14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer skilst, að það sje nauðsynlegt að vera stuttorður, svo jeg ætla að láta mjer nægja að drepa á þær einar brtt., sem mjer finnast að einhverju leyti varhugaverðar.

Vil jeg þá fyrst nefna þessar 5000 kr. til væntanlegs berklavarnarfjelags. Það var felt í Ed., og þegar á það er litið, að þar eiga sæti 4 læknar, sem búast mátti við, að farið hafi nærri um nauðsyn þessa máls, þá skýtur dálítið skökku við að taka upp aftur fjárveitingu þessa.

Þá er það dýrtíðaruppbótin til yfirsetukvenna. Lögin um laun yfirsetukvenna eru svo ung, aðeins frá 1919, að undarlegt virðist að fara að hækka uppbótina þegar dýrtíðin er að minka. Og hefði sanngirni átt að gæta, þá var meiri ástæða til að veita uppbót þessa fyrir 1921 heldur en 1922. Annars nemur upphæð þessi svo litlu á hverja yfirsetukonu, að jeg get ekki trúað, að ljettara gangi að fá þær til þess að gegna starfinu, því að þetta nemur þó aldrei meiru en 10–20 kr. á ári á hverja, en munar ríkissjóðinn töluvert í heild.

Jeg hefi ekkert að athuga við það, þó að 4% komi fyrir 6% í aths. við húsabætur prestakalla.

Sama er að segja um eftirlaun presta, enda hefir það orðið að samkomulagi milli mín og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að hann falli frá frv. sínu, og mun jeg þá mæla með fjárstyrk þessum, en þó með því skilyrði, að hann verði þá eingöngu notaður til uppbótar prestum.

Jeg gat um það áðan, þegar nefndin vildi taka aftur till. sína um það, að styrkurinn til Þórbergs Þórðarsonar fjelli niður, að jeg tæki hana þá upp. Frá því hefi jeg þó horfið vegna upplýsinga, sem jeg hefi fengið um starfsemi þessa manns.

Um orðabreytinguna í 9. lið, VI. brtt., er lítið að segja. Þó get jeg ekki sjeð, að betur fari á því, að þar standi: „til listasafns síns“ í staðinn fyrir Listasafnsins. Því verður þó ekki neitað, að landið á safnið.

Viðvíkjandi styrknum til Vestmannaeyinga vildi jeg benda á það, að mjer fyndist eðlilegra, að hann yrði lægri 1922 heldur en 1921, því að þótt ekki væri nema með tilliti til kolaverðsins, sem nú er miklu lægra heldur en áður, þá er það í öllu rjettmætt. Annars skal jeg benda á það í þessu sambandi, að mjer finst undarlegt, að „Þór“. eða fjelagið, sem að honum stendur, skuli ekki taka björgunarlaun fyrir starf sitt. Vestmannaeying um ber þó engin skylda til þess að bjarga vjelbátum eða skipum, án þess að vátryggingarfjelögin greiði fyrir það. Það er ekki nema eðlilegt, að vátryggingarfjelögin greiddu björgunarlaun, þegar sannanlegt er, að Þór hefir orðið þeim að liði, og á þann hátt ætti björgunarfjelagið að geta haft álitlegar tekjur, ef „Þór“ bjargar eins mörgum skipum og sagt er.

Og sje það satt, að „Þór“ hafi í vetur bjargað erlendu skipi, er það undarleg hlífð, að hafa gert það án nokkurs endurgjalds.

Þá er það botnvörpungaábyrgðin, og held jeg sannast að segja, að þetta álit peningamálanefndarinnar hljóti að vera á einhverjum misskilningi bygt.

Hygg jeg, að misskilningur sje milli nefndarmannanna sjálfra um skilning till. Var jeg á fundi og veit hug tillögumannsins; var hans ætlun sú, að ekki mætti ábyrgjast meira en 200 þús. kr. og þar í innifalin þau 7000 sterlingspund, sem bankinn býður að megi standa áfram.

Vil jeg nú spyrja háttv. frsm. (Jak. M.) hvort hann sje sömu meiningar, því að ef hjer er um misskilning að ræða, þá verður að jafna hann. Sló jeg þann varnagla, að ef stjórninni ætti að þykja till. aðgengileg, þá yrði nefndin að gefa frekari leiðbeiningar um framkvæmdir hennar. En komi skýringarnar ekki, mun stjórnin eigi sjá sjer fært að framkvæma till. Vona jeg að skýringarnar verði sem fylstar og að nefndin standi óskift að þeim, því að öðrum kosti getur stjórnin ekkert á þeim bygt.

Þakka jeg svo háttv. frsm. (Jak. M.) traustið, sein hann vildi sýna stjórninni, einkum sökum þess, að hann treysti henni til þess að fara gætilega í málinu, því að það tel jeg mesta traustið, eins og á stendur.