11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi mjög litlu við að bæta. Út af því, sem háttv. 2 landsk. þm. (S. E.) sagði um fjárveitinguna til Gísla Guðmundssonar, þá fæ jeg ekki sjeð, að það sje neitt til fyrirstöðu, að hann fái styrk annarsstaðar frá. Ekki er nema eðlilegt að ætlast til þess, að búnaðarfjelög og sláturfjelög hlaupi undir bagga með honum, þar sem hann stundar þessi vísindi til að styðja landbúnaðinn. Nefndinni fanst því lítil ástæða til að færa sig upp í 5000 kr., og vildi að minsta kosti sjá fyrst, hvort áðurgreind fjelög vildu ekki sýna honum þennan sóma og leggja sinn skerf til.

Um fjárveitinguna til ekkju Matthíasar Jochumssonar er engin ástæða til að fjölyrða; aðeins vil jeg taka það fram, að jeg stakk upp á því hjer við 2. umr., að fjárveitingin væri 3000 kr., en án dýrtíðaruppbótar, og hefði það verið mjög sæmilegt og viðunandi. Sú tillaga fekk ekki byr í nefndinni nje deildinni, og verður því að fara sem fara vill.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir minst á það í ræðu sinni, að ekki þýddi að vera að gefa ávísanir á tóman kassann. Auðvitað væri ákjósanlegast ef hægt væri að skinna upp sem flesta staði hjer á landi, sem sögulega þýðingu hafa, en þeir eru svo afarmargir þeir staðirnir í þessu sögulandi, og er nú fyrirhugað að byggja á Reykholti, en ástæður leyfa ekki, að lengra sje farið að þessu sinni. Af þessari ástæðu er nefndin á móti lánveitingu til byggingar á Hlíðarenda, eins og jeg hefi þegar tekið fram.