14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Magnús Pjetursson):

Jeg vonaði, að jeg þyrfti ekki að standa upp aftur, en hæstv. fjrh. (M. G.) hefir gefið mjer tilefni til þess, svo að jeg verð að gera það. Hann gerði tvær athugasemdir, sem jeg verð að mótmæla.

Honum þótti verra, að fjvn. skyldi hafa tekið nokkuð upp aftur af styrknum til berklavarnafjelagsins. Það þarf enginn að furða sig á því, þó að nefndin fari hjer miðlunarleið, þar sem hún hefir áður fært rök að nauðsyn þessa styrks, og háttv. deild hefir sjálf samþykt áður 10 þús. kr. Nefndin fer nú aðeins fram á 5 þús. kr. Sú upphæð er þó alls ekki nóg, eins og háttv. Ed. hefir viðurkent, en hún ætlaðist til, að næsta þing bætti úr. En jeg sje ekki að það sje neitt mætara.

Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að launum yfirsetukvenna var skipað á þingi 1919, en á meðal Ed. þm. kom frv. um að breyta þeim lögum, en það frv. var aldrei borið fram, heldur varð það að samkomulagi að snúa því svona. Nú er þessi dýrtíðaruppbót þeirra tekin hjer upp í fjárlögin af fjvn., til þess að háttv. Ed. þurfi ekki að setja hana inn, og koma þannig lögunum í sameinað þing.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um, að þessi 10 þús. yrðu svo lítil upphæð á hverja yfirsetukonu, að hana munaði ekkert um hana. Það er satt, að upphæðin er lítil, en launin eru líka mjög lág. Hluti landssjóðs af þeim eru 30 þús. kr. Þeir, sem hafa reiknað það nákvæmlega út, búast við, að hann verði ekki meiri en 24 þús. Ef við miðum við að það sje rjett, sem frv. áætlar, þá verður viðbótin 1/3, og er það þó altaf nokkuð.

Þrátt fyrir það, þótt það sje rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að fjárveitingar til ljósmæðra sjeu meiri í fjáraukal. nú en næsta ár, þá verður það ekki til þess að fá ljósmæður í þau hjeruð, sem þær vantar í. En einmitt hitt, að þær eru í fjárlögunum til næsta árs, mun geta hjálpað til þess.

Jeg vil að endingu minnast á eitt atriði, sem eiginlega heyrir undir háttv. frsm. síðari hl. (B. J.), og vona jeg, að hann taki það ekki illa upp fyrir mjer. Það er ákvæðið um að binda styrkinn til barnaskóla í sveitum því skilyrði, að það sjeu heimavistarskólar. Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafa fett mikið fingur út í þetta ákvæði. Þessum heimangönguskólum hefir verið komið upp víða í sveitum til lítils eða einskis gagns. (H. K.: Ósatt). Það er alls ekki ósatt. Jeg veit vel hvað jeg segi. Sveitarfjelögin hefir vantað fundarhús og unga fólkið ballsal, og húsin eru notuð til þess. Jeg vil ekki styðja að því, að landssjóður leggi fje fram til slíks. Ef heimavistir eru með, þá eru húsin ekki notuð þannig. Það kann að vera á 2–3 stöðum verjandi að hafa heimangönguskóla, en varla fleirum. Og þá kæmi vitanlega til mála að styrkja þá. ef sönnuð væru skilyrði fyrir því, að þau kæmu að notum.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vildi líka fella niður athugasemdina við búnaðarfjelagastyrkinn. Jeg þekki nokkuð til þessarar útbýtingar, því að jeg hefi sjálfur orðið hennar aðnjótandi og veit, að það er ekki minsta gagn að því að jafna nokkrum aurum á dagsverk, eins og gert hefir verið.