07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Jeg vildi segja örfá orð út af ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.). Jeg sje ekki betur en að mjög miklir örðugleikar verði að ná í skatt þann, sem till. á þskj. 497 fer fram á. Menn geta skift inneign sinni í sparisjóðum í smáhluti, sett hana undir öðrum nöfnum og flutt hana í annað hjerað, svo erfiðara verði að komast fyrir, hver eigandinn sje. Jeg er sannfærður um, að framkvæmdir verða handahóf, og skatturinn þess vegna órjettlátur í raun og veru, þó að hann sje skárri á pappírnum. En þetta er ekki aðalatriði, heldur hitt, að með þessum skatti er vikið frá þeirri stefnu, að skattur vaxi með tekjum manna. Þessi skattur tekur ekkert tillit til þess, hvernig sá er stæður í raun og veru, sem innstæðuna á. Þess vegna verð jeg að leggjast á móti honum. Eins má benda á eitt vandræðaatriði í þessu máli, og það er hvenær eigi að krefja skattinn, við hvaða tíma eigi að miða. Ef miðað er t. d. við nýár, þá geta menn tekið peninga sína út í bili til þess að losna við skattinn.

Þá vil jeg víkja að brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) við 23 gr. Hann vill láta eignar- og tekjuskatt hjer í Reykjavík renna til bæjarsjóðs, en ekki landssjóðs. Þess vegna vill hann fella greinina. Þetta verður að vera samkomulagsatriði, og þarf ekki að fella greinina til þess. Hún kemur ekki til framkvæmda nema bæjarstjórn gangi inn á það, og þess vegna má hún standa. Jeg mun því greiða atkv. gegn till. þessa háttv. þm. (J. Þ.).