11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi mjög litlu við að bæta það, sem jeg sagði áðan, enda hafa ekki orðið harðar umræður hjer um þessi mál. Jeg vil þó taka það fram, viðvíkjandi styrknum til barnaskóla utan kaupstaða, að það er ekki það eitt, að ekki sje sýnt hve mikil útgjöld þetta getur haft í för með sjer, heldur má einnig búast við, að þessu fylgi auknar kröfur um framlag úr ríkissjóði til ýmsra annara stofnana. Skal jeg t. d. nefna sjúkrahús. Er við búið, ef slíkur styrkur yrði veittur til barnaskóla, að þá þættust þau líka eiga tilkall til jafnmikils styrks úr ríkissjóði. Eru þeim mun meiri líkur til að svo færi, sem nú er einmitt mikill undirbúningur hjá þessum stofnunum að færa út kvíarnar.

Um styrkinn handa Kjósarhreppsbúum til að sækja lækni þarf jeg ekki að vera margorður, enda veltur þar ekki á miklu. En ekki get jeg verið samþykkur háttv. þm. G.-K. (B. K.) um það, að ekki sje annarsstaðar á landinu erfiðara að ná í lækni en í þessum hreppi. Býst jeg við, að allir verði að játa, að það sje ólíkt torveldara að ná í lækni úr Öræfunum og frá Grímsey heldur en ofan úr Kjós.

Annars skal jeg ekki fara að gera þetta atriði að deilumáli, og man jeg svo ekki eftir, að jeg hafi fleira fram að taka að þessu sinni.