11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

41. mál, fjárlög 1922

Sigurður Jónsson:

Eins og öllum er kunnugt, standa nú yfir rannsóknir á öllu skólakerfi landsins, og í háttv. Nd. liggur fyrir frv. til laga um Mentaskólann í Reykjavík. Það er ekki gott að segja, hvernig þessu reiðir af, en af því að jeg hefi fylgst með öllu, sem um það mál hefir verið ritað og rætt, þá vildi jeg nú fara um það nokkrum orðum.

Sú breyting, sem þetta frv. fer meðal annars fram á, er það, að Mentaskólinn verði að óskiftum lærðum skóla og að slitið sje sambandi hans við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Það hefir, sem vonlegt er, verið mikið deilt um þetta atriði, sambandið á milli skólanna, en þar sem það er tekið fram, að ef þetta nái fram að ganga, þá eigi Gagnfræðaskólinn á Akureyri að vera hötuðgagnfræðaskóli landsins, þá hygg jeg, hvort sem þessi breyting kemst á eða ekki, að sá skóli megi varla við því, að ekki sje góður kennari þar í náttúrufræði.

Við höfum farið fram á þessa hækkun einungis sökum þess, að mjög mikils yrði í að sakna, frá því sem verið hefir, ef náttúrufræðikenslan við þennan skóla færi í ólestri, og þá einnig sökum þess, að mjög er nauðsynlegt fyrir þjóðina, að æskumenn hennar fái góða fræðslu, einmitt í náttúrufræði. Háttv. deildarmenn mega ekki ætla, að hjer sje um neinn ríg að ræða frá Norðlendinga hálfu, en hitt er satt, að okkur mun taka það sárt, ef þessi litli styrkur verður feldur, sem stuðlar að því, að skólinn á Akureyri geti orðið til gagns og þjóðþrifa. Vona jeg, að þessi brtt. okkar komist fram, og það því fremur sem nefndin hefir ekki tekið ákveðna afstöðu gegn henni.