14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Þórarinn Jónsson):

Þegar fjárlögin voru til 2. umr. gat fjhn. ekki gert neinar breytingar við tekjuhlið þeirra, því að tekjuaukafrv. voru þá í meðferð þingsins, og varð engan veginn sjeð, hvernig þau myndu verða afgreidd. Nefndin frestaði því þessu, þar til nú, að fjárlagafrv. kom aftur frá háttv. Ed. En fyrir 3. umr. fjárl. í Ed. varð þó að ráði milli fjárhagsnefnda beggja deilda að gera í samráði breytingar í þessa átt, eða ákveða tekjuhliðina eftir því, sem þá mátti búast við, að skattafrv. og önnur tekjuaukafrv. yrðu afgreidd. En þessi athugun var gerð mjög fljótlega, svo að fjhn. hefir nú leyft sjer að koma fram með nokkrar breytingartill. við tekjuhliðina.

Var ásetningurinn að fara sem gætilegast í sakirnar og áætla tekjurnar varlega, svo að frekar yrði ávinningur. Ein ástæða fjhn. til að hækka liðina var sú, að gjöldin hafa verið ákveðin hærri en áður hefir verið. Hafa gjöldin til sjúkrahúsa t. d. verið ákveðin sem næst jafnhá, sem þau voru áður, meðan fjárhagstímabilið var 2 ár; eru því líkindi til, að hjer sparist eitthvað, eða að minsta kosti fari ekki fram úr áætlun. Nefndin hefir þó ekki viljað treysta mikið á þetta.

Að svo búnu vil jeg snúa mjer að hinum einstöku liðum.

Kem jeg þá fyrst að fasteignaskattinum. Hann var ákveðinn í Ed. eitthvað nálægt 270,000 kr., í samræmi við frv. eins og sú deild afgreiddi það. Hjer í deildinni var fasteignaskatturinn lækkaður svo, að hann mun ekki gefa af sjer nema 210.000 kr. En þessa till. gerði fjárhagsnefnd með það fyrir augum, að háttv. Ed. mundi samþykkja frv. í þeirri mynd, sem það fór hjeðan. Er þessi liður ábyggilegur. Því var tekju- og eignarskatturinn færður upp um 50.000 kr. Var þessi skattur ákveðinn í Ed. 650.000 kr. Er erfitt að segja um það, hvað skattur þessi kann að gefa; mun tekjuskatturinn sennilega gefa minna en eignarskatturinn, því að ef framtal yrði nokkurn veginn rjett, ætti hann að gefa talsvert. Tekju- og dýrtíðarskatturinn fyrir árið 1920 var um 800.000 kr., eða hærri en báðir þessir skattar eru áætlaðir til samans. Sýndist nefndinni áætlun skattsins í stjórnarfrv., 1 miljón kr., ekki vera óvarleg, þótt nefndin hafi ekki viljað ganga lengra en hjer er farið.

3. brtt. var við vitagjöldin. Voru þau í Ed. áætluð 100.000 kr., en nefndin hefir fært þau upp í 140.000 kr. Held jeg, að hjer sje ekki óvarlega farið, því að 1920 voru þau 163 þús. kr. Eru líkur til þess, að ekki dragi það úr siglingum.

Næsti liður er áfengistollurinn. Hann er áætlaður hjá Ed. 200.000 kr., en fjhn. hefir hækkað hann um 50.000 kr. Um þennan lið er það að segja, að tollur þessi hefir farið vaxandi hröðum fetum; má því ætla, að hjer sje mjög varlega farið, því að hann er mun lægri en 1919, og 55.000 kr. lægri en inn er komið 1920.

Næsti liður er tóbakstollurinn. Áætlaði Ed. hann 500.000 kr., en fjhn. hefir hækkað hann í 600.000 kr. 1919 var tollur þessi 704.608 kr. og 1920 er hann 619.000 kr. Stafar sú lækkun af teppunni, sem var á innflutningi síðastliðið ár. Býst nefndin við, að þessi tollur fremur hækki.

Þá er vörutollurinn. Ed. hafði áætlað hann 1 miljón kr., en nefndin fært hann upp um 200.000 kr. Verður ekki greinilega sagt um það, hvaða áhrif breytingar á lögunum, sem nú voru gerðar, kunna að hafa. Var margt fært undir ódýrari liði, en þeir líka aftur á móti hækkaðir. Þessi tollur var 1919 993.000 kr., en 1920 var hann orðinn 1.374.000 kr. Er hann nú áætlaður að mun lægri en 1920, eða 1 milj. og 200 þús. kr.

Þá er næsti liður, símatekjurnar. Voru þær áætlaðar hjá Ed. 800.000 kr., en fjhn. hefir hækkað þær um 200.000 kr. Hafa tekjur þessar farið sífelt vaxandi. Árið 1919 voru þær 814.177 kr., en 1920 voru þær rúm 1.000.000 kr. Á fyrstu 3 mánuðum á þessu ári fóru tekjurnar lækkandi, en nú eru þær orðnar jafnháar sem áður, og eru líkur á því, að þær haldist áfram, því að nú er verið að bæta við línu til Borðeyrar, sem ástæða er til að ætla, að muni gefa allmiklar tekjur af sjer. Auk þess verður lögð ný lína á þessu sumri, Kálfshamarsvíkurlínan, sem vissu má telja fyrir að gefi álitlegan tekjuauka. Sýnist því varlega farið, þó að liðurinn sje áætlaður 1 miljón króna.

Þá er 2. brtt. við 3. gr., er gerir ráð fyrir, að tekjur af skipum falli burt, en þær voru áætlaðar 350 þús. kr. Eins og nú er útlit fyrir, þá sýndist fjhn. ekki rjett að reikna tekjur af skipum ríkissjóðs, því að það hefir aldrei verið afskrifað neitt af verði skipanna, og þótti henni viðeigandi, að tekjurnar af þeim gengju þannig til þess.

Þá er 3. brtt. við 4. gr., um að 1. og 2. tölul. falli burt, en í staðinn komi einn liður, tekjur af bönkum, 250 þús. kr. Þetta er æðimikil hækkun hjá nefndinni. En þar sem tekjurnar af Landsbankanum voru áætlaðar 75 þús. kr. og Íslandsbanka 70 þús. kr., þá nemur þessi hækkun nefndarinnar rúmum 100 þúsundum kr. Það var ekki hægt að hafa þetta sundurliðað, þar sem bankafrv. eru ekki komin í gegn um þingið, og ekkert sjeð um hvernig þeim lyktar, en þar sem það skiftir miklu máli fyrir nefndina, þá fanst henni heppilegast að taka það í einu lagi. Hún býst við, að tekjurnar verði um 370 þús. kr. 1920, en ef til vill fara þær minkandi, því að seðlamergðin dregst saman. En nefndinni finst þetta þó ekki óvarlega áætlað, að tekjurnar af bönkunum mundu verða þetta.

Fleiri brtt. hefir fjhn. ekki gert, og sie jeg þá ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en skal aðeins taka það fram, að þótt nefndin hafi leyft sjer að gera þetta, þá hefir hún gert það svo varkárlega sem hægt var.