11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það eru að eins örfá orð, út af láninu til Vestmannaeyjakaupstaðar og byggingar á Hlíðarenda. Það er í raun og veru ekki ástæða til að leggjast á móti því, að heimild verði veitt til að lána þetta fje, en jeg er einungis viss um, að fje verður ekki fyrir hendi í viðlagasjóði til þess, svo að heimildin verður gagnslaus. Jeg tek þetta fram til þess, að það veki ekki neinar tálvonir, þótt þetta verði samþykt. Það verður líka að athuga það, að með hinum nýja ríkisveðbanka er ráðstafað meginhluta viðlagasjóðsins, og verður þess vegna miklu minna til útlána úr honum.

Úr því að jeg tók til máls, þá skal jeg minnast á XI. og XII. brtt. Mjer finst, að ekkja Matth. Jochumssonar megi vel una við það, sem henni er ætlað í þessu frv., og sje fullsæmd af því, þar eð hún fær hæst allra ekkna á landinu. Og jeg álít það vera ósamræmi að setja það hærra en það þegar er. Sama er að segja um XII. brtt., og mjer þykir vænt um, að hún er tekin aftur, og býst jeg við, að það hafi verið gert fyrir það, að flm. hafi sjeð ósamræmið, sem kom fram gagnvart öðrum, sem líkt voru settir. Annars kennir víða ósamræmis í stefnu þingsins um eftirlaun, einkum á síðustu tímum.