14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Bjarni Jónsson):

Jeg get nú ekki verið að fara í kapphlaup við hina háttv. frsm. um að vera stuttorður, en get þá líka alt í einu, talað um brtt. fjvn., mína og annara.

Jeg býst þá við, að 1. liðurinn, sem jeg á að tala um fyrir hönd nefndarinnar, verði auðveldur, þar sem hæstv. fjrh. (M. G.) lýsti því yfir í umræðunum, að hann mundi sætta sig við, að þetta hundraðsgjald yrði lækkað úr 6% niður í 4% en nefndin hafði lækkað það enn meira áður en það var felt; þar sem nú hæstv. fjrh. (M. G.) hefir lýst þessu yfir, þarf ekki að kappræða þetta mál frekar.

Þá er það 3. liðurinn, við 14. gr. fjárlaganna A. b. 6., viðbót við eftirlaun, að þau verði hækkuð úr 8 þús. kr. upp í 10 þús. kr.

Svo er til ætlast, að þessi viðbót sje sjerstaklega notuð til þess að bæta upp eftirlaun fátækra presta, móti því, að ef þetta gengur fram, þá verði frv. það, sem einn þm. hefir komið fram með um sama efni. ekki látið ganga áfram. Jeg býst við, að háttv. deildarmönnum sje þetta ljúft og að þeir veiti þetta fje.

Þá er næsti liður við 14. gr. B. XII. 1. c. og er námsstyrkur til sveitastúlkna. Hann er einkum ætlaður þeim sveitastúlkum, er stunda nám á kvennaskólanum hjer. Nefndin hefir hækkað hann upp í 1000 kr. úr 600 kr., er hann var talinn í fjárlögunum. Jeg býst við, að þetta muni vera svo hughaldið sveitamönnunum, að ekki þurfi að mýkja hjörtu þeirra til að samþykkja styrkinn, því að stúlkurnar munu ýmist vera dætur þeirra eða á annan hátt þeim nákomnar. (M. P.: Má ske kærustur). Það munu vera um 70 námsmeyjar, er sækja kvennaskólann, og sjá menn þá, að 600 kr. er ekki mikið fje til styrktar þeim, og skal jeg geta þess, ef mönnum er það ókunnugt, að það er fremur dýrt að dvelja hjer í Reykjavík.

Þá er 5. liðurinn. Það er brtt. við 14. gr. B. XIII. 3., um byggingarstyrk til barnaskóla. Styrkurinn skal veittur til að byggja barnaskóla utan kaupstaða, í kauptúnum og sjávarþorpum og heimavistarskóla í sveitum. Nefndin lítur svo á, að ekki eigi að byggja öðruvísi skóla í sveitum en heimavistarskóla. Jeg býst Við, að ekki þurfi að leiða nein sjerstök rök að því, þar sem allir háttv. þdm. eru aldir upp við brjóst íslenskrar náttúru, og þekkja því íslenskt veðráttufar, og þeir, sem einhvern tíma hafa komið út í kafaldsbyl, vita hversu erfitt getur orðið að ná til sama lands aftur; og ef fullorðnu fólki er hætt við að rata ekki, ef bylur skellur á, hvað mun þá um hálfþroska börn. En ef við lítum svo á, að það sje óþarfi að vera að spara barnslífin, eða vonum það, að ekki farist nema eitt barnslíf á öld af þessum orsökum, þá skil jeg vel, að menn álíti óþarft að byggja heimavistarskóla í sveitum. ( H. K.: Það hagar nú ekki alstaðar svo til). En það eru heldur ekki allir sama mætti gæddir og háttv. þm. Barð. (II. K.), ef hann getur ráðið við veðráttufar í Barðastrandarsýslu.

Nefndin felst á það, sem háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) gat um, að skóli, sem bygður hefir verið með styrkveitingu fyrir augum, eigi sanngirniskröfu að fá styrkinn, þótt eigi falli hann undir þetta.

Þá kemur að 14. gr. B. XlV.a. Þessi liður hefir fallið úr hjá háttv. Ed. Aðalatriði þessarar greinar er, að unglingaskólar, sem eru í kaupstöðum og fjölmennum þorpum, fái minni styrk en sömu skólar í sveitum, að öðru jöfnu. Það þarf ekki að fjölyrða mikið um þennan lið. Það liggur í hlutarins eðli, að það þarf mestan styrk þar, sem erfiðast er að halda uppi skóla.

Þá kemur að 14. gr. XIX. d. Fyrir „Brands“ kemur ,.Guðbrandsdóttur“. Jeg þekki bæði stúlkuna og föður hennar; hann heitir Guðbrandur, svo jeg skil ekki hvaða Brandur þetta er, sem komið hefir í háttv. Ed. Þetta finst mjer ekki vera hæverskt, og ástæðulaust af löggjafarþinginu að meina stúlkunni að vera dóttir hans pabba síns.

Þá er 15. gr. 3. liður. Þar hefir háttv. Ed. felt niður 2000 kr. viðbót til listaverkakaupa, sem þessi háttv. deild samþ. Við 2. umr. hjer lagði nefndin til, að þetta hækkaði um 3000 kr., svo það yrðu 6 þús. kr. En vegna misgánings í atkvæðagreiðslunni fjell till., enda þótt játað væri, að þetta væri rjett aðferð til að styrkja listamenn í landinu.

Mjer þykir háttv. fjvn. hæversk, að lofa háttv. Ed. að eiga þessar 2000 kr., í von um, að hún veiti þessari háttv. deild annað þúsundið, en láti sjálfri sjer nægja hitt þúsundið.

Jeg ætla að hlaupa yfir 15. gr. 3. lið, sem er nýr liður, því að mig vantar þingskjalið.

Þá leggur nefndin til, að styrkur til Náttúrufræðifjelagsins verði lækkaður úr 2500 niður í 2000 kr. Jeg var á móti þessu. (M. G.: Það lá að). Fjelaginu veitir ekkert af þessu, ekki síst þar sem það hefir haft lítinn styrk undanfarið. Svo vildi jeg einnig sjá fyrir sálarvelferð háttv. Ed., og lofa einu af hennar fáu góðverkum að standa.

Næst kemur þá 15. gr. 13. liður. (Fornbrjefasafn). Nefndin leggur til, að „jafnóðum“ falli aftan af aths.

Jeg hefi í umr. ýtt svo á eftir útgáfu nafnaskrárinnar í nafni nefndarinnar, sem fært er. Mjer hefir þó aldrei komið til hugar, að Jón Þorkelsson semdi sjálfur skrá yfir bindi Fornbrjefasafnsins. Hann hefir nóg að gera við sitt starf, þar sem skarð hans yrði vandfylt, ef hans misti við.

Háttv. Ed. hefir veitt fje aukreitis til þessarar útgáfu, og verður það til að flýta fyrir útgáfunni.

7. liður VI. 15. gr. 23. (Þórbergur Þórðarson). Meiri hl. fjvn. hefir lagt til, að till. væri tekin aftur.

Þá kemur að 15. gr. 25. lið (Bjarni Sæmundsson). Nefndin í háttv. Ed. hækkaði hann um 1000 kr., en nefndin hjer hefir lækkað styrkinn niður í 1500 kr. Jeg er þessu mótfallinn, því að þó mjer þætti sómasamlegt, sem gert var hjer, að hækka úr 600 kr. upp í 1000 kr., þá er þetta ekkert mikið, þegar duglegur vísindamaður á í hlut, auk þess að hann hefir kostnað af dóttur sinni, sem dvelur við nám erlendis og hefir lítinn styrk hjeðan. Mundi honum því eflaust koma vel ef Alþingi yrði dálítið örlátt.

Þá er næst 15. gr. 51. liður (Einar Jónsson). Það stendur í frv. eins og það kemur frá Ed. „Listasafn“ í staðinn fyrir listasafn.

Jeg veit ekki hvort þetta er nafn á einhverju vissu safni, en mjer er ekki kunnugt um, að það safn sje til. Eða er þetta listasafnið hjer, sem fornmenjavörður hefir umsjón með. Nú á að taka þetta af honum og fá það í hendur Einari Jónssyni. Það er þó eigi svo að skilja, að það sje meiningin, að hann standi þarna og sýni safnið hverjum þeim, sem kann að hafa keypt sig inn fyrir 10 aura. Nei, hann á alls ekkert ómak að hafa af þessu, heldur er þetta gert til þess, að þeir, sem gæta safnsins, viti, að það er vakandi auga yfir þeim.

Þá kem jeg að liðnum, sem jeg hljóp yfir áðan, 15. gr. 3. liður. (Um að semja skýrslur um safnið frá 1876).

Í sambandi við þetta ætlaði jeg að lesa hjer upp kafla úr ræðu eftir Eirík Briem, sem haldin er á þingi 1915:

„Nefndin minnist á þetta í áliti sínu, og segir, að hún telji ekki rjett að veita fje sjerstaklega til þess að semja skýrslu um Þjóðmenjasafnið, því hún álíti, að þetta heyri undir störf þjóðmenjavarðarins, einkum þar sem hann nú fær allríflega launahækkun, og vilji hún því halda fast við, að styrknum sje varið til að gefa út skýrslurnar, eins og staðið hefir í frv.

Út af þessu vil jeg taka það fram, að hjer er um misskilning að ræða. Fram að 1876 gaf Bókmentafjelagið út skýrslurnar um Forngripasafnið fyrir tímann þar á undan og lagði fram kostnaðinn við prentunina, en borgaði líka ritlaun. Eftir 1876 hefir engin skýrsla um safnið verið gefin út á sama hátt og áður. Fyrst eftir andlát Sigurðar Vigfússonar 1892. var farið að prenta í Árbók Fornleifafjelagsins stuttan lista yfir það, sem safninu bættist árlega. Þessu var haldið áfram meðan þeir Pálmi Pálsson og Jón Jakobsson voru forngripaverðir. En eftir að lögin um Forngripasafnið komu í gildi og núverandi fornmenjavörður tók við umsjón safnsins, hefir Fornleifafjelagið tekið að sjer að gefa árlega út hina ítarlegu skýrslu, sem safnvörðurinn hefir samið, og það verð jeg að skoða sem skylduverk hans, að semja þessa árlegu skýrslu, enda hefir hann líka gert það.

Í fjárlögunum 1913 voru svo veittar 300 kr. á ári til að gefa út skýrslu um Forngripasafnið frá 1876. Þjóðmenjavörðurinn tók að sjer að semja skýrslu þessa, en það sjá allir, að það getur ómögulega heyrt undir starf hans, að semja skýrslu yfir safnið um 30–40 ára skeið“.

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að skýra þetta nánar. Það sjá allir, að það er rangt að heimta þetta af manninum.

Hjer er þó ekki um neinn eyðslubelg að ræða, þar sem sjera Eiríkur er; það er hygginn maður og gætinn. Jeg vildi, að menn sæju, að fjvn. Nd. var hjer ekki að finna upp á neinu nýju; þetta hefir verið gert áður.

Þá gerði nefndin aths. við 16. gr. 3., setti það inn aftur, sem háttv. Ed. hafði felt burtu.

Þá er 16. gr. 17., styrkur til að halda uppi kenslu í hannyrðum. Þessi liður fjell niður í háttv. Ed., víst mest vegna þess, að einn maðurinn í hv. fjvn. Ed. hafði ekki lært hannyrðir.

Nefndin leggur til, að styrkur til björgunarskipsins Þórs sje hækkaður upp í 40.000 kr. Það var samþykt hjer í deildinni, að veittar yrðu 45.000 kr., en háttv. Ed. lækkaði það niður í 30.000 kr. Þetta er of mikil lækkun; nefndin vill ekki, að styrkurinn fari niður fyrir 40.000 kr. Annars er þetta svo þaulrætt mál, að jeg fer ekki lengra út í það.

Fjvn. leggur til, að styrkur til Daníels Jónssonar verði settur inn aftur.

Þessi liður var feldur burtu í hv. Ed., víst vegna þess, að frjest hafði þangað, að einhver Daníel væri dáinn, og vildi hún ekki veita dauðum manni styrk. En sá Daníel var Sigurðsson. En fjvn. Nd. finst rjettast, að Daníel Jónsson fái að lifa, þótt Daníel Sigurðsson sje dáinn.

Þá eru brtt. frá öðrum háttv. þm. Er þar fyrst till. háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), og getur nefndin algerlega fallist á hana nú, eins og hún hafði áður gert. Það var áður búið að samþ. á þinginu 1919 að greiða 3000 kr., en verkfræðingur fjelst á 4800 kr. endurgreiðslu, og telur nefndin rjett, að nú verði greiddar 1800 kr., og fara ekki í slíkan reipdrátt við ekkju dáins manns. Sömuleiðis vill nefndin mæla með till. háttv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.), um hækkun á styrk Janusar Jónssonar. Einnig er till. frá háttv. þm. Ak. (M. K.), og hefi jeg ekkert umboð nefndarinnar til að tala um hana til nje frá.

Jeg kem þá að brtt. frá sjálfum mjer, um Skutilsfjarðareyri. Jeg þekki engan kaupstað í Ísafirði, sem er inst í Djúpinu, en Eyri við Skutilsfjörð er til frá fornu fari, og jeg sje ekki ástæðu til að lögfesta neitt ónefni í fjárlögum, þó að einhverjir erlendir sjómenn hafi álpast til þess að rugla saman nöfnunum af ókunnugleika. Hinsvegar mun jeg kannske ekki leggja meiri áherslu á þetta en svo, að krefjast nafnakalls um till.

Vil jeg þá snúa mjer að till. samvinnunefndar peningamálanna, þó að nefndin hafi sem slík ekkert til þeirra mála lagt. En fyrir mína eigin hönd vil jeg mæla með till. Það er bersýnilegt, hversu óheppilegt það yrði alþjóð manna og öllum atvinnuvegum, ef gengið yrði nú skilyrðislaust að botnvörpungum þeim, sem hjer er um að ræða, svo að glataðist það fje, sem þegar hefir verið í þá lagt. En ef þessu yrði bjargað við nú, og það má gera hættulaust, þegar ekki er um hærri upphæð að gera, mætti áreiðanlega búast við því, að þetta gæti unnist upp á örfáum árum. Og sannarlega mundi þá margt riðlast hjer og hrynja í landinu, ef þessi atvinnuvegur yrði lamaður nú, með því að láta reka á reiðanum með þessi skip, sem vegna ófyrirsjáanlegrar ástæðu hafa komist í kreppu.

Aðra lánsábyrgðarheimild þarf jeg líki að minnast á, þar sem er heimildin handa Álafossverksmiðjunni. Háttv. Ed. færði hana niður í 200 þús. kr., og sá nefndin ekki ástæðu til þess að hagga við því, þar sem sennilegt þykir, að ekki muni þurfa á meiru að halda fyrir næsta þing, eða að verksmiðjan geti ekki stækkað meira en þessu nemur nú. En hinsvegar telur nefndin stjórninni heimilt að ábyrgjast meiri upphæð, og sem næst því, er áður var samþykt í þessari háttv. deild, ef svo stendur á, að fyrirtækinu sje það hagkvæmara, auðvitað að því tilskildu, að örugt sje með þeim hætti, er þá var mælt.

Svo vil jeg loks geta þess, út af meðferð háttv. Ed. á athugasemdinni um skólana, að þessi háttv. deild verður að leggja áherslu á það, að ekki sje í því máli skemd stefna deildarinnar.

Annað þarf jeg ekki að taka fram.