07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Þorgilsson:

Við, sem eigum brtt. á þskj. 497, en hún fer fram á, að á eftir 15. gr. í frv. um tekjuskatt og eignarskatt komi ný grein, sem þá verði 16. gr., höfum leyft okkur að koma fram með hana af þeirri ástæðu, að við höfum allir verið í skattanefndum, og höfum í því starfi voru fundið, hversu það er vandasamt oft og einatt að komast að raun um, hvað hver einstakur á inni í bönkum eða sparisjóðum. Það er venjulega svo, að það er viðkvæmt mál fyrir viðkomandi menn að gefa upp inneignir sínar, svo eru og bankastjórnirnar þagnarskyldar um þessi efni. Því hefir það reynst svo, að það er ærið vafningasamt fyrir skattanefndirnar að fara þessar leiðir. En þær eru með öllu óþarfar og útilokaðar samkvæmt brtt. þessari. Hún fer sem sje fram á það, að stjórnir viðkomandi stofnana svari skatti af inneignunum beint til ríkissjóðs. Brtt. gerir ráð fyrir því, að skatturinn verði 6% af ársvöxtum inneignarinnar. En hinsvegar á engum öðrum skatti af inneignum þessum til ríkissjóðs að svara. Það má nú vera, að þetta sje í raun og veru lægra en fram á er farið í skattafrv. En hinu verð jeg fast fram að halda, að þetta sje öruggara og drýgra ríkissjóði til tekna. Tekur það og af vafa allan um það, að nokkuð sje eftir skilið eður undan dregið. Af ástæðum þessum höfum vjer látið oss nægja þennan prósentuvísi.

Jeg vona nú, að hv. deild sjái, að þetta er einvörðungu gert í því skyni, í fyrsta lagi til að ljetta starf innheimtumannanna, í öðru lagi til þess að gera tekjugrein þessa ríkissjóði öruggari, og í þriðja lagi til þess að losa þá menn, sem fje eiga inni, við það að gefa upp, hversu mikið það er, því að eins og jeg drap á áðan, er það mörgum manni viðkvæmt mál.

Sú mótbára hefir komið fram gegn brtt. þessari, að hún mundi geta stuðlað að því, að þeir, sem stórar upphæðir ættu inni, tækju þær út og flyttu þær til útlanda, til þess að losna við að gjalda skatt. Ekki þykir mjer tilgáta þessi líkleg, en þó svo væri, þá hygg jeg, að þeir menn, sem þetta hefðust að, væru ekki líklegir til að gefa rjettilega upp inneign sína, ef til þess kæmi. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess, að háttv. deild samþykki brtt. þessa.