30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

41. mál, fjárlög 1922

Gunnar Sigurðsson:

Það var aðeins örstutt athugasemd út af ræðu hæstv. fjrh. (M. G.). Jeg ætla ekki að deila við hann um það, hvort samþykt brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) væri brot á stjórnarskránni eða ekki. Mjer heyrðist hann þó hallast að því, að þetta væri „reelt“ brot á stjórnarskránni, þótt ekki væri það „formelt“, og þá erum við að mestu sammála. Þetta byggist á því, að stjórnarskráin er reist á lýðfrelsisgrundvelli en ekki einveldis. En ef brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) verður samþykt, þá er tekið af Alþingi það vald, sem það á samkvæmt stjórnarskránni, og falið einum manni, og væri þá bygt á einveldisgrundvelli. Jeg skal taka það fram, að sumir lögfræðingar álíta, að þetta sje líka „formelt“ brot, en það sagði jeg nú ekki.

Jeg er nú ekkert hræddur um, að hæstv. fjrh. (M. G.) fari að greiða atkv. með till., en nokkuð annað mætti ætla um hæstv. atvrh. (P. J.), eftir orðum hans að dæma. Hann sagði, að sjer hefði þótt vænt um að sjá till., en honum þótti hún eitthvað óviðkunnanlega orðuð. Mjer virðist nú aftur á móti, að till. sje ekkert ólaglega orðuð, en mjög óviðkunnanleg að efni. En hins vegar er það mjög í samræmi við skoðanir hæstv. atvrh. (P. J.) yfirleitt, að hann samþykki till.