11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Sigurður Eggerz):

Jeg efast ekki um, að það sje rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að gjöldin sjeu hærra áætluð nú en áður. En til þess er því að svara, að áður hafa gjöldin verið mörgum milj. kr. of lágt áætluð. Það sýna fjáraukalögin. Og jeg býst nú varla við, að mikill afgangur verði í þetta sinn. Þegar síðustu fjárlög voru samin, bjuggust allir við verðfalli miklu fyr en það kom, og því var lægra áætlað en ella hefði verið gert.

Mjer skildist háttv. fjrh. (M. G.) halda, að jeg hefði ekki viljað áætla þá skatta, sem jeg var á móti. Jeg varð nú ekki var við, að það hefði nein áhrif. Og jeg vil benda honum á það, að þótt hann haldi ef til vill, að pólitík hafi ráðið hjá mjer, þá eru þó 3 fylgismenn hæstv. stjórnar í nefndinni. Og háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), sem tók þátt í áætlun okkar frá hálfu Nd.-nefndarinnar, var sammála okkur um þetta, og er hann þó einn af ákveðnustu fylgismönnum hæstv. fjrh. (M. G.), eins og kunnugt er. Auðvitað getur vel verið, að tóbaksverslunin gefi einhverjar tekjur, og væri það þá vel farið.

Þegar litið er á hina erfiðu tíma, verður, held jeg, varla sagt, að vörutollurinn sje of varlega áætlaður. Hann hvílir eingöngu á vöruinnflutningi, og nú hefi jeg það frá áreiðanlegum heimildum, að það, sem af er þessu ári, sje innflutningur helmingi minni en í fyrra. Yfirleitt hefir nefndin ekki samvisku af því að hafa áætlað of lágt. Betur að svo færi, að tekjurnar reyndust hærri og lækkuðu eitthvað hinn mikla tekjuhalla í frv. Og jeg vona, að þingið taki ekki upp þann sið að hætta að áætla tekjurnar varlega.