28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði ekki búist við umræðum um þetta mál í dag. En af því að hæstv. forsætisráðherra (J.M.) hefir að nokkru leyti skírskotað til mín, skal jeg geta þess, að mjer er kunnugt um það, að enginn samningur hafði verið gerður við Dani um þetta sendiherramál, og engu heitið um það, til nje frá.

Hitt er annað mál, að við ljetum á okkur skilja, að við teldum það hagkvæmt og kurteist, að hingað yrði sendur sem virðulegastur maður. Hitt tel jeg einnig víst, að þrátt fyrir það, þótt engu hafi verið heitið í móti, hafi Danir talið það sjálfsagt, að Íslendinga skorti ekki svo þekkingu á almennum mannasiðum, að þeir færu að senda ótignara mann í staðinn.

Út af því, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að við yrðum, í samræmi við þetta, að senda jafntigna menn til allra þjóða, sem tækju upp á því að senda menn hingað, skal jeg geta þess, að þetta er misskilningur. Því samkv. sáttmálanum er það samningur við Dani, að þeir fari með þessi mál, eins og í umboði Íslands, og þess vegna getur hver einasti danskur sendiherra einnig verið íslenskur sendiherra, þegar svo býður við að horfa.

Nú hvað viðvíkur lagaheimild til að ákveða að sendiherrann taki gjöld fyrir að skrifa upp á leiðarbrjef, þá stend jeg þar nálægt hv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) að því leyti, að jeg tel þess enga nauðsyn. Það út af fyrir sig getur verið stjórnarráðstöfun. En sje lagaheimildin til, er minni ástæða að vænta að grautarlegt verði, og minni vonir um að einmitt sparnaðarpostularnir rísi upp og vilji hætta við þetta síðar. Því er rjettara að skipa fyrir um þetta með lögum, svo menn valdi ekki hneykslunum á þessu vandasama starfi.

Sami háttv. þm. (J. Þ.) hjelt að stjórnin mundi freistast til að skipa ver í sætið, ef lög mæltu svo fyrir, að staðan mætti aldrei mannlaus vera. En þar er jeg gangstæðrar skoðunar. Jeg get aldrei skilið, þegar menn tala um skort á mönnum til þess að gegna störfum fyrir þjóðfjelagið. Jeg verð aldrei var við mannfæð þessa, er menn kvarta svo um. Jeg sje heldur ekki að menn skorti, þegar um vandamestu störfin er að ræða. Er þó hjer um minni vanda að ræða en þegar skipa þarf í stjórnarsessinn, og hafa þó tíðast boðist nógu margir, sem ráðherrar vildu vera, og jafnvel eftir að stólarnir urðu þrír, hafa engin vandræði orðið á að skipa í sessinn. Það hafa nógir boðist, og nógu margir fengist til að fylgja þeim að málum. Sjá þó allir, að hjer er um vandasamari störf að ræða heldur en að velja sendiherra til Kaupmannahafnar. Stjórnin hefir í fleiri horn að líta en þessi eini maður, sem nægan tíma hefir til athafna sinna. Það er meiri vandi að skipa fyrir heldur en að framkvæma.

Annars átti jeg ekki von á slíku vantrausti á starfskröftum þjóðarinnar hjá þessum háttv. þm. (J. Þ.), þó að áður hafi við sama tón kveðið hjer í þingsölunum. Jeg hefi aldrei sjeð að menn skorti, þegar um ný eða vandasöm störf hefir verið að ræða, sem skipa þurfti menn til að gegna. Vil jeg í því sambandi minna á það, að vandameira var að skipa þá menn, sem við Dani sömdu um rjettindi landsins 1918, heldur en að senda mann til Kaupmannahafnar í sendiherrastöðu, og fundust þó menn til þess, samstundis og Alþingi leit í kring um sig.

Jeg tel sjálfsagt að taka þá menn, sem fyrir hendi eru, og reynist svo, að Íslendingar sjeu illa færir til að þjóna þjóð sinni, verður þjóðin að sætta sig við það, að betra er að veifa röngu trje en engu.

Áður en jeg lýk máli mínu, vildi jeg beina nokkrum orðum til stjórnarinnar.

Myndi stjórnin telja þennan sendiherra skyldugan til að fara skyndiferðir nokkurar til annara ríkja í erindum stjórnarinnar og þjóðar sinnar, t. d. til Spánar, ef upplýsinga þyrfti að leita um fiskmarkað okkar, hvort stjórnin gæti ekki, er svo stæði á, brugðið þessum manni fyrir sig, t. d. látið hann nú semja við Spán? Því ef stjórnin teldi sendiherrann ekki skyldan að fara slíkar sendiferðir, fyndist mjer sjálfsagt, að ákvæði um það yrði sett í frv. við 3. umr.

Einnig vildi jeg spyrja um það, hvort sendiherraskrifstofan í Kaupmannahöfn gæti ekki haft ræðismannsstörfin með höndum, t. d. að einn skrifarinn væri aðalræðismaður, eða generalconsul, og gæti farið með umboð sendiherrans í forföllum hans. Jeg er ekki svo kunnugur máli þessu, en mjer skilst, að nauðsyn væri á, að þessi ákvæði væru tekin fram í lögunum. Og sje stjórnin mjer samþykk um nauðsyn þessa máls, tel jeg víst, að auðsótt verði við nefndina að koma að breytingartill. við 3. umr.