14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

41. mál, fjárlög 1922

Jakob Möller:

Þess mun við þurfa, að menn sjeu stuttorðir, eigi umræðum að vera lokið á þeim tíma, sem hæstv. forseti hefir ákveðið. Jeg mun nú reyna að verða við þeirri almennu ósk að tefja ekki umræður um skör fram, og hefði þó hinsvegar verið ástæða til þess að dvelja um stund við það verkefni, sem peningamálanefnd hefir fengið mjer, sem sje að mæla fram með till. hennar á þskj. 610, um heimild handa stjórninni til að ábyrgjast skipakaupalán botnvörpungaeigenda í Englandi.

Á öndverðu þingi barst Alþingi brjef frá fjelagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, þar sem farið var fram á það, að ríkissjóður tækist á hendur ábyrgð fyrir þessum lánum. Peningamálanefndir þingsins tóku þá þegar í sameiningu mál þetta til athugunar. Ræddu þær fyrst málið við nefnd botnvörpungaeigendafjelagsins og kröfðust frekari upplýsinga og skýrslna frá fjelögum þeim, sem slíkrar ábyrgðar leituðu. Bárust nefndinni síðan erindi í þessa átt frá 8 fjelögum, sem eiga 11 skip, og fylgdu þeim reikningar og skýrslur um allan hag fjelaganna. Var þá skipuð þriggja manna undirnefnd, til að rannsaka þessar skýrslur og gera tillögur um málið, en því verki var ekki lokið fyr en nú síðustu dagana, og því hefir engin tillaga komið fram um þetta fyr.

Fjelögin, sem farið hafa fram á að ríkissjóður hlaupi þannig undir bagga með sjer, eru þessi: „Njörður“ með 1 skip, ,Haukur“ með 2, ,,Stefnir“ með 1, ,,Atlanta“ með 1, „Ísland“ með 2, „Ari fróði“ með 1, „Draupnir“ með 1 og „Kári“ með 2, en auk þeirra mun mega gera ráð fyrir því, að eitt fjelagið enn (skipið „Hilmir“) fari fram á samskonar aðstoð, og ætlast nefndin þá til, að það fjelag komi einnig til greina.

Skuldir þær allar, sem á þessum 11 skipum hvíla, eru um 3% miljón kr. að upphæð.

Samningarnir um skipakaupin voru gerðir undir öðrum kringumstæðum en þeim, sem nú eru. Horfði þá betur um útgerðina, og gerðu menn sjer glæsilegar vonir um uppgripagróða af útgerðinni þegar á fyrsta árinu, einkum að því er til ísfiskis kæmi. Skipin munu hafa kostað um 1/2 miljón króna, eða jafnvel talsvert þar yfir þau vönduðustu. En í það var ekki horft, vegna þess, að búist var við, að þau yrðu fljót að borga sig. Mikill hluti andvirðisins var tekinn að láni í enskum banka og samið þannig um, að lánin skyldu uppsegjanleg með örstuttum fyrirvara, og var það gert í von um fljóttekinn gróða. Nú hafa vonirnar um uppgripin brugðist, svo að mörgum, ef ekki flestum skipunum, hefir verið haldið úti með tapi síðasta ár. Ísfiskssalan brást hrapallega, og þess vegna hafa fæstir útgerðarmannanna getað staðið í skilum með afborganir af lánunum, og vofir yfir, að að þeim verði gengið og skipin seld fyrir lítið, en þeir tapi því, sem þegar er í þau lagt, og öðrum eignum að því leyti, sem söluverð skipanna hrekkur ekki til. Þessu verður ekki afstýrt, nema greiðslufrestur fáist, en um slíkan frest verður ekki að ræða nema gegn auknum tryggingum, vegna þess, hve mjög skip hafa fallið í verði.

Öll peningamálanefndin hefir því gert það að tillögu sinni, að stjórninni verði heimilað að leggja til þessa auknu tryggingu, á þann hátt, að ríkissjóður ábyrgist greiðslu á lánum þessum eins og í tillögunni greinir, og er til þess ætlast, að stjórnin jafnframt veiti skipaeigendum alla þá aðstoð, sem hún getur, til þess að ná sem hagfeldustum samningum um borgunarfrest og borgunarskilmála.

Nefndin er á einu máli um það, að með þessari heimild, eins og til er ætlast, að hún sje skilin og framkvæmd, sje ríkissjóður ekki lagður í neina verulega hættu. Að minsta kosti er óhætt að fullyrða það, að það gæti ekki síður orðið landinu hættulegt, ef til þess kæmi, að gengið yrði að skipaeigendum, skipin af þeim tekin, og ef til vill allar eignir þeirra. Það er ekki sjáanlegt annað en að af því mundi leiða stórfelt fjárhagshrun og lántraustsspjöll, sem óvíst er, að landið fengi afborið. Ef til vill kæmist togaraútgerðin íslenska þá líka að miklu leyti í hendur útlendinga, því að líklegt er að með skipunum færu einnig útgerðarstöðvarnar til greiðslu skuldanna, eins og nú er ástatt. En ætti útgerðin að dragast saman eins og þessu skipatapi svaraði, þá mundi af því leiða svo mikið atvinnuleysi í landinu, að fullkomið neyðarástand væri þá fyrir dyrum.

Þess ber nú að gæta, að þó að skip sjeu nú ekki seljanleg nema fyrir lítið verð, þá er það ekki af því, að sannvirði skipa sje orðið svo miklu lægra en áður var. Þetta er aðeins afleiðing fjárkreppunnar, sem nú hvílir eins og farg á öllum þjóðum. Þetta er ástand, sem gera verður ráð fyrir, að breytist til batnaðar áður langt líður. Þess vegna er líka enn minni ástæða til að láta sjer vaxa í augum þá áhættu, sem hjer er um að ræða að leggja í.

Jeg skal taka það fram, að háttv. samnefndarmenn mínir voru töluvert ragari í þessu máli en jeg. Jeg mundi óhikað greiða atkvæði með því, að ríkissjóður tæki allar þessar skuldir, sem á skipum þessum hvíla, að sjer.

Ef ríkissjóður gæti fengið upphœð þessa að láni, t. d. til 10 ára, með sæmilegum kjörum, þá er jeg sannfærður um, að ekki kæmi til þess, að hann þyrfti að bíða neinn halla af því. Jeg ber það traust til framtíðar landsins og atvinnuvega þess, að slíkt yrði aldrei að tjóni. En jafnvel þó að eitthvert tap yrði á því, þá er jeg þó í engum vafa um það, að beint og óbeint tap ríkissjóðs mundi verða langtum meira af því að missa skipin nú. En nefndin í heild sinni vildi ekki taka svo djúpt í árinni, eins og tillagan ber með sjer.

Frá undirnefndinni, sem jeg gat um, að skipuð hefði verið, kom fram tillaga um að heimila stjórninni að taka ábyrgð á skuldum þeim, sem á skipunum hvíla, að svo miklu leyti, sem hún teldi fært, gegn þeim tryggingum, sem eigendur gætu sett. En nokkrir nefndarmenn töldu það of langt farið og vildu ákveða eitthvert hámark fyrir hvert skip. Var þá fyrst stungið upp á 150 þús. kr., en það hækkað upp í 200 þús. kr., þannig, að stjórninni sje þá heimilað að takast á hendur, fyrir hönd ríkissjóðs, ábyrgð á alt að þeirri upphæð fyrir hvert skip, sem aukatryggingu gagnvart veðhafanum. En vitanlega er stjórninni ætlað að meta það, hvað langt sje fært að ganga, innan þessa takmarks, í hverju tilfelli, eftir því, hvaða aukatryggingar eru í boði og hvernig hag fjelaganna er komið.

Á skipunum hvíla mjög misháar skuldir, þetta frá 11–20 þús. pund sterl., eða frá rúmlega 200 þús. kr. og upp í 450 þús. kr. Nefndin er öll sammála um það, að það sje yfirleitt áhættulaust að takast á hendur ábyrgð á hinum lægri veðskuldum, eða svo miklum hluta þeirra, sem till. greinir. Og um sum fjelögin er svo ástatt, að þau eiga nægar eignir, lánunum til fullkominnar tryggingar, auk skipanna. Kröggur þeirra stafa aðeins af þeim erfiðleikum, sem verið hafa í svipinn, að skaði hefir orðið á útgerðinni, og því ekkert handbært fje til í afborganirnar. Um hinar hærri skuldirnar er nokkru öðru máli að gegna, þó að nefndin hafi ekki viljað undanskilja neitt skipið. Virðist og vel geta komið til mála, að slíkir samningar geti tekist um hærri skuldirnar, að þeim mætti einnig bjarga við í bráðina án mikillar áhættu fyrir ríkissjóð. Það má til dæmis gera ráð fyrir því, að veðhafi kynni heldur að vilja veita nokkurn greiðslufrest einnig á þessum hærri veðskuldum, og jafnvel gefa eitthvað eftir af þeim, ef ríkissjóður tæki ábyrgð á einhverjum hluta þeirra. Auðvitað ætlast nefndin til þess, að skipaeigendur setji ríkissjóði allar þær tryggingar, sem þeir hafa ráð á, svo sem persónulegar ábyrgðir og veðtryggingar, auk veðsins í skipunum, alt því til tryggingar, að ríkið bíði ekki tjón af ábyrgð sinni, og auðvitað yrði stjórnin að hafa vakandi auga á rekstri fjelagamna.

Jeg hygg nú, að óþarfi sje að orðlengja frekar um þetta, því öllum háttv. þingdeildarmönnum er það ljóst, hve afdrifaríkt það yrði fyrir landið að missa þessi skip. Og verður þá þingið að bera það traust til stjórnarinnar, að hún fari ekki óvarlegar í þær sakir en forsvaranlegt er. Og að því leyti brestur mig ekki traust á stjórninni, enda treysti jeg henni miklu síður til að fara nógu langt.

Sje jeg ekki ástæðu til að segja fleira, en vil um leið og jeg sest niður þakka háttv. frsm. fjvn. (B. J.) fyrir það, hvernig hann tók í þetta mál, án þess þó, að jeg viti hvort hann hefir þar talað fyrir munn allrar fjvn.