19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Sigurður Eggerz):

Jeg get tekið undir það með hæstv. fjrh. (M. G.), að hann sje síður en svo glæsilegur sá mikli tekjuhalli, sem er í fjárlögunum nú. En þó tel jeg það sorglegra, ef hann verður í reyndinni ennþá meiri en fjárlögin bera með sjer nú, eins og jeg fastlega býst við. Áætlanir háttv. Nd. geta varla talist varlegar. Vitanlega lækkaði háttv. Nd. 2 liði, og má eflaust telja báðar þær lækkanir rjettmætar. Önnur lækkunin stafar af því, að frv. um fasteignaskatt var breytt í hv. Nd., eftir að þessi háttv. deild hafði samþykt tekjuáætlunina. Hin lækkunin fer í þá átt að fella niður tekjur af skipum, og má sjálfsagt telja það rjettmætt, eftir þeim horfum, sem nú eru fyrir hendi.

Jeg get ekki gert mjer vonir um, að tekjurnar af tekjuskattinum verði eins miklar og háttv. Nd. og hæstv. fjrh. (M. G.) gera ráð fyrir. Sömuleiðis hefir Nd. hækkað vörutollinn og símatekjurnar, sem jeg tel hvorttveggja mjög efasamt að geti staðist, og vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður tekið fram þessu viðvíkjandi. Er því áreiðanlegt, að hjer er aðallega um toppáætlanir að ræða. En áður hefir þeirri góðu reglu verið fylgt að áætla tekjurnar altaf heldur lægra en þær í raun og veru verða. En útgjöldin tel jeg alveg sjálfsagt að áætla sem næst því, sem þau munu verða. En ef breyta ætti um reglu, og áætla tekjurnar eins hátt og hægt væri, og gjöldin sömuleiðis, þá tel jeg það langt frá því að vera til bóta, því að það gæti meðal annars leitt það af sjer, að stjórnin ætti erfiðara með að standa á móti auknum útgjöldum. Jeg held því, að það sje besta búmannsreglan að áætla tekjurnar lágt og útgjöldin sem næst því, sem þau munu í raun og veru verða.

Jeg skal játa það, að það er erfitt að stemma stigu fyrir hinum sífelt auknu útgjöldum hjer á Alþingi. Og jeg sje ekki annað en að taka verði upp alveg nýja stefnu við samningu fjárlaganna, ef koma á í veg fyrir hinn mikla halla, sem árlega er í fjárlögunum. Sú aðferð yrði að vera á þá leið, að í byrjun þingsins yrðu fjárhagsnefndir, í samráði við stjórnina og fjárveitinganefndir, að ákveða, hve mikill hallinn mætti vera, og út fyrir þau takmörk mætti svo ekki fara, og gæti þá stjórnin neitað að taka við fjárlögunum með meiri halla en þeim tiltekna.

Þar væri aðhaldið.