30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

41. mál, fjárlög 1922

Pjetur Þórðarson:

Þegar jeg heyrði ummæli háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um efnalegt ástand þjóðarinnar, eins og hann taldi það vera, samanborið við síðasta ár, og þegar hann taldi þær ástæður, sem hann áleit vera fyrir því, þá kom mjer til hugar, að gott hefði verið að hafa hann á Alþingi 1917. Þá var hjer til umræðu og meðferðar frv. um það, hvað nærri mætti ganga hagsmunum ýmsra atvinnurekenda meðal þjóðarinnar, í því viðskifta ástandi, sem þá var. Það ár var eitthvert hið mesta gróðaár, sem komið hefir yfir þessa þjóð. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra (S. E.) háði þá harða baráttu fyrir því, að lagður yrði þungur skattur á gróðamennina meðal þjóðarinnar. Mætti frv. harðri mótstöðu í þessari háttvirtu deild, en marðist þó í gegn um hana, en var síðan drepið í háttv. Ed., sem er og hefir verið aðalaðsetur íhaldsstefnunnar á Alþingi. Jeg get þessa einungis vegna þess, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði í dag um gjaldþol þjóðarinnar.

Jeg ætlaði að minnast á brtt. mínar á þskj. 426. 22. brtt., sem jeg hefi gert, er lítið annað en orðabreyting, eins og frsm. (B. J.) hefir tekið fram. Býst jeg ekki við að þurfa að mæla með þeirri till., því að hún þyki sjálfsögð.

Annars fer vitanlega um þá till. eftir því, hver afdrif næsta till. á undan, frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), fær.

Um hina brtt., 34. till. á sama þskj., vil jeg geta þess, að jeg hefi leyft mjer að flytja hana, eftir að till. í sömu átt hefir fallið með örlitlum minni hluta, að mig minnir 1 atkvæðis mun, við 2. umr. Geri jeg mjer fylstu vonir um, eftir að jeg hefi fært lánsupphæðina niður, að háttv. deild líti með sanngirni á hinar rjettmætu ástæður, sem liggja að baki þessarar till. Háttv. deildarmönnum mun það kunnugt, að Vigfús Guðmundsson hefir nýlega keypt veitingahúsið í Borgarnesi ásamt bróður sínum. Hafa þeir endurbætt húsið mikið og sýnt mikla viðleitni í því að hafa þetta veitingahús í góðu lagi, og kostað til þessa miklu fje. Og í sambandi við aðrar örðugar ástæður, er þeim mjög örðugt að halda gistihúsinu áfram, eins og sakir standa. En vitanlega er mikil þörf á góðu gistihúsi þarna, og mun mörgum háttv. deildarmönnum kunnugt um þá þörf. Það sem aðallega ber til þess, að gistihús ber sig ekki jafnvel í Borgarnesi og ætla mætti, eru hinar strjálu samgöngur við kauptúnið. Vitanlega er ákaflega mikil umferð í Borgarnesi af fólki, sem leið á til Reykjavíkur, og aftur frá Reykjavík og norður og vestur á land.

En þessar samgöngur eru fremur óhentugar, vegna þess, að ferðirnar eru miklu strjálli en vera ætti. Hrúgast því margir í einu að þessu gistihúsi, en þess á milli er þar svo að segja gestalaust tímum saman. Þetta veldur ákaflega miklum erfiðleikum fyrir þá, er halda uppi gistihúsi þarna. Háttvirtur frsm. (B. J.) mintist eitthvað á það, að ekki væri viðeigandi að veita öðru gistihúsinu á þessum stað fjárhagslega hjálp. Ef einhverjir háttv. þm. þekkja ekki til þessa, þá vil jeg geta þess, að þetta gistihús hefir miklu meiri greiðasölu, betur sótt og að öllu betur útbúið og getur tekið á móti langtum fleiri gestum en hitt, sem ekki er útbúið sjerstaklega sem gistihús. Á einhverju hinna síðustu þinga flutti hv. frsm. (B. J.) tillögu um að veita hinu gistihúsinu í Borgarnesi styrk. (B. J.: Það voru einar 600 kr.). Jeg var ekki á þingfundi þegar tillaga þessi var rædd, og gat því ekki látið álit mitt um hana í ljós. En jeg hefði ekki trúað því, að háttv. frsm. (B. J.) yrði á móti jafnlítilli lánveitingu og hjer er farið fram á, eftir að hann hefir flutt till. um að veita hinu gistihúsinu styrk. Það er vitanlegt, að hvort heldur er um þessa eða aðra fjárveitingu að ræða, þá er ekki hægt að lána fjeð, nema það sje fyrir hendi, eins og hæstv. fjrh. (M. G.) mintist á. En jeg treysti því, að allar þær lánbeiðnir, sem samþyktar kunna að verða, sæti sömu örlögum, að látið verði ganga jafnt yfir alla, hvort sem fjárhæðin er stór eða smá, nokkur hundruð kr. eða tugir þúsunda, þegar þeim verður úthlutað. Það er á valdi háttv. þd. að taka til íhugunar þær fjárbeiðnir, sem fram koma, og meta sanngirnisástæðu þeirra. Það er sanngirnis og rjettlætisástæðurnar, sem eiga að ráða í því sem öllu öðru, en ekki þótt búið sje að samþykkja svo og svo stóra lánveitingu áður á þinginu — og jeg vona, að þær ástæður einar ráði úrslitum þegar atkvæði verða greidd um þetta mál hjer í deildinni.

Jeg býst ekki við, þótt jeg tíni til fleiri sanngirnisástæður fyrir máli þessu, að það hafi áhrif. En jeg verð að segja það, að sem stendur er líklega hvergi á landinu jafnmikil þörf á góðu gistihúsi og í Borgarnesi. Allir kunnugir vita og, að þótt umferð sje þar afarmikil, þá koma þó oft vikur og jafnvel mánuðir, sem varla kemur þar næturgestur, eins og jeg hefi áður sagt. Þetta veldur því, að þeir, sem halda uppi gistihúsinu, verða fljótt þreyttir á því, og það er þessi örðugleiki, sem jeg hefi nefnt, að þurfa að hafa mikið húsrúm og mörg gestaherbergi til reiðu, sem eigi eru notuð, nema endrum og eins, sem gerir það sjerstaklega sanngjarnt að hlaupa þarna undir bagga.

Jeg get ekki stilt mig um, áður en jeg sest niður, að geta einnar brtt., sem og liggur fyrir. Það er viðbótartillaga frá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) við fjárveitinguna til skólans í Bergstaðastræti hjer í bænum. Mjer er kunnugt um það, að ákaflega mikil sanngirni mælir með að hækka styrk til skóla þessa úr 600 kr. í 1000 kr. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um fjárlögin, en læt mjer nægja að sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á hinar einstöku brtt.