19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

41. mál, fjárlög 1922

Guðmundur Ólafsson:

Jeg get nú ekki byrjað á sömu orðum og síðasti ræðumaður, að það hafi legið í loftinu, að fjárlögunum yrði ekki hleypt í sameinað þing, því að ómögulegt var að skilja annað á fundi, sem Ed. þingmenn hjeldu í því skyni að ráðgast um það, hvort fjárlögin skyldu fara í Sþ., en að þeim skyldi hleypt þangað. En hv. fjvn. hefir stungið þessu hjá sjer og gert grein fyrir því á sína vísu, að hún rjeði eigi til að fjárlögin færu í Sþ., eftir að hún er búin að fjargviðrast út af ýmsum hækkunum hv. Nd. Sumt af þessum hækkunum hefir margsinnis fallið hjer í deildinni. Ein af þeim fjárveitingum, sem aftur er tekin upp í háttv. Nd., var feld sem alveg óþörf á þinginu 1919, og ýmsar fleiri fjárveitingar, sem ekki ættu að sjást í fjárlögunum, eru nú teknar upp, en jafnsjálfsagður gjaldaliður eins og styrkur til strandferða lækkaður um 100.000 kr. Það fje þarf auðvitað að greiða jafnt fyrir það, en virðist aðeins felt úr í því skyni að lokatekjuhalli fjárlaganna verði ekki meiri á pappírnum fyrir þessar aðgerðir. En það fer máske vel á því, að Nd. hafi fjárlögin hjá sjer nær allan þingtímann, og vjer hjer segjum svo já og amen við öllum hennar gerðum.

Háttv. fjvn. leggur mikið upp úr þeim tíma, er sparast við að láta ekki fjárlögin fara í Sþ., en þetta næstlengsta þing hefir varið sínum tíma lakar en þótt stund úr 1 degi væri notuð til þess að kippa einhverju af þessu í lag.

Jeg stóð aðallega upp í því skyni að láta óánægju mína í ljós yfir þessu. Og þegar Ed., hefir haft meiri viðhöfn um þetta en áður hefir tíðkast, þar sem lokaður fundur hefir verið haldinn til þess að ræða um málið, þá finst mjer þetta ærið undarlegt.

Svo vil jeg taka undir það með háttv. frsm. fjhn. (S. E.), að mjer finst þessi tekjuáætlunarhækkun Nd. ekkert til bóta. Frágangur hennar á frv. yfirleitt er líkastur því, að hún vilji sópa yfir misfellurnar, til þess að fjárlögin líti betur út.