14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

41. mál, fjárlög 1922

Eiríkur Einarsson:

Jeg á hjer brtt. við 16. gr. fjárlaganna, um að veittar verði 1800 kr. sem uppbót á skurðgrefti í Miklavatnsmýri. Var fjárveiting þessi feld í háttv. Ed. eftir að hafa náð samþ. þessarar háttv. deildar. Hefir einn háttv. fjárveitinganefndarmaður úr Ed. sagt mjer, að ástæðan til þess muni hafa verið sú, að nefndinni var ekki kunnugt tilefni fjárveitingarinnar.

Vissi nefndin eigi um meðmæli vegamálastjórans. Heyrði jeg einnig, að hv. frsm. fjvn. í Ed. (S. H. K.) lýsti því yfir í ræðu sinni, að áður hefði verið veitt lokauppbót til verks þessa, en jafnframt kom það fram við umr. þessa máls í Ed. nú, samkvæmt yfirlýsingu þess háttv. þingmanns, sem var atvinnumálaráðherra 1919 og lagði þá ráðin á um greiðsluna, að hann áliti rjettmætt, að þessum 1800 kr. yrði nú bætt við uppbótina. Er upphæð sú, sem hjer er beiðst, miklu lægri en tapinu við skurðgröftinn nam. En hjer er ekki farið fram á meira en tillögur vegamálastjóra ná til, svo öllu er vel stilt í hóf.

Játa jeg það, að mjer er mái þetta skylt, en jeg flyt það alt fyrir það með einurð, og treysti sanngirni háttv. þm. Frábið jeg mjer, að það gangi fram sem nokkurt miskunnarmál, en hins vænti jeg, að rjettmæti þessarar málaleitunar vinni henni framgang.

Þá ætla jeg að minnast lítillega á síðari till. á þskj. 610, um ábyrgð ríkisins á skuldunum fyrir trollarana. Er nú búið að skýra mál þetta nokkuð, en svo virðist, sem till. sje ekki ljóst orðuð, enda varð hún til í flýti nú á síðustu stundu, svo að kalla, að því er jeg best veit.

Legg jeg þá skýringu í orðin „alt að 200,000 kr. fyrir hvert skip“, að ekki megi fara fram úr þessari upphæð á neinu skipinu, og jafnframt, að þetta sje ekki upphæðin, sem að jafnaði má fara upp í fyrir öll skipin að meðaltali, heldur aðeins fyrir hvert einstakt eða einstök þeirra, þegar stjórnin hefir metið allar ástæður og þótt þær tryggar. (Fjrh.: Eru 7000 pundin falin hjer í?) Já, jeg hefi talið það. Annars kom það til tals í pennigamálanefndinni, að þetta mál væri svo illa undirbúið, að ilt væri að slá nokkru föstu. Er hjer líka litlu slegið föstu, stjórninni aðeins gefin heimild til að fara svo að, sem henni tiltækilegt þykir, en hámark þó sett. Tel jeg sjálfsagt, að ef stjórninni lýst ótrygt að ganga í ábyrgðina fyrir eitthvert eða einhver skipin, þá geri hún það ekki. Játa jeg það, að ábyrgðarverk er hjer lagt á herðar stjórninni, en hjer var eigi annað úrræði fyrir hendi, en eigi dettur mjer í hug að liggja stjórninni á hálsi, þó að hún fari varlega að. Sýnist mjer dálítið ankannalegt, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir alt að 200,000 kr. fyrir hvern trollara, sem eru 11 talsins, ef svo skyldi falla 200,000 kr. ábyrgðarheimild til eins af þeim fáu iðnaðarfyrirtækjum, er rekin eru hjer í landi og beiðist liðs. Sýnist mjer, að skoða mætti dúkaverksmiðjuna sem 12. trollarann. Skal jeg svo ekki orðlengja meira um þetta, enda gert ráð fyrir í peningamálanefndinni, að undirnefndin þar, er hafði trollarana til athugunar, glöggvaði sig ger á málinu.

Þá er hjer var komið, kom fram krafa frá 13 þingdeildarmönnum, þeim

Þorst. J., E. Þ., S. St., H. K., Þór. J., St. St., P. O., J. A. J., P. Þ, J. Þ., B. H., M. K. og Sv. Ó. um, að umr. um frv. yrði þá þegar lokið, svo hljóðandi:

„Undirritaðir óska, að umr. um fjárlagafrv. verði þegar lokið.“

Áður en krafa þessi yrði borin undir atkvæði deildarinnar, lýsti forseti yfir því, að samkvæmt gamalli þingvenju yrði þeim 3 þingmönnum, sem kvatt höfðu sjer hljóðs áður en krafan kom fram, leyft að taka til máls, þótt krafan yrði samþykt. Fjellu þá 10 þm. af þeim, sem kröfuna fluttu, frá því, að hún yrði borin undir atkvæði, með því að klukkan yrði orðin 6 þá er þessir 3 þm. hefðu lokið máli sínu, en samkvæmt yfirlýsingu forseta yrði umr. slitið þá skilyrðislaust vegna helgi hátíðarinnar (hvítasunnunnar), sem byrjaði þá. Kom krafan því ekki undir atkvæði.