14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

41. mál, fjárlög 1922

Jón Baldvinsson:

Þegar jeg talaði áðan um brtt. á þskj. 598, um að fella niður 22. gr. fjárlaganna, heimildina fyrir landsstjórnina um að ábyrgjast alt að 200 þús. kr. fyrir Álafoss, þá gleymdi jeg að minnast á till., sem er á þskj. 610 frá samvinnunefnd peningamálanefndar. En hún er um ábyrgð landsstjórnarinnar á skuldum íslenskra botnvörpuskipa í Englandi, alt að 200 þús. krónur fyrir hvert skip. Sú tillaga getur ef til vill talist nokkuð hliðstæð hinni tillögunni. Það má vel vera, að hjer sje þörf á, að hlaupið sje undir bagga með eigendum skipanna, til þess að skipin missist ekki út úr landinu: en það er fyrst og fremst hlutverk bankanna. Og þar sem telja má víst, að landsstjórnin þurfi að taka lán erlendis, enda frv. komið fram um heimild til þessa, og það enn fremur víst, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að landið þurfi að taka lán til styrktar bönkunum, þá sýnist mjer liggja nærri og tel það sjálfsagt, að stjórnin stuðlaði að því, að bankarnir tækju að sjer ábyrgð á skuldum þessara skipa, eða greiddu þær. Bankarnir eru líka kunnugri því en landsstjórnin, hvernig þessu verður við bjargað. Og jeg býst líka við, að á þennan hátt geti hjálpin komið eins fljótt eða fljótar en þótt stjórninni sje heimilað þetta í fjárlögum næsta árs.