14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Magnús Pjetursson):

Það er líklega rjettast, að frsm. taki til máls, hver á eftir öðrum, svo að skýrslur nefndanna verði svo að segja í einu lagi. En jeg get þó verið stuttorður, því að þessar brtt., sem hjer liggja fyrir, eru mönnum kunnar áður.

Jeg vil þá geta þess, að mjer finst þetta fjárlagafrv. hafa tekið litlum breytingum í háttv. Ed., jafnvel óvanalega litlum. Mismunurinn á því, eftir að það hefir gengið í gegn um Ed., er, að tekjuhallinn er 50 þús. kr. hærri. Þess er þó þar að gæta, að tekjurnar hafa verið áætlaðar hærri, en gjöldin hafa líka vaxið um 114 þús. krónur.

Brtt. þær, sem fjvn. ber fram, hafa í för með sjer 30 þús. kr. hækkun á útgjöldunum, en á einum lið lækkar hún þau um 100 þús. kr. Af því leiðir, að ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar, þá minkar tekjuhallinn um 70 þús. kr.

Jeg skal þó geta þess, að þessi hækkun Ed. og lækkun Nd. kemur aðallega niður á einum lið, nefnilega auknum styrk til Sterlings. Það mætti því máske segja, að það kæmi í sama stað niður, því að hann yrði greiddur eftir þörf, hver sem hann væri svo áætlaður.

Þá ætla jeg að minnast nokkuð á hinar einstöku brtt. — Og þá er það 2. brtt. á þskj. 598, 1. liður, við 12. gr. fjárlaganna. Það er nýr liður, sem ekki hefir verið minst á áður, og eins og menn sjá, læknisvitjunarstyrkur til þriggja hreppa. Eins og öllum er kunnugt, þá er læknislaust í Öxarfjarðarhjeraði, og þessir hreppar, sem verst eru settir um læknisvitjanir og eiga fremur erfitt uppdráttar, eiga ekki síður rjett á að fá styrk til læknisvitjana en aðrir. Og þar sem talið hefir verið nauðsynlegt að gera þetta að sjerstöku læknishjeraði, þá er jafnframt viðurkend þörf þessa styrks, meðan enginn læknir situr í hjeraðinu. Svo er líka ný athugasemd, sem ekki er við aðra samskonar styrki. Það er nefnilega ekki ætlast til, að hrepparnir fái allir jafnháan styrk. Hrepparnir eru ekki jafnstórir — einn er þeirra langminstur — og er því ætlast til, að sýslunefndin jafni styrknum niður, eftir því sem henni finst sanngjarnast.

Þá er styrkurinn til hins væntanlega berklavarnarfjelags, sem háttv. deild mun muna eftir, að samþyktur var hjer í deildinni við 2. umr. fjárlaganna, og þá að upphæð 10 þús. kr. Þennan styrk hefir háttv. Ed. felt niður. Nú vill fjvn. miðla málum, með því að lækka styrkinn um helming, og það má búast við, að fult samkomulag náist um þessa upphæð.

Reyndar má ekki ætla það, að þetta sje nægileg fjárhæð til starfrækslu fjelagsins, heldur ber að skoða hana sem bending eða hvöt til þess að stofna fjelagið, því að allir munu sjá, að 10 þús. kr. verða of lítill styrkur til fjelagsins, þegar það er stofnað.

Þá er nýr liður, um 10 þús. kr. gjaldauka sem dýrtíðaruppbót á launum yfirsetukvenna. Þessi tillaga er eiginlega komin frá háttv. Ed., og er það mál þannig vaxið, að 2 háttv. þm. höfðu borið fram tillögu um að hafa það 20 þús. kr. En það hefir orðið að samkomulagi beggja fjvn., að varatillagan nái fram að ganga, en meiri hluti háttv. Ed. feldi aðaltill., 20 þús. kr., en varatillagan var ekki fram borin, og var það formsatriði. Þess vegna hefir fjvn. Nd., eftir tilmælum fjvn. Ed., tekið upp þessa tillögu, þar sem hún átti ekki kost á að koma með hana aftur eftir 3. umr. í Ed. — Það hefir talsvert borið á því, að illa hefir gengið að halda yfirsetukonum í minni hjeruðunum, og ætti þetta að ráða nokkra bót á því.

Þá er næsta brtt. fjvn., þar sem ráðgert er að lækka styrkinn til Sterlings úr 300 þús. kr. niður í 200 þús. kr., og hefir nefndin gert það án þess að ráðgast um það við háttv. samgmn.

Það er, eins og getið hefir verið um í umræðunum, ekki hægt að áætla hann með nokkurri vissu, en það er fullvíst, að rekstrarkostnaðurinn á Sterling raun verða minni en gert hefir verið ráð fyrir, og mjer hefir heyrst á hæstv. fjrh. (M. G.) og hæstv. atvrh. (P. J.), að þeim virtist það fullhátt eins og það var samþ. í hv. Ed. Þessi áætlun hefir í sjálfu sjer enga þýðingu, því að vitanlega verður hallinn borgaður, hver sem hann verður, og þótt hann fari fram úr þessu. En þetta mætti fremur skoðast sem bending um, að reynt yrði sem frekast að spara útgjöld þessa skips.

Nú læt jeg staðar numið sem frsm., þar sem jeg er kominn að 14. gr., því að þar kemur til kasta háttv. þm. Dala. (B. J.), en vildi þó minnast á brtt. háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.), um fjárveitinguna til Hróarstunguvegarins. Það stendur ekkert um það, hvort það sje endurveiting eða ekki. En eins og jeg skýrði frá við fyrri umræður fjárlaganna, mun fjvn. ekki leggja til, að veittar verði nýjar fjárhæðir til vega. En eftir upplýsingum frá vegamálastjóra, þá er þetta endurveiting á því, sem veitt var 1920 til þessa vegar, og hefir upphæðin ekki verið unnin upp til fulls, og þar sem ekki er gert ráð fyrir að veita meira fje til þessa vegar, þá á hann eiginlega þetta inni hjá ríkissjóði.

Nefndin er því ekki á móti því að láta þessa veitingu koma inn, en þó með þeim formála, að næsta þing skeri úr, hvort verkið skuli framkvæmt, því að á þessu ári er ekki að hugsa til vegagerða, og þá verður heldur ekki hægt að byrja á þeim fyr en næsta þing er úti. Það er þess vegna leiðinlegt, að orðið „endurveiting“ skyldi hafa fallið niður.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um brtt., en læt þá um það, sem hlut eiga að máli.

Yfirleitt hefir fjvn. reynt að haga brtt. sínum þannig, að sem minstur ágreiningur yrði um þær milli deildanna. Og jeg geri ráð fyrir, ef einhver ágreiningur verður, að hann verði ekki um fjárhæðinnar, heldur um efnisatriðin, en fjvn. Nd. gat ekki farið vægar í sakirnar gagnvart háttv. Ed., enda hefir hún sýnt Ed. fullan sóma, þar sem hún hefir ekki felt niður neina af till. þeim, er þar voru teknar upp.