14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal vera stuttorður, og mundi hafa verið það engu að síður, þótt eigi hefði verið gerð tilraun til að hefta málfrelsi mitt, Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að svo háttaði víða til sveita, að hafa mætti heimangönguskóla. Ef svo hagar til einhversstaðar, þá falla slík hjeruð undir sjávarþorp, með þeim breytingum að taka ,,sjávar“ framan af, því að auðvitað er hægt að hugsa sjer þorp til sveita. En annars skil jeg ekki í því, að nokkur maður skuli þekkja svo illa sitt eigið land, að hann haldi því fram, að alment hagi svo til hjer. Og jeg hygg, að þeir, sem ekki vilja valda barnadauða hjer á landi, muni hallast að mínu máli í þessu efni.

Þá skal jeg geta þess, að fjvn. vill ekki svifta búnaðarfjelögin sjálfræði, þótt þeim sje styrkur veittur með skilyrði. Alþingi er sjálfrátt, hvort það veitir styrkinn með skilyrðinu eður ekki.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) vildi fella niður ábyrgðina fyrir Álafoss, vegna þess, að stjórninni sje engin heimild veitt til þess að setja verð á vörumar, sem verksmiðjan framleiðir. Ríkið á eftir þessu að vera eins og okurkarlarnir, sem taka 8–12% fyrir að skrifa upp á víxla. Það á að koma í staðinn fyrir ábyrgðina, að stjórnin setji niður verð vörunnar, svo almenningur geti fengið ódýr föt. Sami háttv. þm. (J. B.) taldi það heppilegast, að bankarnir ábyrgðust skipin. En það er óvíst, að þeir, sem kröfur hafa á skipin, vilji bíða eftir því. Hygg jeg, að mundi vera búið að selja þau 4–5 sinnum áður en sú hjálp kæmi. Það er auðvitað heppilegra, að stjórnin ábyrgist.

Nú skal jeg láta máli mínu lokið. Hygg jeg, að ekki hafi farið lengri tími í mál mitt en í þvargið áðan um að slíta umræðum.