11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

41. mál, fjárlög 1922

Sigurjón Friðjónsson:

Eins og háttv. deild er kunnugt, þá var jeg, ásamt háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) flm. að frv. um dýrtíðaruppbót á launum yfirsetukvenna. Þessu frv. var vísað til háttv. fjhn. Hún tók því vel í fyrstu og þótti sem hjer væri um sanngirniskröfu að ræða, en þó varð endirinn sá, að málið stöðvaðist hjá nefndinni, af þeirri orsök einkum, að hv. nefndarmönnum þótti sem sýslusjóðir mundu ekki færir um þann útgjaldaauka, sem þeim væri þar með lagður á herðar. Jeg var þeirrar skoðunar, að ekki væri ástæða til að láta málið stranda á þessu, en svo varð nú samt.

Af þessum orsökum höfum við flm. komið fram með brtt. við fjárlögin, þess efnis, að yfirsetukonur fái dýrtíðaruppbót á þann hluta launanna, sem greiddur er úr ríkissjóði, og eftir þeim reglum, sem gilda um dýrtíðaruppbót presta. Nú eru launin úr ríkissjóði áætluð 30 þúsund kr., og yrði þá dýrtíðaruppbót af þeim næsta ár samkvæmt þeirri reglu um 20 þúsund kr., og er það sú upphæð, sem brtt. fer fram á að sje veitt.

Hjer fylgir enn till. til vara um 10 þús. kr. dýrtíðaruppbót, ef aðaltill. nær ekki fram að ganga, en mjer finst, að svo framarlega sem háttv. þm. vilja ganga inn á, að hjer sje um sanngirniskröfu að ræða, þá eigi þeir ekki að klípa af því, sem aðaltill. leggur til.