14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

41. mál, fjárlög 1922

Björn Hallsson:

Jeg bjóst ekki við að standa upp, en hæstv. atvrh. (P. J.) gaf mjer tilefni til þess, því að hann mun bæði hafa misskilið orð mín og brtt. Sagði hann, að þetta gæti því aðeins talist endurveiting, að ekki yrði unnið í ár að nýlagningu þarna. Jeg sagði, að ekki mundi verða unnið í sumar. Hefir landsverkfræðingur sagt það, og einnig er formanni fjárveitinganefndar kunnugt um það. Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði líka, að ef eitthvað yrði unnið, þá væri rjettara að vinna meira, sökum þess, að menn mundu sendir austur. En þetta er misskilningur. Vegamálastjóri mun ekki senda menn austur, heldur mun hann láta Jón Ísleifsson, sem sjer um vinnuna við Fagradalsbrautina, sjá um þessa aðgerð líka, með þeim mönnum, sem hann hefir þar.

Hæstv. ráðherra (P. J.) sagðist tæplega mundi geta greitt atkvæði með þessum lið, en þó líklega heldur ekki á móti. Þakka jeg honum ekki fyrir það. Væri það beint rangt að greiða atkvæði móti þessu, þegar aðrar endurveitingar eru komnar í fjárlögin.