07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Þegar hefir nú verið vikið að því, að tekjuhallinn í fjárlögunum, eins og háttv. Nd. skildi við þau, sje 2 milj. 476 þús. 982 kr. 37 aur., og er það alt annað eu álitlegt, í samanburði við þá lýsingu, sem háttv. frsm. fjhn. (S. E.) gaf um horfurnar, og ætti það að vera háttv. þingdeild til varnaðar um að auka þar ekki miklu við.

Síðan eru aðeins fáar nætur, að við höfðum hjer 1. umr. um þetta mál, og þar sem nefndarmenn hafa jafnframt orðið að sinna fleiri málum, þá hefir ekki gefist tími til að rita langt nál., og getur því skeð, að fjvn. hafi skotist yfir eitthvað, svo sjálfsagt má búast við brtt. við 3. umr. Nefndin hefir ekki komið með brtt. við frv. fyr en kemur að 12 gr., og skal jeg þá fyrst víkja að breytingum hennar við þá grein.

Í fjárlagafv., eins og það kom frá Nd., er ákveðið 10 þús. kr. til starfrækslu Röntgenáhalda og 2 þús. kr. til að starfrækja ljóslækningastofu, og ennfremur m.-liður í 27. tölul. til stafrækslu Finsensljósa, til lækningar hörundsberklum, 3 þús. kr. Nú víkur því þannig við, að í ráði er, að sett verði hjer upp hæfilega stór ljóslækningastofnun með Finsenslömpum, sem notuð verður meðal annars til þess að lækna hörundsberkla. Geislastofnun Finsensljósa er mjög ljósfrek og því kostnaðarsöm. Niðurstaða nefndarinnar er sú, að færa þessa liði undir eitt, og er þá fjárveitingin hin sama og sú, er veitt var í Nd. Hinsvegar hugsum við okkur, að þessar stofnanir renni saman og verði báðar eign ríkissjóðs og stjórnin semji við lækninn um starfræksluna, og sje þá kaup hans og væntanlegur ágóðahluti af lækningunum ákveðinn. Um styrk til Radíumsjóðsins er það eitt að segja, að það er einungis orðabreyting. Sjóðurinn heitir Radíumsjóður Íslands, og hefir þess verið óskað, að fjárveitingin yrði orðuð þannig. Næsta brtt. er um styrk til sjúkrahúsa. Fjárveitinganefnd Nd. ákvað að veita til rekstrar sjúkrahúsa og sjúkraskýla 10 þús. kr., en við höfum hækkað þá fjárhæð um þriðjung. Vitanlega fylgir sá böggull skammrifi, að hjeruðin leggi fram þriðjungi meira fyrir hvern legudag en verið hefir. Reynslan hefir sýnt, að það er orðið nær ógerningur að taka sjúklinga inn á sjúkrahúsin með sama gjaldi og verið hefir. Þess vegna er lagt til, að daggjaldið verði hækkað úr 60 aurum upp í 90 aura. Eitt af því, sem háir sjúkrahúsunum úti um landið, er það, hve örðugt er að fá hjúkrunarkonur til þeirra. Við höfum undanfarið verið að kosta stúlkur utan í þessu skyni, og nú veitum við 3 konum utanfararstyrk til hjúkrunarnáms. En meinið er, að við vitum ekki, hvað á að gera við þær, er þær koma heim aftur. Við getum ekki boðið þeim það kaup, sem sæmilegt er. Þetta ætti að vera meðmæli með hækkun þessa styrks, því að það er full hætta á því, að við fáum ekki hjúkrunarkonur til þessara starfa með þeim launum, sem unt er að borga.

Jeg þykist ekki þurfa að ræða frekar um næsta lið, utanfararstyrk til hjúkrunarkvenna, sem fjvn. hefir ekki breytt. En henni hefir þótt rjett að bæta við athugasemd um það, að konur þessar setjist að hjer á landi að loknu námi, ef þeim býðst starf hjer, og er það í samræmi við það, sem jeg nú hefi mælt.

Þá er næsta brtt. um að fella niður fjárveitingu til væntanlegs berklavarnarfjelags. Þetta fjelag er enn ekki stofnað, og nefndin álítur því ekki ástæðu til að taka upp styrkveitingu til þess að þessu sinni. Ef fjelagið verður stofnað og sæmilegur áhugi fylgir því úr hlaði, þá er nægur tími til þess að veita því styrk á næsta Alþingi, annaðhvort í fjáraukalögum eða fjárlögum, eða hvorutveggja.

Næst er að ræða um fjárveiting til Læknafjelags Reykjavíkur, til þess að styrkja utanför umbúðasmiðs. Um mál þetta er það að segja, að Læknafjelagið sótti til þingsins um 8000 kr. styrkveitingu í þessu skyni, en sú fjárveiting fjell í Nd. Það er engum vafa undirorpið, að þörfin á umbúðasmið hjer á landi er afarmikil. Sjúklingar, sem þurfa að láta gera sjer umbúðir, verða margir sjálfir að fara utan, því að það er margreynt, að þótt læknar mæli sjúklingana, þá koma umbúðirnar ekki að fulhun notum, þegar þær koma. Þetta sýnir, að nauðsyn er á að hafa slíkan smið við hendina. Nú stendur þannig á, að læknafjelagið á kost á að fá kenslu handa manni hjer í bænum,sem er einkarvel hagur og álitinn vel fallinn til þess að læra þetta, hjá „Hjemmet for Vanföre“ í Kaupmannahöfn, er hefir lofað að veita honum fullnaðarfræðslu í þessari grein, og er málið þegar undirbúið að þessu leyti. Að ætlast til þess, að Læknafjelagið leggi fram allan þann styrk, er til þessa þarf, virðist mjög misráðið og ósanngjarnt. En þar sem till. fjell í Nd., þótti fjvn. þessarar deildar rjett að lækka fjárhæðina til þessa úr 8000 niður í 6000 kr.

Þá er komið að 13. gr. Um hana er það fyrst að segja, að nefndin hefir þar lagt til stórfelda breytingu, og er hún sú, að í stað 175 þús. kr. til strandferða komi 300 þús. kr. Það er vissa fyrir því, að 175 þús. kr. styrkur til strandferða hrekkur ekki, og við litum svo á, að það sje eigi til annars en að blekkja sjálfan sig og þjóðina, að halda svo lágri fjárveitingu. Er jafnvel mikil ástæða til að ætla, að þessi fjárveiting nægi ekki til Sterlingsferðanna einna, en þar sem Nd. hafði felt 400 þús. kr. fjárveitingu, teljum vjer vænlegra til samkomulags að ákveða fjárveitinguna ekki hærri en þetta, og urðum ásáttir um að ákveða fjárveitingu þessa 300 þús. kr. Svo eru till. um að fella niður fjárv. til tveggja símalína, Reykjarfjarðar og Króksfjarðarness. Þessar fjárveitingar eru ekki í frumvarpi stjórnarinnar, og þess vegna þótti gerlegast að láta þær falla niður, þar sem auk þess má búast við, að alls ekki verði unt að framkvæma þessar símalagningar sökum fjárskorts. Annars ætlaði nefndin að ræða við landssímastjóra um þetta, en hann er fjarverandi sem stendur.

Þá er næst fjárveiting til húsabyggingar í Reykholti. Fjárveiting þessi var sett 5000 kr. í Nd., en við höfum lækkað hana í 2500 kr. Hjer er að ræða um allmikinn kostnað, talað um 100 þús. kr., til að byggja upp staðinn. Og víst mun margan fýsa, að eigi yrði þjóðinni til vansæmdar húsakynni á þessum söguríka stað. Teljum vjer það þjóðmetnaðarmál, sem skylt er að koma í framkvæmd. En þar sem ekki mun ætlast til, að ráðist verði í neinar verulegar framkvæmdir í þessu skyni nú þegar, teljum vjer nægja 2500 kr. til undirbúnings byggingarinnar.

Næst er að ræða um einkalaunaviðbót til dyravarðar Háskólans. Við höfum flutt hana í 18. gr., þótti betur fara á því, þar sem hjer er vitanlega ekki um annað en eftirlaun að ræða, sem dyravörður er sjálfsagt vel að kominn.

Þá er næst að ræða um námsstyrk til stúdenta erlendis. Þessi styrkur kemur að sjálfsögðu í stað Garðstyrksins, því að samkvæmt sambandslögunum er fallinn niður rjettur stúdenta til þessa styrks, en með því þykir ófært annað en veita þeim nokkurn styrk. Hins vegar ætti styrkur þessi að koma að nokkrum notum, og þess vegna er ætlast til þess, að stjórninni verði sýnd vottorð um, að styrkhafar stundi nám sitt með alúð, og njóti ekki styrks lengur en 4 ár, því að svo var um Garðstyrkinn. Jafnframt álítum vjer heppilegt, að stjórnarskrifstofan í Kaupmannahöfn hefði eftirlit með, að styrkur þessi yrði notaður viturlega, því að vitanlega er hægra fyrir hana að hafa slíkt eftirlit en stjórnina hjer.

Þá er að ræða um aths. við námsstyrk handa nemendum Mentaskólans. Þessi athugasemd gerir ráð fyrir að finna ráð til þess að auka tekjur þessarar stofnunar, í því skyni að styrkja efnalitla nemendur, með því að leggja skólagjald á hina efnaðri nemendur. Þótt vjer sjeum eigi beint á móti því, að lágt skólagjald verði sett við skóla þennan, þá virðist tilhögun sú, sem ráðgerð er við þetta, athugaverð.

Það er hætt við, að það mundi valda óþægindum fyrir hina fátæku nemendur, er þeir vissu sig vera nokkurskonar ölmusuþega hinna efnuðu skólasveina, og við þetta mundi samlíf lærisveina skólans spillast. Að ætla að nota þetta skólagjald á sama hátt við gagnfræðaskólana og Kennaraskólann, þykir nefndinni ennþá varhugaverðara, og er því þess vegna mótfallin.

Þá er það Kvennaskólinn í Reykjavík. í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að hækka styrkveitingu til skólans, ef fjárveitingin hrekkur eigi. Okkur þótti þetta varhugavert, því að það er hið sama og ríkið viðurkenni, að það taki skólann algerlega að sjer. Þetta getur nefndin eigi fallist á, og leggur því til, að aths. falli burt.

Næst er að ræða um byggingarstyrk til barnaskóla. Fjvn. Nd. leggur til, að styrkveiting þessi orðist svo: „Til að reisa barnaskóla utan kaupstaða, í kauptúnum og sjávarþorpum og heimavistarskóla í sveitum o. s. frv.“ En þar sem styrkveitingin er svo lítil, og flest eða öll þorp landsins munu þegar hafa reist sjer barnaskóla, þá er líklegast, að fjárhæð þessari verði helst varið til byggingar skólahúsa í sveitum.

Nú er það svo, að sumstaðar í sveitum geta heimangönguskólar komið að fullum notum, og þess vegna þykir rjett að fella niður orðið heimavistarskóla, og láta það vera á valdi stjórnarinnar, hvort veita skuli fje til heimangönguskóla, undir vissum kringumstæðum og ef fræðslumálastjóri álítur það heppilegt.

Þá er það styrkur til Skólablaðsins. Nefndin leggur til, að hann falli niður, af sömu ástæðu og tekin var fram um styrkveitingu til lögfræðilega tímaritsins í nál. um fjáraukalögin. Það er ekki af því, að nefndin álíti eigi fylstu þörf á, að tímarit þetta komi út, heldur vegna þess, að hún álítur, að þingið sje komið inn á skakka braut, ef það fer að styrkja viss tímarit, og eigi gott að vita, hvar slíkt mundi lenda.

Nefndin hefir komið sjer saman um það, að. veita ekki styrk til tímarita, því að þar sem margar styrkbeiðnir hafa komið frá tímaritum, mætti búast við, ef einu væri veittur styrkur, myndu fleiri koma á eftir, og því væri eigi gott að segja hvar ætti að enda.

Um styrki þessa er það að segja, að þeir eru allir lágir, og munar því lítið um þá, þegar litið er á það, hversu bókaútgáfa er feiknadýr.

En það teldi jeg vel ráðið, að hver stjett sýndi metnað sinn í því að reyna að halda úti tímaritum sínum sjálf. Og get jeg í þessu sambandi bent á læknastjettina. Hún hefir sjálf haldið úti tímariti sínu hjálparlaust, og aldrei sótt um styrk til þess, því það er ekki nema eðlilegt, að hver stjett hafi þann áhuga á málum sínum, að hún reyni að halda úti ritum sínum sjálf.

En hvað Skólablaðið snertir, þá mun jeg greiða atkvæði með því, að þessi upphæð til þess fái að fljóta. En fyrir hönd nefndarinnar hefi jeg umboð til að mæla á móti fjárveitingunni.

Athugasemdina um unglingaskólana telur nefndin athugaverða, þar sem svo er kveðið á, að unglingaskólar í fjölmennum kauptúnum og kaupstöðum skuli að öðru jöfnu njóta minni styrks en unglingaskólar í sveitum.

Nefndin er ekki ánægð með þetta orðalag, og telur því rjett að fella athugasemdina niður að þessu leyti. En hún áskilur sjer rjett til þess að koma með brtt. við 3. umr., sem skýri þessa hugsun betur, því að hún lítur svo á, að það geti orðið til reipdráttar milli skólanna, ef orðalagið á athugasemdinni er látið standa eins og það kom frá Nd.

Styrkinn til húsmæðrafræðslu á Ísafirði hefir nefndin bundið því skilyrði, að fram yrðu lagðar annarsstaðar frá 1000 kr., í stað 800 kr., sem í frv. stendur.

Hvað breytinguna á mannsnafninu snertir, þá hefir nefndin lagt til, að í stað „Guðbrandsdóttur“ komi „Brands“, af því að þess hefir verið óskað af konu þeirri, er hlut á að máli.