14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

41. mál, fjárlög 1922

Jakob Möller:

Eins og háttv. frsm. fjvn. (M. P.) verð jeg að skella skuldinni á hæstv. fjrh. (M. G.) fyrir það, að jeg hefi orðið að standa nú upp aftur.

Það var umtalað í peningamálanefndinni að gera skýra grein til stjórnarinnar fyrir meiningu till. II. á þskj. 610, og skil jeg því ekki, hvers vegna hæstv. fjrh. (M. G.) hefir fundist hann þurfa að fá frekari skýringu á henni nú en jeg gaf í framsöguræðu minni. Ef um mismunandi skilning á till. gæti verið að ræða, þá mundi það væntanlega koma fram í þeirri skriflegu greinargerð, sem stjórninni hafði verið lofað.

Jeg verð nú raunar að halda því fram, að till. sje svo skýr, eins og hún er orðuð á þskj. 610, að þar geti enginn misskilningur komist að, og hefði væntanlega engum hv. þdm. komið til hugar að leggja þann skilning í hana, sem hæstv. fjrh. (M. G.) vill nú láta í hana leggja, ef hann hefði ekki vakið máls þar á.

Hæstv. fjrh. (M. G.) heldur því fram, að þessi skilningur á till. hafi komið fram í nefndinni hjá sjálfum höf. till. Þessu mótmæli jeg algerlega. Og jeg get bætt því við; að eftir að hafa átt tal um þetta við hæstv. ráðherra nú rjett fyrir fund, þá töluðum við háttv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar báðir saman við tillögumanninn, og var hann þá mjer alveg sammála, og er mjer alveg óskiljanlegt, hvernig hæstv. ráðherra hefir getað ruglað þessu fyrir honum, þegar þeir áttu tal saman.

Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess, að sú orðsending lægi fyrir frá veðhafanum, að hann væri fús til þess að láta 7000 sterl. pd. hvíla á hverju skipi án annarar tryggingar en veðsins í skipinu. Og nú vill hæstv. fjrh. (M. G.) láta leggja þann skilning í till., að þessi 7000 pd., sem engrar ábyrgðar er krafist fyrir, eigi að vera innifalin í 200 þús., sem hjer er um að ræða að heimila stjórninni að ábyrgjast. Þetta er svo bersýnileg fjarstæða, að um það ætti að vera óþarft að deila. Ef svo væri, þá kæmi auðvitað aldrei til þess, að stjórnin, fyrir hönd ríkissjóðs, tækist á heldur ábyrgð fyrir 200 þús. kr. fyrir hvert skip, heldur í mesta lagi fyrir 200 þús. ÷ 150 þús. (þ. e. ÷ 7000 pd. sterl.). Það var þá með öllu þýðingarlaust að setja þetta hámark, 200 þús., ef ábyrgðin átti aðeins að vera fyrir 50 þús. kr. Jeg held því líka fram, að orðalag till. heimili alls ekki þennan skilning. Í henni hlýtur að vera átt við það, að þessi ábyrgð, sem þar er ráðgert fyrir alt að 200 þús. kr., eigi að vera veðhafanum aukatrygging, auk veðsins, sem hann hefir í skipunum.

Fyrsta till., sem fram kom, fór í þá átt, að heimila stjórninni að ábyrgjast allar skuldirnar. Það þótti höfundi tillögu þeirrar, sem hjer liggur fyrir, of víðtæk heimild, og fyrir honum vakti þá ekkert annað en að útiloka það, að í till. gæti legið heimild til að taka fulla ábyrgð einnig á hæstu veðskuldunum til síðasta eyris.

Hæstv. atvrh. (P. J.) segir, að sjer hafi skilist, að jeg hafi komist þannig að orði, að ábyrgð ríkissjóðs ætti að vera auk þess, sem á hverju skipi hvílir. Slíkt hefir mjer auðvitað aldrei komið til hugar að segja, því að fyrst og fremst er mjer ekki kunnugt um, að hjer sje um neinar aðrar skuldir að ræða en þær, sem hvíla á skipunum. Hitt liggur í hlutarins eðli, að ef til þess kæmi, að til ábyrgðar ríkissjóðs þyrfti að taka, þá ætti ríkissjóður að hafa rjett til að „ganga inn í“ veðrjett bankans.

Hæstv. stjórn er það í sjálfsvald sett, hvernig hún notar þessa heimild. Hún á að meta það, samkvæmt beinum fyrirmælum till., á hve hárri upphæð ríkissjóði sje fært að taka ábyrgð fyrir hvert skip. Mjer er því óskiljanlegt, hvers vegna stjórnin endilega vill láta binda hendur sínar svo, að hún megi ekki, hvaða tryggingar sem eru í boði og hverju sem fram vindur, ábyrgjast hærri upphæð fyrir nokkurt skip en um 50 þús. kr. Nema þá að það vaki beinlínis fyrir hæstv. fjármálaráðherra að gera þessa heimild að hreinni markleysu, og væri þá miklu sæmra að leggjast algerlega á móti tillögunni. En heimildin er gersamlega þýðingarlaus, ef sá skilningur er í hana lagður, sem hæstv. fjrh. (M. G.) heldur fram. Sú hjálp, sem þá væri um að ræða, kæmi skipaeigendum að engum notum, nema þá ef til vill aðeins einum, sem í raun og veru þarf þessarar hjálpar ekki með, nema þá aðeins „pro forma“.