11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

41. mál, fjárlög 1922

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg hefi engu við að bæta það, sem háttv. 1. landsk. þm. (S. F.) tók fram um brtt. við 12. gr. Aðeins skal jeg taka það fram, að mjer finst ekki rjettlátt, að yfirsetukonur fái ekki dýrtíðaruppbót af launum sínum eins og aðrir starfsmenn ríkisins.

En það var um hina brtt., um barnaskólana, sem jeg vildi gera litla athugasemd. Háttv. frsm. fjvn. (S. H. K.) sagði, að nefndin hefði ekki þorað að aðhyllast hana sökum kostnaðar. Eins og kunnugt er, eru barnaskólar varla til í sveitum þessa lands, allra síst heimavistarskólar. Víðast þar, sem jeg þekki til, eru skólahúsin að miklu leyti ónothæf til þess, sem þau eru ætluð til. Álít jeg, að Alþingi ætti heldur að ýta undir það, að menn komi sem fyrst upp slíkum heimavistarbarnaskólum í sveitum, því að það gæti orðið til hinna mestu þrifa fyrir alþýðu manna hjer.

Jeg hefi komið fram með þessa brtt. í því skyni að styðja þetta mál, og get jeg ekki sjeð, að svo mikil hætta sje á, að „ófyrirsjáanlegur kostnaður fylgi“, að það ætti að standa í veginum fyrir framgangi hennar.