07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal sleppa að svara öðru en því, sem sjerstaklega þarf svara við.

Mjer fanst háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) gera lítið úr þeim tekjuauka, sem fengist, ef verðstuðull væri lagður á skattfrjálsu upphæðina. Hann túlkaði það svo, að þetta næði aðallega til efnalítilla manna, og væri lítið af þeim að hafa og ekki rjett að reyna um of þolrif þeirra. Jeg hefi aðallega í huga lausamenn og þess konar fólk, og er það satt, að tekjur þess eru ekki miklar, en útgjöldin eru að sama skapi lítil, og eru þeir ekki ófærari um að greiða skatta en aðrir. Og jeg held, að ef till. verður feld, muni mikið dragast undan skatti og hann lækka að sama skapi.

Þá er till. um að skattleggja inneignir í bönkum, og þarf jeg þar engu við að bæta það, sem sagt hefir verið, því að háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) og háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hafa sýnt fram á, að till. er ekki aðgengileg. En till. er fram komin án þess, að flm. hennar hafi borið sig saman við nefndina um hana, og þykir mjer aðferð sú heldur pukursleg.

Þá kem jeg að háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og muninum á hlutafjelögum og samvinnufjelögum. Þessi munur hefir verið margtekinn fram, en háttv. þm. (J. Þ.) virðist eiga erfitt með að skilja hann. Samvinnufjelög miða að því að bæta hag almennings, en ekki að safna fje, en hlutafjelög eru stofnuð í gróðaskyni, eru samtök manna, sem eitthvað eiga, til þess að eignast meira, eignast sem mest.

Háttv. þm. (J. Þ.) virtist vilja bera mjer á brýn, að jeg teldi þessi fjelög samskonar, en það vil jeg ekki láta hafa eftir mjer.

Annað var það í ræðu háttv. þm. (J.Þ.), sem jeg gat ekki felt mig við. Hann spáði því, að eignar- og tekjuskatturinn mundi aðallega lenda á kaupstaðabúum og embættismönnum, og þennan spádóm þóttist hann byggja á reynslu. Þetta er hálfeinkennilegt, því að ekki er líklegt, að menn geti frekar dregið undan eignir sínar í strjálbýlum sveitum en í fjölmennumkaupstöðum, þar sem hægt er að dreifa fje sínu í allskonar hlutafjelög, án þess að menn viti, hver á það í raun og veru; þar sem hægt er að fela fje sitt hingað og þangað, til þess að láta það draga sem mest að sjer, en bera sem minstan skatt.

Jeg býst við, að háttv. þm. (J. Þ.) sje kunnugt um, að þetta er mögulegt.

Um till. háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.), um að hækka tekjuskattinn, en afnema útflutningsgjaldið, skal jeg verða fáorður. Samanburður hans var ekki rjettur að því leyti, að útflutningsgjaldið kemur ekki niður á færri mönnum en skatturinn. Það getur hver sagt sjer sjálfur. Auk þess má benda á, að ekki er hægt að vita, hve viss tekjustofn eignar- og tekjuskatturinn verður, en útflutningsgjaldið er reynt að því leyti, og þess vegna er varhugavert að breyta svo algerlega til.