstök efni. Það er svo grandvart um bókmentasöguna á síðari öldum, að Íslendingar hafi skrifað, heldur hefir austurrískur maður ritað um það efni. Auðvitað má telja bókmentasögu Finns Jónssonar; hann er þó af íslensku bergi brotinn, þótt bókin sje samin erlendis. En enginn Íslendingur hefir enn samið sómasamlega orðabók, sem til vísindarita megi teljast. Nú er kominn tími til þess, að Íslendingar fari sjálfir að yrkja sinn akur, taki sjálfir að sjer að vernda tungu sína og þá fjársjóðu, sem hún á liðnum öldum hefir eignast. En slíkt verk er einmitt orðabókin. Svo óheppilega tókst til, að sá, er að henni vann í síðara skiftið, Björn frá Viðfirði, fjell frá að hálfnuðu skeiði. Hefði hann lifað, þá mundi fje hafa fengist tregðulaust hjer á þingi, en þegar hann dó, þá komu þeir, er andvígir voru verkinu, ár sinni svo fyrir borð, að mjög var spilt fyrir fyrirtækinu. Og nú hefir það komið í ljós hjer á þinginu, að menn vilja ekki veita þá fjárveitingu, er að haldi kemur, svo bókin verði vísindaleg. En slík hálfvelgja verður til þess, að verkinu miðar ekkert áfram og fjárveitingin verður aðeins styrkur til einstaks manns. Nú er Jakob Jóhannesson af öllum íslenskum mentamönnum best fallinn til þess að vinna að orðabókarstarfi, og er fús til þess að gefa sig allan við þeirri iðju, og hins vegar eru margir menn eins vel fallnir til kenslu sem hann. Í orðabókina er hann ágætur, hefir alla þá mentun og þekking, er þarf til þess að vinna það verk vel. En engin nauðsyn var til þess að keyra hann inn í Mentaskólann, því að nógir menn voru til þess að skipa þann sess. Það er líka undarlegt, að hæstv. stjórn skuli vera í svo miklum vanda að finna kennara. Jeg beið í 10 ár, áður en mínir ágætu landar fundu ástæðu til að sjá mjer fyrir lífvænlegri stöðu. Og undarlegt mætti það heita, ef nú, svo skömmu eftir að 10 ára bið þurfti til að fá stöðu fyrir lægstu laun, skyldi vera ómögulegt að fá mann fyrir full laun. Þess vegna er það ekki annað en fyrirsláttur, að þennan mann þurfi endilega á þennan stað.

Hin brtt. mín hygg jeg muni ná fram að ganga, úr því að þingið þegar einu sinni hefir tekið Þórberg Þórðarson að sjer. Starf hans er nokkuð sjerstakt og mjög nytsamt. Með þessu væri borgið hinu mikla verki. Það slitnaði þá ekki sundur og færi alt forgörðum á endanum.

Jeg vil nú sanna þetta mál mitt með því að lesa hjer upp fáein brjef, sem Jóhannesi Lynge hafa borist viðvíkjandi orðabókinni.

Það er þá fyrst frá Dr. J. C. Poestion:

„Sehr geehrter Herr!

Besten Dank für „Álit og tillögur um vísindalega íslenska orðabók, ásamt sýnishorni“. Es ist hocherfreulich dass wir ein wissenschaftliches isländisehes Wörterbuch bekommen sollen u.z.w. —(Forseti (S. St.): Þm. hafa ekkert gagn af þessum lestri. Vill ekki háttv. þm. (B. J.) annaðhvort hætta eða lesa á íslensku). Bæði er það, að ekki þarf jeg að biðja forseta um leyfi til þess að lesa skrifað mál — það er hverjum þm. heimilt — og svo hitt, að flestir háttv. þm. munu skilja mál mitt.

— — von berufenen Häden. Die längeren Proben sind köstliche Bissen und Kostproben. Hoffentlieh erlebe ich noeh das Erscheinen dieses treffliehen Werkes“.

Hjer er kafli úr öðru brjefi, frá próf. Finni Jónssyni:

„Jeg þakka yður fyrir brjefið og Álitið. Mjer var það ekki ókunnugt að efni, eins og þjer vitið nú. Af því að Jón ráðherra bað mig að lesa það í handriti, þóttist jeg ekki hafa heimild til að segja yður frá því í sumar, enda vissi jeg, að það mundi koma fram á sínum tíma. Hafi mitt álit orðið að nokkru gagni, er mjer það ánægja. Aðalatriðið haldið þjer fast við, það að taka fornmálið með — og má það til sanns vegar færa auðvitað. Jeg sje, að þjer hafið farið að eins og mig grunaði og jeg þóttist finna, tekið dæmi úr orðabókunum, og er það skiljanlegt og eftir atvikum verjandi.“

Það er merkilegt við þetta brjef, að próf. Finnur hjelt því fram áður, að rjettast væri að hafa orðabækurnar þrjár, eina yfir fornaldarmálið, aðra yfir miðaldamálið og þriðju yfir nútímamál. En nú hefir hann horfið frá þessari skoðun, eins og sjá má af brjefinu. Var það og rjett, því að ef gefnar væru út þrjár samhliða orðabækur, þá mundi að minsta kosti 9/10 allra íslenskra orða koma fyrir í öllum bókunum. Og mega allir sjá, hversu mikil hyggindi eru í því fólgin að prenta þannig hvert orð þrem sinnum.

Enn er hjer brjef frá Halldóri Hermannssyni:

„Jeg hefi lesið álit ykkar og tillögur vandlega, og virðast mjer þær mjög góðar. Jeg er algerlega á yðar máli, að því er það snertir, að orðabókin taki yfir alt málið að fornu og nýju, og jeg varð alveg hissa þegar jeg sá það (í grein í Ísafold, að mig minnir), að próf. Finnur hallaðist að þeirri skoðun, að rjettast væri að skilja málið í þrent: fornmið- og nýíslensku, og er það bara vegna þess, að sú skifting á sjer stað í skyldum germönskum málum. Vonandi fáið þjer yðar málstað fyllilega viðurkendan, að taka skuli alt málið að fornu og nýju, og virðast mjer allar tillögur yðar þar að lútandi vera rjettar. Það er mikið starf, sem þið hafið tekist á hendur, og ættuð þið skilið að vera styrktir vel og drengilega við það, því ekkert er okkur Íslendingum jafn dýrmætt og málið, og það er víst fátt, sem er meira áríðandi nú um stundir en að fá góða orðabók yfir það. Jeg veit, að fyrir yður mun það vera „labour of love“, en vegna þess ætti hið opinbera ekki að láta yður búa við sultarlaun. En starfið er veglegt, og víst er um það, að framtíðin mun meta það eftir verðleikum.“

Þetta eru þá ummæli þessara háttv. manna og ágætu fræðiskörunga, og hefi jeg lesið þau hjer til þess að háttv. þm. sjái, að það eru fleiri en jeg, sem halda fram þessari orðabók, og að hjer sje ekki um eintómar sjerkreddur að ræða frá Bjarna Jónssyni frá Vogi. Nei. Jeg hefi aðeins haldið í þessu efni fram því, sem viðurkent er um heim allan af mentuðum mönnum.

Háttv. þm. geta því óhræddir samþykt brtt. þess vegna, að hjer eru engar sjerkreddur og hjegómi á ferðum, heldur er þetta hið mesta þarfamál. Og jeg býst og við, að þeir geri það og veiti fúsir þessar 9100 krónur, til þess að halda megi áfram eina bókmentastórvirkinu, sem í hefir verið ráðist, að því er íslenskt mál snertir, og til þess að halda uppi sóma íslenskrar þjóðar og íslenskrar tungu.

Þá kem jeg að till. um lánveitingu til Stefáns skálds í Hvítadal, til kaupa á nokkrum hluta af jörðinni Melum.

Þetta skáld er vafalaust besta núlifandi ljóðskáld. Hann er fullþroska maður og fullþroska skáld. Með þessu vil jeg þó engan veginn spá neinum hrakspám um ungu skáldin. Þau eru mörg efnileg, og má vel vera, að eitthvert þeirra verði Stefáni fremra síðar, er þau hafa náð fullum þroska. En jeg tel Stefán nú langfremstan af lyriskum skáldum þessa lands. Það má vera, að jeg særi einhvern með þessum orðum. En jeg hefi sjálfur fengist við rím töluvert, og meira að segja hafa allir hv. þm., nema 2, talið mig færan til að snúa erlendum hugsunum í íslenskt rím. Það mætti því líta svo á, að jeg hyggi nærri sjálfum mjer með þessum dómi. En jeg segi mjer það til hróss, að jeg hefi ekki þekt öfund, og get því fyllilega unnað þessu ágæta skáldi sannmælis.

Stefán er maður fátækur og heilsuveill. Það er honum því mjög haglegt að hafa smábýli, þar sem hann getur alið önn fyrir konu og börnum, en fengist við ljóðagerð í tómstundunum. Bændur í sveitum hafa venjulega lítið að gera á vetrum og langar frístundir, jafnvel þótt þeir sinni sjálfir gegningum, en þó miklu meiri, ef þeir hafa gegningamenn. Þessir menn hafa því bestan tíma og best næði til andlegra starfa. Væri það vafalaust best, ef skáld og listamenn landsins vildu búa í slíkri kyrð, sem sveitirnar bjóða, í stað þess að flykkjast til kaupstaðanna.

Það munu og á annan hátt verða betri kjör þessa manns, ef hann fer að búa. Honum ætti þá að vera efnalega borgið, og landið þyrfti því ekki að taka hann á sína arma, að líkindum. En þingið hefir venjulega orðið bæði seint og illa við fjárbeiðnum slíkra manna. Og er þar skemst að minnast á Þorstein heitinn Erlingsson, er lifði mörgum árum skemur fyrir það, hversu illa hann var styrktur af landinu. Landið á að hjálpa fáum mönnum, en það á þá líka að hjálpa þeim vel.

Hjer er ekki farið fram á styrk beinlínis, heldur lán, og mundi jörð og hús standa fyrir því láni.

En því hefi jeg komið fram með þessa tillögu, að jeg hygg þetta hægastan og sómasamlegastan máta, til þess að hjálpa áfram þessum ágæta manni. Hygg jeg, að varla muni koma fram mótmæli gegn þessari till., og skal því ekki fara um hana frekari orðum.

Jeg hefi nú þegar talað alllengi, en þó vil jeg telja mjer til hróss, hvað jeg hefi verið stuttorður. Till. þær, sem jeg hefi haft framsögu að, eru mörgum sinnum fleiri en hinar, sem hjer voru til umræðu áður í dag. Jeg hafði hugsað mjer að vera í þessari ræðu sem stuttorðastur, og var það öfugt við ætlun mína við 2. umr. fjárlaganna. Þar vildi jeg skýra rækilega frá og gera grein fyrir skoðun minni á fjármálunum, og hafði þá fyrir augum, að jeg gæti þá dregið mig nokkuð í hlje við þessa umr.