07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Við 2. umr. þessa máls gerði jeg hálft í hvoru ráð fyrir að koma fram með brtt. til 3. umr., í sambandi við skattskyldu samvinnufjelaga. En svo sá jeg, að háttv. samþm. minn, háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hafði borið hjer fram brtt., sem jeg get felt mig við. Að vísu geri jeg ekki ráð fyrir, að hún nái fram að ganga, og dylst heldur ekki, að rjettara hefði verið að fara þá leið, sem jeg benti á við 2. umr.

Háttv. frsm. (Sv. Ó.) láðist að taka það fram, að um brtt. á þskj. 472 hefðu nefndarmenn áskilið sjer óbundin atkvæði. Get jeg fyrir mitt leyti vel gengið inn á það, sem í þessari till. felst, að um þessi fjelög eigi að gildi sömu reglur í þessu efni og um samvinnufjelögin. Mjer finst, að þessir menn hafi hjer sömu rjettlætiskröfur og samvinnufjelagsmenn hafa að dómi deildarinnar. Að vísu dylst mjer ekki, að það muni erfiðara að ná inn skattinum hjá meðlimum hlutafjelaga en samvinnufjelaga, vegna þess, að hlutabrjef eru oftast gefin út á handhafa. En það út af fyrir sig finst mjer ekki næg ástæða til þess að vera á móti þessari brtt.

Annars finst mjer ekki ástæða til að vera að ræða þetta mikið. Jeg get alls ekki viðurkent þann greinarmun, sem hæstv. fjrh. (M. G.) vildi gera á fjelögum þessum. Verslun er þó altaf verslun, hvort sem um hlutafjelag eða samvinnufjelag er að ræða, og hver maður á að greiða skatt af atvinnurekstri sínum, hvaða nafni sem hann er kallaður.

Jeg þarf svo ekki miklu að bæta við það, sem háttv. frsm. (Sv. Ó.) tók fram, en vil þó minnast örfáum orðum á brtt. á þskj. 497. Jeg viðurkenni tilgang þann, sem að baki brtt. felst, að auðnáðari verði skatturinn, en á hinn bóginn er hún þó svo gölluð, að jeg get alls ekki á hana fallist.

Innieignir manna í bönkum eru oft engar eignir. Menn taka iðulega lán og leggja það inn í banka um stundarsakir, þangað til þeir þurfa á fjenu að halda. Sje jeg ekki að hægt sje, samkvæmt brtt., að undanþiggja slíkt fje skattinum, en hinsvegar alrangt að taka af því skatt. Ennfremur gæti þetta ákvæði komið í bág við það, að viss hluti af eignum manna á að vera skattfrjáls.

Loks má geta þess, að þessi skattur verður tilfinnanlega hár af smærri upphæðum, en margfalt lægri af stórum upphæðum heldur en frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir. Að því leyti fer þessi brtt. í þveröfuga átt. Að öðru leyti get jeg svo undirstrikað orð háttv. frsm. (Sv. Ó.).