07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði raunar ekki að taka hjer til máls, en sje, að jeg get sparað mjer hjer umræður um annað mál, ef jeg tala nú, Það er nefnilega hjer á ferðinni brtt. á þskj. 517, sem stendur í sambandi við 1. málið á dagskránni, útflutningsgjaldið. Þessi brtt. er frá háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) og fjallar um að heimila stjórninni að hækka skattinn á næsta ári um 35%, og er hún fram komin vegna þess að þessi háttv. þm. (J. S.) vill ekki að útflutningsgjaldið verði samþ.

Fyrst er þá að aðgæta það, að þessi hækkun er æðimikil. Þessi skattur er í raun og veru byrjunarskattur, þótt hann hafi verið til áður að nafninu. Og jeg óttast, að sje hann gerður mjög hár í fyrstu, þá muni að minsta kosti sumir freistast til að telja varlega fram tekjurnar. Er þá illa farið, því að mikils er um vert, að fyrstu sporin sjeu ávalt vel trygð. Og ef nú sú verður raunin á, að menn draga undan tekjurnar, þá er ekki gott um það að spá, hversu mikið muni vinnast með þessari hækkun. Annars reiknar hæstv. stjórn, að mínu áliti, tekjurnar af þessum skatti langt of hátt. Tekjur manna hljóta að verða minni á þessu ári en undanfarið, og langtum færri, sem ná í skatt. Að vísu lækkaði háttv. þm. (J. S.) þessa áætlun stjórnarinnar niður í 7–8 hundruð þús. kr. En jeg fyrir mitt leyti vildi lækka þá áætlun enn meira. En þó að við þetta væri miðað, þá yrði hækkunin samkvæmt brtt. ekki nema 250 þús. kr., en útflutningsgjald mun nema að minsta kosti 350–400 þús. kr. Það mun því vera um ugglaust tap að ræða fyrir ríkissjóðinn, ef horfið verður að þessu ráði háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.).

Þessi háttv. þm. (J. S.) kvaðst vera andvígur útflutningsgjaldi, og kvað það ósanngjarnt. Jeg er honum samdóma í því efni. En þegar tekjuhalli ríkissjóðs er svo mikill sem nú, þá hika jeg ekki við að leggja til, að útflutningsgjald sje lagt á íslenskar afurðir á næsta ári. Jeg geng þess ekki dulinn, að framleiðendur þyrftu nú hjálpar við, en þó vil jeg láta þá leggja þennan skatt á sig, til þess að þeir þurfi ekki að horfa á tekjuhalla ríkissjóðsins. Að öðrum kosti sje jeg ekki annað en taka verði eyðslulán, en það er hið mesta óráð í mínum augum, og alt til þess vinnandi, að til slíks örþrifaráðs þurfi ekki að grípa.

Þá vil jeg með örfáum orðum minnast á brtt. á þskj. 497, sem þessi sami háttv. þm. (J. S.) er flutningsmaður að, ásamt nokkrum fleiri háttv. þm. Þar er gert ráð fyrir, að skatturinn hækki allmikið á lægri upphæðum, en lækki á hinum hærri. Jeg get nú vel viðurkent, að tekjuskattur sje í sjálfu sjer rjettlátur, en hann er því aðeins rjettlátur, að rjettlátlega sje með hann farið. Og þá kalla jeg rjettlátlega með skattinn farið, ef hann hækkar eftir því, sem skattskyldu upphæðirnar vaxa. En þessi till. fer hjer algerlega í gagnstæða átt.

Jeg hefi nú að gamni mínu borið saman skatt af nokkrum upphæðum eftir þessari brtt. og eftir stj.frv.

Ef einhver á í banka 15 þús. kr., þá þarf hann að greiða af því 45 kr. í skatt samkvæmt brtt., en ca. 10 krónur samkvæmt stjórnarfrv. Ef nú sami maður á 50. þús. kr., þá greiðir hann af þeim eftir till. 1500 kr., en samkvæmt frv. 2121 kr.

Mega nú allir sjá, að hjer er um sýnilegt órjettlæti að ræða, ef þessi till. verður samþ.

Enn vil jeg taka sömu dæmi og áður, og sýna hvernig þá lítur út tekjuskatturinn, ef báðar till. 2. þm. Skagf. (J. S.) verða samþ. Þá greiðir maður af 15 þús. kr. 45 kr. + 35% = 60.75 kr., en eftir frv. ca. 13 kr. Og af 500 þús. kr. 1500 kr. + 35% = 1925 kr., en eftir frv. með sömu hækkun kr. 2963.35. Svo ekki tekur betra við fyrir það.

Till. hefir að vísu þá kosti, að hægra verður að heimta inn skattinn, en þó tel jeg ekki ugglaust, að menn geti ekki falið fje sitt á vöxtum, eða sett það inn í banka undir gervinöfnum. Jeg tel því þessa till. alls ekki hagkvæma og mun greiða atkv. á móti henni.

Ef farið er eftir tekjuskattsskala stjórnarfrv., þá kemur enn betur í ljós ranglætið í till. Að vísu má það vel vera, að hægt sje að koma þessu heppilegar fyrir en gert er í frv., en jeg fæ ekki sjeð það, að minsta kosti ekki í svip.

Jeg hefi gert þennan samanburð til þess að sýna, að varhugavert sje að samþ. þessar brtt., og því rjettara að hverfa að því ráði að samþ. útflutningsgjaldið.