14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

41. mál, fjárlög 1922

Einar Þorgilsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 598 við 18. gr. fjárlaganna, um hækkun fjárveitingar til sjera Janusar Jónssonar. Jeg er þakklátur háttv. frsm. fjvn. (B. J.) og nefndinni fyrir góðar undirtektir, og vona jeg, að háttv. deild snúist á sömu sveif.

Er sjera Janus mörgum að góðu kunnur og hygg jeg, að flestir háttv. þm. muni þekkja hann að nokkru.

Þjónaði hann prestakalli í 32 ár og fluttist síðan til Hafnarfjarðar, er hann ljet af prestskap. Hefir hann stundað þar kenslu í 10 ár, og mun kenslukaup hans hafa verið um 1100 kr. á ári. Hefir hann nú síðustu 3 árin verið mjög heilsutæpur og verið öðruhvoru við rúmið. Er því auðsætt, að efni hans, sem munu hafa verið fremur lítil er hann ljet af prestskap, hafa allmjög hlotið að ganga til þurðar. Hin upphaflega 500 kr. fjárveiting til hans er styrkur, sem honum hefir verið veittur fyrir kenslustundir sínar. Fer nú till. mín fram á, að styrkurinn hækki upp í 720 kr. Skal jeg svo ekki orðlengja mál mitt meira.