14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

III. brtt. á þskj. 598 frá háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) er nýr liður, um fjárveitingu til Hróarstunguvegar. Mjer þykir ekkert undarlegt, þó að hann hafi borið fram brtt. þessa, og ætla heldur ekki að fara að mæla á móti henni, þó að jeg hinsvegar geti varla greitt atkvæði með henni, vegna fjárhagsörðugleikanna. Mjer skildist á ræðu flm. (B. H.), að hann skoðaði þetta einskonar endurveitingu, af því að ráð er gert fyrir því, að ýmislegt, sem í fjárlögum stendur, verði ekki útborgað í ár. En ef liður þessi verður samþyktur, þá vildi jeg taka það fram, að komið gæti til mála, að fult eins hentugt yrði, ef fje væri til á annað borð og gera þyrfti við veginn einmitt á þessu sumri, að verja þá til þess hærri upphæð í einu af fje því, sem nú er í fjárlögum, heldur en að tvískifta því og hafa sinn vinnuflokkinn hvort sumarið fyrir ekki meira en hjer er um að ræða. Því að allir þessir flutningar eru dýrir. Gæti því komið til mála að láta aðgerðina dragast til 1922, ef það þætti betur fara. Jeg vildi aðeins benda á, að samþykt þessarar brtt. gæti orðið til þess, að svona yrði framkvæmdum verksins hagað, og verður að skoða þetta sem endurveiting þess, sem nú er í fjárlögunum.

Þá er það seinni brtt. á þskj. 610, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir nú gert nokkra grein fyrir. Stjórnin hefir haft þetta mál til lauslegrar yfirvegunar og fengið upplýsingar í gegn um peningamálanefnd, og mjer er óhætt að segja, þó að hjer sje um afarmikið vandamál að ræða fyrir stjórnina, þá lítur hún þó svo á, að ekki sje forsvaranlegt af þinginu að gefa ekki stjórninni heimild til þess að gera tilraunir til þess að greiða fram úr máli þessu, og þá helst með því að fá greiðslufrest.

Ætla jeg þá að taka það fram, hvernig jeg skil tillöguna í höfuðdráttunum; sem sje það, að taka ábyrgð á skuldunum, alt upp að 200 þúsund kr. fyrir hvert skip, og þá auðvitað að því tilskildu, að skipin sjeu veðhæf og stæðu fyrst og fremst í veði fyrir þeim 200 þús. kr., hvert þeirra um sig.

En mjer skildist, að hv. 1. þm. Reykv.

(Jak. M.) kæmist svo að orði: „auk þess, sem á hverju skipi hvílir“, en þetta hefir víst verið misheyrn hjá mjer, því að sje þetta meiningin, þá finst mjer, að hún sje svo fráleit, að hún geti alls ekki komið til mála.