03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Finst því rjett af mjer að standa upp og gera nokkra grein fyrir, af hverju sá fyrirvari stafar, enda þótt jeg búist ekki við, að mínar sjerkreddur fái mikinn byr hjer í háttv. deild.

Það er nú ekki svo að skilja, að það sje ekki fleira en eitt eða jafnvel tvö atriði, sem athuga þyrfti. En eins og háttv. frsm. fjhn. (Sv. Ó.) tók fram, þá er ekki hlaupið að því t. d. að hrófla við skattstiganum, þó að maður hefði tilhneigingu til að breyta eitthvað til. En auk þess var störfum svo hagað í nefndinni, að þetta mál kom lítið til minna kasta þar. Af því að nefndin hafði svo margt fyrir, þá höfðu nefndarmenn verkaskiftingu með sjer, og hafa því sumir nefndarmanna haft minni áhrif á sum málin en aðrir. Er því t. d. þannig varið um þetta frv., að jeg hefi ekki haft tækifæri til að rannsaka það eins og skyldi.

Jeg get ekki látið hjá líða að geta þess, að sá samanburður, sem gerður er í aths. við frv. á skattstiga frv. og núgildandi tekjuskatti, sýnir berlega, hve nærri er gengið á vissu teknasviði, svo að skatturinn hækkar stórkostlega, frá því sem nú er, og miklum mun meira en á öðrum stigum. T. d. vil jeg aðeins benda á, að á vissu sviði er hækkun á tekjuskatti 200 kr. frá því sem nú er. Er það að vísu á nokkuð háum tekjum, eða á 10–12 þús. kr. og upp í 15 þús. kr., og er hækkunin þar reyndar ennþá meiri, eða alt að 300 kr. Það er því augljóst, að þetta er gífurleg hækkun. Það er einnig athugandi, að á þessu sviði verður skatturinn áberandi hærri en t. d. í Danmörku, sem hjer er tekin til samanburðar í athugasemdunum.

Á hærri tekjum er hann aftur á móti áberandi lægri. Við eigum þannig aðallega að byggja á tekjuskatti af lægri tekjunum, í stað þess sem aðrar þjóðir byggja aðallega á hinum hærri. Þegar kemur yfir 40 þús. kr. tekjur, fer skatturinn aftur að lækka, í samanburði við danska skattinn og frá því, sem hjer hefir verið að undanförnu.

Jeg þykist vita, að það hafi vakað fyrir hæstv. stjórn, að hjer á landi sje ekki mikilla tekna að vænta af tekjuskatti af svo háum tekjum eða hærri. En þó að svo háar tekjur sjeu kannske tæplega til hjer nú, þá má þó gera ráð fyrir því, að það breytist til batnaðar með tímanum. Mjer finst því ástæðulaust að hlífa háu tekjunum af þessum ástæðum. Skattstigann hefði átt að ákveða með fullu tilliti til þess, hvað sanngjarnt er og til frambúðar. Mjer hafði nú dottið í hug að fara nær danska skattstiganum en gert er í frv., lækka skattinn nokkuð á lægri tekjunum og hækka hann á þeim hærri, en jafnframt þá að hækka eignarskattinn eitthvað, til að bæta upp þann tekjumissi, sem orðið hefði að þessu, að minsta kosti í svipinn.

En aðallega var það nú ekki þetta, sem var því valdandi, að jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, heldur voru það ákvæðin um skattgreiðslu samvinnufjelaganna, og það var það, sem jeg átti við, að ekki mundi fá mikla áheyrn hjá háttv. deild, þó að jeg færi að hreyfa því. En jeg gat þó ekki þagað og setið hjá.

Það er búið að fylla svo eyru allra landsmanna, og þá einnig háttv. þm. með slagorðunum um „tvöfalda skattinn“, að jeg býst tæplega við því, að mínar hjáróma athugasemdir komist inn í hlustirnar.

Jeg sje enga sanngjarna ástæðu til að gera nokkurn mun á verslunarrekstri samvinnufjelaga og annara fjelaga eða einstakra manna. Verslun samvinnufjelaganna er alveg sama eðlis og önnur verslun; hún er líka rekin í ábataskyni, og á þess vegna að bera sömu skatta.

Skattalöggjöfin á ekki að ívilna einum verslunarrekanda öðrum fremur í skatti. Það varðar þjóðarheillina mestu, að verslunin sje sem ódýrust. En samvinnufjelögin gera í raun og veru ekkert til að bæta verslunina. Þau selja vörur sínar yfirleitt engu lægra verði en kaupmenn. Ef þau geta ekki staðist samkepni kaupmanna án ívilnana í skatti, þá eiga þau engan rjett á sjer. Það er þá af því, að verslun þeirra er dýrari en kaupmannaverslunin. Það verður þá beint tap fyrir landið að halda þeim uppi. Á hinn bóginn er líka rangt að íþyngja keppinautum fjelaganna með sköttum, ef það getur leitt til þess, að þeir geti ekki staðist samkepnina. Samkepnislaus verslun getur aldrei orðið góð til lengdar, hvort sem hún er rekin af einstökum mönnum eða fjelögum. En samkepnin sjálf hlýtur að skera úr því, hvor verslunin er ódýrari. Ef það er rjett, sem haldið er fram af forvígismönnum samvinnustefnunnar, að samvinnuverslunin sje ódýrari, þá þarf þar engra ívilnana við: kaupmennirnir hljóta þá blátt áfram að verða undir.

Þá er það í annan stað athugavert, hvernig hjer er farið fram á að ívilna samvinnufjelögunum. Ef þeim ætti að ívilna á nokkum hátt, þá ætti það að vera þannig, að það væri um leið hvatning til að safna sjer tryggingarsjóðum, en ekki til að borga meðlimum sínum sem mestan ágóða. Það vita allir, hvernig þessi fjelög eru bygð og að þau starfa í raun og veru þannig, að ekkert fjármagn er á bakvið, annað en samábyrgð fjelagsmanna. Ef þau verða fyrir einhverjum skakkaföllum, þá getur af því leitt fjárhagshrun fyrir heilar sveitir. En þær ívilnanir, sem hjer er um að ræða í tekjuskattsfrv., fara einmitt í þú átt að hvetja fjelögin til þess að láta bráðabirgðahag viðskiftamanna sitja fyrir, en ekki að tryggja fjelögin með því að safna sem mestum sjóðum. Jeg hefði vel getað fallist á að ívilna fjelögum þessum eitthvað í skatti á þann hátt, að viss hluti árságóða þeirra, sem lagður væri í fasta tryggingarsjóði þeirra, skyldi alveg undanþeginn tekjuskatti. En hitt, að undanskilja einmitt það skatti, sem úthlutað er viðskiftamönnum í lok hvers árs, og þannig beinlínis hvetja til þess að leggja sem minst í tryggingarsjóði, það tel jeg alveg fráleitt. Það mun líka draga úr hvötinni til að keppa við aðra. Það er alkunnugt, að þessi fjelög selja vörur sínar eins dýrt og jafnvel oft og einatt dýrara en kaupmenn. Fjelögin láta sig þannig eingöngu skifta hag sinna fjelagsmanna, en ekki hitt, hve hátt vöruverð er alment í landinu. Þau vinna þannig ekkert að því að bæta verslunina eða gera hana ódýrari alment. Og með þessum ívilnunum eru þau á engan hátt hvöt til þess, heldur þvert á móti.

Ef þingið vildi á nokkurn hátt hafa áhrif á verslunina með skattalöggjöfinni, þá ætti það þó vissulega að gera það á þann hátt, að reyna að tryggja hana og bæta.

Það væri líka bersýnilegur órjettur ger þeim mönnum, sem ekki versla við kaupfjelögin, ef það þá er rjett, sem haldið er fram af forvígismönnum samvinnustefnunnar, að yfirleitt sje meiri hagnaður af viðskiftum við kanpfjelög en kaupmenn. Kaupmenn eiga að greiða alla skatta, og verður þeirra tilkostnaður þeim mun meiri en fjelaganna, og þeim tilkostnaði verða þeir að ná að einhverju leyti af viðskiftamönnum sínum.

Samkvæmt 9. gr. eru samvinnufjelögin algerlega undanþegin skatti af viðskiftum við fjelagsmenn, og það er hvergi tekið fram, að ágóðahluti fjelagsmanna, sem þeim er úthlutað í árslok sem uppbót á verði keyptra vara, skuli skattskyldur hjá þeim, og af því verður þá enginn tekjuskattur greiddur. (Ýmsir þm.: Jú). Jeg finn engin ákvæði í frv. um að slíka uppbót skuli telja fram til skatts. En þó að svo væri, að þessi verslunarágóði einstakra fjelagsmanna væri talinn með skattskyldum tekjum þeirra, þá er auðsætt, hve miklu rýrari sá skattur yrði, tekinn af smáupphæðum í mörgum stöðum, heldur en ef það væri skattað í einu lagi, og þá eftir hærri taxta. — En hinsvegar ef það er viðurkent, að þessar tekjur eigi að vera þannig skattskyldar, þá verð jeg að segja, að þá er ekki lengur fylgt kenningum samvinnuforkólfanna, sem svo mjög hefir verið haldið hjer að fólki, því að samkvæmt þeim kenningum átti þetta hvergi að vera skattskylt, hvorki hjá fjelaginu nje einstökum mönnum. En ef forkólfar samvinnustefnunnar játa það þó í öðru orðinu, sem þeir neita í hinu, þá mega þeir það að vísu fyrir mjer. En mjer finst þá svo skamt á milli, að þeir ættu tregðulítið að geta gengið inn á það, að skatturinn verði krafinn þar, sem hægast er að ná honum og hann verður drýgstur ríkissjóði, en það er hjá fjelögunum.

Jeg hafði gert ráð fyrir að koma með brtt. um þetta við 3. umr., en er þó ekki ráðinn í því, þar sem jeg þykist vita fyrir forlög slíkra till.