11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

41. mál, fjárlög 1922

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg á tvær brtt. á þskj. 562. XI. brtt. er um að ekkju Matth. Jochumssonar verði veittar 2000 kr., í stað 1200 kr., og er það í fullu samræmi við það, sem stóð í fjáraukalögunum og háttv. deild hefir fallist á. Býst jeg ekki við, að hagur konunnar hafi í neinu batnað, svo að það sýnist engin ástæða vera til að minka hann, og vona jeg því að háttv. deild samþ. till.

Um XIII. brtt. skal jeg gefa nokkrar upplýsingar, þar eð svo virtist, sem háttv. frsm. (S. H. K.) væri ekki málinu fullkomlega kunnugur. Ábúandinn á Hlíðarenda fór þess á leit, að jeg sækti um 8000 kr. styrk fyrir hann, en þar sem jörðin var í sjálfseign, þá sá jeg ekki annað fært en sækja bara um heimild fyrir ábyrgð á láni með góðum kjörum. Ástæður fyrir, að hann biður um þetta lán eru þær, að bær hans er hrörlegur, og þó að þetta fje mundi engan veginn nægja til þess að koma upp góðri byggingu, eins og þyrfti, þá yrði þetta þó eigi að síður góður styrkur. Þarna er mikill gestagangur og maðurinn mjög vel fallinn til þess að taka á móti gestum, þó að hann geti naumast látið þá sitja inni fyrir þrengslum, og komið hefir það oft fyrir, að gestum hefir verið bunkað þar í litla stofu, nærri því eins og mjölsekkjum. Svo illa er ástatt með húsnæði hjá honum. — Háttv. frsm. (S. H. K.) sagðist hafa fengið þær upplýsingar, að þeir, sem færu þessa leið, gistu ekki hjá honum. Það má vera að svo sje nú, en það yrði ekki, ef bygging kæmi þar upp. Bílaferðir eru þar miklar, og fjöldi manna fer í bílum til Hlíðarenda og leigir þar hesta. Er því mjög erfitt, ef ekki er hægt að fá þar gistingu. Mjer dettur í hug í þessu sambandi, að veittur er styrkur til byggingar í Reykholti. Auðvitað er það kirkjujörð, en jeg efast um, að þangað komi fleiri gestir en að Hlíðarenda. Það má geta þess, að í 21. gr. 3. lið er veitt lánsheimild til byggingar handa skáldi. Þessi maður er að vísu ekki skáld, en hann er duglegur fylgdarmaður.