07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það hafa komið fram allmargar brtt. við frv. þetta, og þykir mjer því hlýða að fara nokkrum orðum um þær, og tek þær þá eftir röð.

Á þskj. 472 eru nokkrar brtt. frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), og verð jeg að segja um þær, að jeg get ekki felt mig við þær, sjerstaklega er mjer illa við það ákvæði, sem 1. brtt. ræðir um, að alt sem borgað er út af hlutafjelagi í arð, skuli talið til tekna hjá hinum einstöku hluthöfum. Slíkt ákvæði rýrir tekjur ríkissjóðs að mjög miklum mun. Í stjórnarfrv. er farin sú leið að taka ákveðna hundraðstölu, er skattist hjá hluthafa, en hitt hjá fjelaginu. Sum af hlutafjelögum þessum eru stórgróðafjelög, og rísi slík fjelög hjer upp, þá er þetta stórtap fyrir ríkissjóð. Jeg skal játa, að tvískattaður er sá hluti af tekjunum, sem útborgaður er yfir 4%. En það er siður að skatta hærra fjelög heldur en einstaka menn, og það af ástæðum, sem yrði of langt að fara út í hjer, en sem jeg tel að öðru leyti á fullum rökum bygðar.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) bar þetta saman við samvinnufjelögin, og sagði arð hlutafjelaganna skattaðan, og þótti því ranglæti, að ágóði samvinnufjelaganna yrði ekki undir sama ákvæði. En þetta er ekki eins mikið ranglæti og það sýnist, því að svo er um mælt í lögum samvinnufjelaganna, að ágóði þessi sje ekki eign fjelagsins, heldur sje honum skift upp á milli fjelagsmanna, t. d. við áramót. Fjelögin geta því ekki ráðið yfir þessum hluta ágóðans, en hlutafjelögin geta það; þau ein ráða hvað þau gera við arðinn af sinni starfsemi. Þarna er sá mikli munur: að vera eigandi, eða vera ekki eigandi.

Þá er brtt. frá háttv. sama þm. (J. Þ.), um að 23. gr. frv. falli niður. Jeg skal játa, að jeg bjóst við, þegar jeg samdi frv., að bæjarstjórnin bæri fram frv. í svipaða átt og 1917, um breytingar á niðurjöfnun í Reykjavík. Undarlegt, að bæjarstjórnin áliti bráðnauðsynlegt að breyta þessu 1916–1917, en legðist svo á móti því nú. Það er ekki rjett, að þingið stoppaði framkvæmd þessa máls, heldur bæjarstjórnin sjálf. Jeg sat í nefnd þeirri á þingi það ár, sem hafði mál þetta til meðferðar, og það var, ef jeg man rjett, þegar málið átti að fara til 2. umr., að hætt var við alt saman.

Jeg sje ekki annað en að gr. þessi megi standa, þar sem samvinna milli ríkis og bæjar er eðlileg, og bærinn hlýtur að hafa mikið gagn af skattskránum. Það er altaf hagur að því að vinna saman, enda verður þá meiri sanngirni og samræmi í skattinum. Niðurjöfnunarnefndin, eða fyrirkomulag hennar hjer í Reykjavík, hlýtur að breytast. Það ástand, sem nú er, er lítt viðunandi.

Hinar brtt. sama háttv. þm. (J. Þ.) standa víst allar í sambandi við þessa, eða er ekki svo? (J. Þ.: Jú).

Þá er brtt. háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), um dagpeningana. Hana mun jeg ekki gera að kappsmáli eða ágreiningsatriði. Mjer skilst þó, að frá dagpeningum verði að minsta kosti að draga þann kostnað, er á legst. En vanalega eru dagpeningar þessir lítið hærri en svo, að þeir hrökkvi fyrir beinum kostnaði.

Brtt. á þskj. 477 hlýtur að falla niður, þar sem önnur nýrri er komin í staðinn, svo að um hana þarf jeg ekki að fjölyrða.

Þá er brtt. á þskj. 497, um að bankar og sparisjóðir skuli heimta inn skattinn af þeim arðberandi inneignum, er þeir hafa undir höndum. Jeg skal játa, að um það leyti sem frv. þetta var samið, varð tilrætt um, hvort hægt væri að fara þessa leið, en frá því var horfið, að dæmi annara þjóða, því að þær hafa ekki þorað að taka þetta ákvæði upp í skattalöggjöf sína, af ótta við það, að menn myndu þá flytja peninga sína úr landi. Og slíkt er ekki útilokað hjer, þótt minni brögð yrðu kannske að því. Þó mælir ýmislegt með þessari till., en á móti henni er það, eins og hún nú er, að skatturinn fer ekki stighækkandi. Að öðru leyti legg jeg það á vald háttv. deildar, hvað hún gerir í þessu efni; jeg hefi bent á kosti og lesti brtt., og jeg skal bæta því við, að jeg þorði ekki að taka þetta ákvæði upp.

En jeg skal taka það fram, út af orðum háttv. frsm. (Sv. Ó.), að það er misskilningur hjá honum, að skattanefndum sje með till. gert erfiðara fyrir, heldur þvert á móti er þeim gert auðveldara í alla staði. Skattanefndirnar þurfa aldrei að fá þessar tekjur taldar fram. (Sv. Ó.: Jú, vegna eignarskattsins). Nei, það stendur, að eignarskatt greiði allir hinir sömu, sem skattskyldir eru til tekjuskatts. (Sv. Ó.: Þá þarf að breyta 18. gr.) Nei, þess þarf ekki með.

Þá er brtt. á þskj. 503, frá háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) o. fl. Jeg vil benda háttv. flm. á það, viðvíkjandi 1. brtt. þeirra, að meiningin með umræddu ákvæði í 11. gr. er sú, að þeir, sem hafa uppkomin börn til vinnu, svari hlutfallslega sama skatti og þeir, sem ekki hafa slík börn. Og eftir reglunni á þá ekki að mega draga frá nema það skyldulið, sem eru sjálfstæðir gjaldendur. Og ef þetta ákvæði reyndist ósanngjarnt í einstaka tilfellum, þá er altaf hægt að láta barnið eða skyldmennið telja sjálft fram, svo að hlutaðeigendur hafa í sínu valdi að leiðrjetta þetta ranglæti.

Þá er 2. brtt. á sama þskj. við 13. gr., að fyrir „um hjón er að ræða, sem samvistum eru“, komi: „fjelagsbú hjóna er að ræða, eða manns og konu, er saman búa ógift“. Það er mjög óákveðið þetta, „sem saman búa ógift“. Ef maður býr með ráðskonu, mætti eftir þessu draga undan 1000 krónur, en þó er það ekki rjett, því að ráðskonan er sjálfstæður gjaldandi. Yrði þessi brtt. samþykt, gæti þetta valdið ruglingi í framkvæmd laganna.

Þá er 3. brtt. við 29. gr. frv., og hljóðar um þóknun til skattanefnda. Mjer skilst, að það, sem háttv. flm. hafa á móti frv.- gr. sje það, að sveitarsjóðum sje gert að skyldu að greiða nokkurn hluta kostnaðarins; en á það ber þó að líta, að hreppsnefndir hafa mikið gagn að skattaskránum við niðurjöfnunina. Háttv. flm. (Þorl. J.) sagði, að hreppsnefndir hefðu haft framtalið með höndum, en nú er gert ráð fyrir, að framtalið falli burtu. (Þorl. J.: Já, framtalið undanfarið, en það hefir ekki þurft að greiða hreppstjórunum neitt fyrir það sjerstaklega). Já, en því síður verður borgað fyrir það framvegis, þegar það verður alls ekki framkvæmt.

Mjer er illa við að fella niður 43. gr., enda getur mjer engan veginn skilist, að það sje neinum vandkvæðum bundið fyrir húsb. að heimta inn skattinn hjá hjúum sínum. Það hlýtur líka að verða margfalt ljettara fyrir húsbóndann að ná gjaldinu heldur en ríkissjóð, sem ef til vill þarf að elta hjúið landshornanna í millum. Slíkt ákvæði sem þetta er líka í sóknargjaldalögunum og kirkjugjaldslögunum, og hefir enginn fundið það órjettlátt. Þess vegna finst mjer rjett að halda þessu ákvæði.

5. brtt. á þskj. 503 geri jeg ekki að neinu kappsmáli, og get því fallist á, að 52. gr. falli niður. Ákvæði gr. er nýmæli og tekið úr skattalöggjöf annara þjóða, og sem sagt, vilji háttv. deild heldur fella það niður, læt jeg mjer slíkt á sama standa. Þó vildi jeg benda á það, að það er ekki erfiðara að breyta tekjuskattsupphæðinni með almennum lögum en með fjárlögum. En trygging dálítil er í því fólgin, að þetta má aðeins gera fyrir 1 ár í senn, en sje það gert með öðrum lögum en fjárlögum, þá gildir það þangað til þau lög eru afnumin.

Þá er brtt. á þskj. 511, frá háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), og get jeg tekið í sama strenginn og háttv. frsm. (Sv. Ó.), að mjer finst brtt. þessi ekki eiga heima á þessum stað, og heldur engin þörf á henni. Mjer finst líka, að hún geti valdið ruglingi, og vildi því mega mælast til þess, að háttv. flm. taki hana aftur.

Þá er brtt. á þskj. 517, frá háttv. samþingismanni mínum (J. S.), og fram komin til þess að geta losnað við útflutningsgjald. Jeg verð nú að segja, að verði brtt. þessi samþykt, þá verður skatturinn svo hár, að búast má við, að hann verði óvinsæll. Og þó að jeg sje á móti útflutningsgjaldi, þá hlýtur að mega finna betri útvegi en þennan. Slík hækkun sem þessi getur haft slæm áhrif á tekjuskattsframkvæmdirnar, sjerstaklega þó í byrjun. Þar að auki er jeg ekki viss um, að þessi 35% sje nógu hátt, til þess að vega upp á móti útflutningsgjaldinu. Og jeg vildi óska þess, að við þyrftum ekki bæði að hækka tekjuskattinn og hafa útflutningsgjald.

Þá er það síðasta brtt. á þskj. 525, frá háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Og skal jeg þá taka þegar fram um hana, að hún er langverst og fráleitust af Öllum brtt., sem fram hafa komið við frv. þetta, enda rýrir hún svo tekjurnar frá því, sem ætlast var til í upphafi, að jeg vil heldur að frv. sje felt frá þessari umr. en að hún nái fram að ganga. Hjer er áreiðanlega um það að ræða að sleppa að minsta kosti helmingi allra þeirra gjaldenda, sem frv. ráðgerir, og hlýtur það að verða stórkostleg tekjurýrnun. Allir einhleypir menn myndu sleppa undan, en lágmarksákvæðið í frv. var sett til þess að ná í slíka menn, sem annars greiða sama og ekkert til opinberra þarfa. Mjer skilst, að háttv. flm. till. miði hana við embættismannalaun, enda er hann orðinn alkunnur hjer í deildinni fyrir það að halda uppi svörum fyrir þá og þeirra rjett, og ætla jeg ekki að lasta það; en þegar hann í þessu sambandi heldur því fram, að margt smátt geri ekki eitt stórt, þá verð jeg að segja það, að þar er jeg á gagnstæðri skoðun. Það munar einmitt um þessar smátekjur; það er það, sem dregur sig saman; þess vegna megum við ekki við að sleppa öllum þessum fjölda gjaldenda. Víst er um það, að mjer vitanlega hefir engin þjóð enn sjeð sjer fært að hækka tekjulágmarkið svona mikið, þrátt fyrir alla dýrtíð.