07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

41. mál, fjárlög 1922

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál, því að það er ekki neitt stórræði, sem jeg ætla að minnast á. Það er um brtt. 502,39. við 16. gr. 3. lið, um að síðari hluti aths. eigi að falla burtu. Nefndin leggur til, að síðari hl. aths. falli burtu, en jeg verð nú að segja það, að jeg tel aths. í frv. rjettmætari. Þótt það sje trú manna, að þessi litli styrkur hafi unnið mikið gagn og uppörfað menn til jarðabóta, þá hygg jeg, að það sje meira trú en sönnun. Því að það er sannast að segja, að þessi styrkur hefir gert yfrið lítið gagn, en þó mest þar, sem fastur fjelagsskapur er kominn á, þar, sem styrkurinn hefir verið notaður fyrir heildina, en ekki verið brytjaður út til einstaklinganna. Jeg veit mörg dæmi til, þar sem styrkurinn hefir verið brytjaður niður til einstakra manna, eftir dagsverkatölu. Jeg veit vel, að fátækir menn hafa glaðst yfir að fá svona 10–20 krónur, en að það hafi valdið framför, það get jeg ekki hugsað mjer, nje heldur hefi jeg fundið, að svo væri. Það segir í aths. frá Nd., að „styrknum skal skift milli búnaðarfjelaganna og varið til verkfærakaupa og styrktar sameiginlegri starfsemi innan fjelaganna“. Það á að verja styrknum til sameiginlegra þarfa, en ef allur styrkurinn væri notaður eingöngu til verkfærakaupa, þá væri það alt of mikil einskorðun. Fjárveiting þessi getur því ekki komið betur niður en ef sameiginleg starfsemi fjelaganna er studd. Jeg veit til, að í Borgarfirði hefir flokkur manna verið í samvinnu og unnið að jarðabótum. Kostnaðinn við slíka samvinnu er sjálfsagt að styðja. En ef einstakir menn vinna fyrir sig að jarðabótum, Pjetur eða Páll, þá þarf að senda skoðunarmenn heim á hvern bæ til þess að mæla hve miklar jarðabæturnar hafi verið, og bæta því við dagsverkatölu fjelagsins, svo fjelagið fái sem hæstan styrk. Hjá þessum sömu mönnum verða kanu ske aftur eugar jarðabætur næsta ár. Það er því rjettast, að þingið gefi bendingu um, hvernig verja á styrknum. Það á að styðja og styrkja sameiginlega starfsemi fjelaganna, en menn eiga ekki að pukra hver í sínu horni, einungis til þess að ná í nokkra aura, sem til einskis gagns mega verða. Af þessum ástæðum legg jeg á móti 39. brtt., og álít að aths. sje rjett orðuð í frv.