07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þorsteinn Jónsson:

Þó að brtt. mín á þskj. 511 verði samþ., þá hefði það enga röskun á tekjum ríkissjóðs í för með sjer. Jeg ber hana fram aðeins til þess að samrýma anda samvinnulaganna og þessa frumvarps.

Eins og jeg tók fram þegar samvinnufrv. var til umræðu, þá er varasjóður samvinnufjelaganna ekki eign neinna einstaklinga, heldur opinber sjóður til almennra þarfa.

Brtt. mín gengur út á að undanþiggja það fje, sem renna á í varasjóð, skattskyldu. Samkvæmt 7. gr. frv. eiga samvinnufjelögin að greiða 6% af tekjum sínum í ríkissjóð. En eftir brtt. minni er arðurinn, sem kemur af viðskiftum fjelagsmanna sjálfra við fjelagið, undanþeginn skatti, en aftur á móti er allur arðurinn af viðskiftum við utanfjelagsmenn skattskyldur. Jeg vil biðja menn að athuga það, að mestur hluti af arði fjelaganna er runninn frá þeim viðskiftum. Hinn arðurinn, sem leiðir af viðskiftum fjelagsmanna sjálfra, er hverfandi litill á móts við hann, svo að þetta er í rauninni mest formsatriði. En samkvæmt þeim anda, sem háttv. deild viðurkendi með því að samþykkja samvinnufjelagalögin, þá verður háttv. deild að samþykkja þetta, ef hún vill vera sjálfri sjer samkvæm.

Jeg get bent á það til samanburðar, að Danir og Bretar borga ekkert í opinberar þarfir af varasjóðum samvinnufjelaganna. Þeir álíta þá svo líka sparisjóðum, að þeir eigi að njóta sama rjettar og þeir.

Till. á þskj. 497 mun vera fram borin vegna misskilnings. Mjer skildist á ræðu háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) að arðberandi eignir í sparisjóðum væru ekki skattskyldar. Vitanlega borgar hver einstakur eigandi skatt af þeim með öðrum eignum sínum, eins og sjálfsagt og rjett er.