30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Um leið og jeg renni auga yfir brtt., get jeg ekki stilt mig um að geta um eina nýjung. Jeg er, þótt óvanalegt sje, alveg sammála hv. frsm. (B. J.) um einn lið. (B. J.: Batnandi ráðherra er best að lifa). Það er brtt. frá háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) um skólana. Jeg mun verða móti henni. Enda mun hún gersamlega óþörf, því að þar sem styrkurinn var hækkaður, munu þessir skólar varla fá minna en þar er til tekið. Hjer hefir oft á þingi verið altof mikið þref um það, hvað hver skóli ætti að fá, og mjer virðist aldrei' líkur til, að þingið geti úthlutað styrknum eins sanngjarnlega og fræðslumálastjórn landsins.

Mig hefði langað til að vera með styrknum til að gefa út þjóðsögumar. Hefir margt verið styrkt, sem síður skyldi; þær hafa svo mikið bókmentagildi, en sjerstaklega þó gildi fyrir almenning. En þetta er þó svo laust og óundirbúið, að jeg mun ekki geta greitt því atkvæði mitt. Aftur ætti þetta að vera vakning fyrir næsta þing að taka það upp betur undirbúið.

Jeg er þakklátur háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) fyrir leiðrjettinguna á liðnum um skóggræðsluna. Mjer láðist sjálfum að gera brtt. til að leiðrjetta þetta.

Nefndinni er jeg og sammála um leiðbeiningar í húsagerð til sveita, því að þótt jeg tæki ekki upp styrkinn til þessa, þá er fjárlagafrv. var samið, þá eru nú svo margar kringumstæður breyttar síðan, að þetta getur verið fyllilega rjett. Jeg er því nefndinni þakklátur fyrir að hún tók þetta upp.

Þá vil jeg minnast á XXI. brtt. á þskj. 426, frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Þar er farið fram á að hækka styrkinn til skóggræðslu úr 9000 kr. upp í 21000 kr. Jeg kannast nú við, að sú fjárveiting, sem í frv. stendur, er svo lítil, að hún kemur varla að haldi. Þess vegna væri ástæða til að vera með þessari brtt., ef kringumstæður með fje leyfðu. Af því að jeg hefi talsvert fengist við þetta mál áður í fjárveitinganefnd, langaði mig, þegar jeg undirbjó fjárlagafrv., að koma með rækilega og vel undirbúna tillögu um þetta efni. En þær ástæður, sem hafa verið því til fyrirstöðu, að þingið veitti hærri styrk, hafa líka gert mig ragan við þessa till. Þetta er sem sje ekki nógu vel undirbúið, eins og áður er sagt. Mjer entist ekki tími til að undirbúa það eins og jeg vildi. Starfið verður að vinna eftir lagðri áætlun, „plani“, en sú áætlun er ekki til enn. Og því er ekki hægt að leyna, að fjenu hefir undanfarið ekki verið varið svo, að heppilegt væri að auka það, ef eins færi. Þetta segi jeg því til afsökunar, að jeg gat ekki komið með slíka till.

Þá held jeg, að ekki sje fleira, sem jeg þarf að athuga við þennan kafla.