28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Hv. þm. Dala. (B. J.) og háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hafa svarað því, sem svara þurfti, svo þess vegna get jeg verið fáorður. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) taldi okkur ekki hafa ráð á því að launa sendiherra til allra þeirra ríkja, sem fundið gætu upp á því að senda hingað slíka menn. En þessu er auðsvarað. Þingið hefir í valdi sínu, hve marga sendiherra það hefir, og hvað miklu fje skal varið til launa þeirra, og jeg ber það traust til fjárveitingavaldsins, að það muni í því efni sníða sjer stakk eftir vexti. Þá sagði sami háttv. þm. (J. Þ.), að með því að lögskipa starfa þennan, yrði það stjórninni hvöt að skipa samstundis í embættið og einhver færi úr því, og gæti þá farið svo, að stundum væri ekki völ á neinum hæfum manni. Jeg skal nú að vísu játa, að þetta gæti ef til vill komið fyrir, en jeg vil ekki bera það vantraust til komandi kynslóða, að stjórn landsins hefði ekki altaf einhverjum slíkum færum manni á að skipa. Þingið hefir nú einu sinni samþykt þennan sendiherra, og lagafrv. þetta er að eins bein afleiðing af því. Þess vegna virðist mjer það óheppilegt nú að fara að kippa hendinni að sjer aftur. Þingið er búið að viðurkenna nauðsyn sendiherrastarfsins, og úr því það hefir gengið inn á þessa braut, mætti undarlegt heita, ef frv. þetta næði ekki fram að ganga.

Hefi jeg svo ekki fleiru við að bæta, en legg það enn þá eindregið til, að háttv. deild samþykki frv.