07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

41. mál, fjárlög 1922

Sigurður Eggerz:

Ástæðan fyrir því, að jeg bar fram brtt. var sú, að jeg hafði ekki heyrt, hvernig og til hvers fjárveitingu þessari skyldi varið. En eftir að hafa heyrt ástæður hæstv. forsrh. (J. M.), vil jeg leyfa mjer að taka till. aftur.

Það var viðvíkjandi 31. brtt. nefndarinnar, styrkveitingu til dr. Helga Jónssonar, að jeg bað mjer hljóðs. Það er að vísu satt, að dr. Helgi hefir nú fasta stöðu við Kennarask., en áður hefir hann í mörg ár haft mjög lítil laun, þurft að kosta miklu fje til safns síns, og því jafnan átt við örðugar kringumstæður að búa. Jeg vildi því óska, að háttv. deild ljeti 3000 kr. fjárveitinguna til hans standa, að minsta kosti þetta fjárhagstímabil.

Það er líklega tilgangslaust að þrátta við nefndina um þessa nýju lánsheimild til Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem hún hefir tekið upp. Jeg kann illa við að vera að heimila að lána fje úr ríkissjóði, þegar það er ekki til. En annars er jeg ekkert hræddur við, að ríkissjóður taki ábyrgð á láni fyrir Seyðfirðinga.

Viðvíkjandi Hallgrími Hallgrímssyni vil jeg geta þess, að jeg er ekki hræddur um, að stjórnin svifti hann stöðu sinni, þótt fjárveiting til hans sje eigi veitt á nafn. En mjer finst, eins og jeg tók fram áðan, að rjettara væri að láta fjárveitinguna standa eins og hún kom frá hv. Nd., þar sem ekki er sanngjarnt að gera eins miklar kröfur til eins manns eins og hjer er gert, fyrir ekki hærri laun en honum eru ætluð.