18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Við eigum tveir brtt. á þskj. 627, hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) og jeg.

Brtt. þessi fer í þá átt, að 52. gr. frv. falli burt. í grein þessari er ákveðið, að tekjuskattinn megi hækka og lækka um eitt ár í senn með ákvæði í fjárlögunum, með því að margfalda allar skattupphæðir með sömu tölu. Samskonar ákvæði og þetta hefir verið í fleiri frv. frá stjórninni, en altaf verið felt. Og við álítum eigi síður þörf að fella það burtu hjer, því að við lítum svo á, að ef þetta ákvæði kemst að, þá sje hægt mjög snögglega að breyta allri skattalöggjöfinni.

Það gæti t. d. komið fyrir, að samviskan vaknaði alt í einu hjá háttv. Nd. og hún sæi hinn mikla halla í fjárlögunum, og fyrir því dytti henni í hug að hækka tekju- og eignarskattinn, til þess að hafa upp tekjuhallann.

Þetta hljóta allir að sjá að er óheppilegt, að hægt sje að breyta skattalöggjöfinni í stórvægilegum atriðum á einum eða tveimur dögum. Jeg vona því, að hv. deild taki vel í þessa brtt. okkar, og það því fremur, sem hæstv. fjrh. (M. G.) hefir lýst því yfir, að hann gerði þetta eigi að kappsmáli. Við höfum tveir skrifað undir nál. með fyrirvara, og hefi jeg nú gert að mestu leyti grein fyrir honum, og skal því eigi fara frekar út í það.

En aðalástæðan fyrir því, að jeg greiði atkvæði með frv. þessu er sú, að jeg held, að það gefi ríkissjóði meiri tekjur en hin eldri skattalöggjöf um þetta efni, en hins vegar er jeg mjög óánægður með frumvarpið. En hins vegar var það sýnilegt, að ef nefndin hefði farið að gera breytingar við frv., þá hefði það tæplega náð fram að ganga, þegar búið er að ákveða að slíta þingi eftir nokkra daga, og fjárlögin eru sama sem búin.

Jeg vil benda á eitt atriði, sem vakti mikla athygli hjá mjer, fyrir utan það, að jeg tel of háan skatt lagðan á hinar lægri tekjur, og það er það, hve mikill skattur er lagður á hlutafjelög, samanborið við einstaka menn. Þannig verður einstakur maður, sem hefir 100 þús. kr. tekjur, að greiða í tekjuskatt 12 þús. kr., en hlutafjelag, sem hefir 100 þús. króna tekjur, þarf að borga 21 þús. kr. í tekjuskatt. Þennan mismun tel jeg altof mikinn. Þetta gæti verið rjett, ef hlutafjelögin störfuðu einungis með hlutafjenu. En nú er vitanlegt, að flest af þeim hlutafjelögum, sem starfa hjer, verða allmikið að taka til persónulegrar ábyrgðar. Kemur þetta því allhart niður á sumum fjelögunum.